Fimmtudagur 26. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Vigdís Finnbogadóttir mun sakna Gunnars: „Gunnar var hlýr maður og drengur góður“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, er meðal marga sem minnast Gunnars Þorsteins Halldórssonar íslenskufræðings. Hann lést á Landspítalanum 19. október síðastlðinn eftir snarpa baráttu við krabbamein. Gunnar lætur eftir sig þrjú börn.

Gunnar fæddist 9. apríl 1960 í Reykjavík. Gunnar varð stúdent frá MH, stundaði nám í norrænum fræðum við Uppsalaháskóla og frönskunám við háskólann í Nancy 1983. Hann lauk síðar BA í íslensku frá Háskóla Íslands. Gunnar starfaði meðal annars við kennslu, dagskrárgerð hjá Rás 2, var leiðsögumaður og rak gistiheimili í miðbæ Reykjavíkur.

Vigdís er góð vinkona móður Gunnars heitins, Önnu Einarsdóttur, og kveður hún góðan vin í minningargrein í Morgunblaðinu. „Það var í senn gaman og gefandi að eiga Gunnar Þorstein Halldórsson að vini. Við kynntumst vel á árunum þegar hann var sendikennari í íslensku og íslenskum fræðum við Sorbonne-háskólann í París og það var ævintýri að vera boðin í málsverði heima hjá honum þar sem hann bjó á efstu hæð í gömlu húsi með skröltandi lyftu. Hann var svo lánsamur að vera vel látinn kennari og nemendur hans í norrænum fræðum urðu vinir hans. Seinna, heim kominn, tengdist hann á vissan hátt aftur Frakklandi þegar hann festi sér gamalt hús á Fáskrúðsfirði. Það varð ógleymanlegt að njóta gistivináttu Gunnars í húsinu góða á Fáskrúðsfirði og rifja upp viðburðaríka sögu fyrri tíma. Þess skal einnig getið að Gunnar var orðhagur í besta lagi og gaf nýlega út ljóðabók sem hann nefndi Takk. Gunnar Halldórsson var hlýr maður og drengur góður. Ég sakna vinar í stað,“ segir Vigdís.

Felix Bergsson og Baldur Þórhallsson minnast einnig góðs vinar með hlýum orðum í minningargrein. Þeir voru miklir og góðir vinir. „Elsku vinur okkar Gunnar Þorsteinn lést eftir stutta og snarpa baráttu við krabbamein. Hann var sextugur að aldri og elskaður af börnum sínum þremur, móður, systkinum, barnabörnum, fjölskyldu og vinum. Þeir eru ófáir gestirnir sem orðið hafa á vegi okkar í gegnum árin sem lofuðu gestgjafa sinn hástöfum. En við minnumst Gunna fyrst og fremst fyrir dásamlegar stundir í París í gegnum árin. Gunnar kenndi íslensku um árabil við Sorbonne-háskóla og var dáður af nemendum sínum. Gunnar hafði einstakt lag á því að virkja nemendur og samræða um íslensk stjórnmál var skemmtileg,“ segja Baldur og Felix.

Þeir Baldur og Felix segja það ávallt hafa verið tilhlökkunarefni að koma til ástarborgarinnar París og eiga þar fund með Gunnari. „Þá hittumst við iðulega í Mýrinni og sátum úti á L’Open Cafe eða Les Marronniers svo Gunni gæti reykt smávindlana sína á meðan við slúðruðum, hlógum og skoðuðum alla sætu strákana. Gunni hafði kjark og þor til að brjóta af sér hlekki samfélagsins og vera hann sjálfur. Hann Gunni var svo skemmtilegur. Alltaf skarpur og hugsandi en líka jákvæður, pólitískur og listrænt þenkjandi. Hann var mikill íslenskumaður og hafði einstakt lag á málinu. Gunnar gaf út ljóðabók á síðustu dögum lífs síns. Hún er algjörlega mögnuð og vitnisburður um hnyttni hans, gáfur, tilfinningalíf og orðsnilld. Okkar er að þakka elsku vinur. Takk fyrir allt. Við munum sakna þín sárt. Far í friði,“ segja Felix og Baldur.

Útför Gunnars Þorsteins fer fram frá Dómkirkjunni í dag klukkan 13 að viðstöddum nánustu ættingjum. Streymt verður frá útförinni og hér má nálgast hlekkinn.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -