„Það eiga allir rétt á að vita hver þeirra uppruni er,“ segir Páll Andrés Lárusson, 51 árs gamall flugvirki, sem höfðað hefur dómsmál gegn manninum sem hann telur vera föður sinn. Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í júní að manninum bæri að láta af hendi lífssýni svo unnt verði að staðreyna faðernið. Það vill hann hins vegar ekki gera og hefur hann áfrýjað málinu til Landsréttar.
Fyrir um áratug síðan komst Páll að því að maðurinn sem hann er kenndur við, Lárus, var ekki líffræðilegur faðir hans, þótt hann hafði lengi grunað að svo væri. Ekkert samband var þeirra á milli og segir Páll að honum hafi þótt undarlegt að Lárus hafi aldrei gert sér far um að hafa samband við hann. Kominn langt á fertugsaldurinn ákvað Páll að eyða öllum efasemdum, setti sig í samband við Lárus og bað hann um að gefa lífssýni fyrir DNA-próf sem hann borgaði úr eigin vasa. „Þetta kostaði umtalsverðan pening og umstang því það þurfti að senda sýnin til Svíþjóðar. En það kemur í ljós að það eru 99,9 prósent líkur á að Lárus er ekki faðir minn. Ég gekk þá á mömmu, sem ég átti alla tíð í góðu sambandi við þangað til hún lést fyrir þremur árum, hún brotnaði niður og viðurkenndi að hún hafi haft samneyti við tvo menn í þeim mánuði sem ég var getinn.“
„Mér skilst að það sé fordæmalaust að menn áfrýji svona málum. Ef hann telur að hann sé ekki faðir minn þá væri langauðveldast að fara í DNA-próf og sanna það.“
Áfrýjar til Landsréttar
Páll leitaði til lögmanns og var fyrsta skrefið í að höfða véfengingarmál gegn Lárusi til að staðfesta það að hann væri ekki faðir hans. Gekk það auðveldlega í gegn og var næsta skref að fá þann sem Páll telur að sé faðir sinn til að gefa lífssýni. Það reyndist ekki jafnauðsótt því sá maður harðneitaði að verða við því. Átti Páll ekki annan kost í stöðunni en að höfða dómsmál til að fá það í gegn. Í dómi Héraðsdóms segir að málið verði ekki til lykta leitt án þess að fram fari mannerfðifræðilegar rannsóknir og því beri manninum að undirgangast slíka rannsókn. „Hann rengir þá niðurstöðu og áfrýjar til Landsréttar. Mér skilst að það sé fordæmalaust að menn áfrýi svona málum. Ef hann telur að hann sé ekki faðir minn þá væri langauðveldast að fara í DNA-próf og sanna það.“
Líka réttur barnanna
Páll segist hafa gert tilraunir til að hafa samband við manninn, án árangurs. Maðurinn vilji ekkert með hann hafa og í þau skipti sem hann hafi hringt hafi maðurinn skellt á hann. Hins vegar hafi Páll komist í samband við dóttur umrædds manns og er sambandið þar á milli með ágætum. „Það eina sem vakir fyrir mér í þessu máli er að fá staðfestingu á uppruna mínum. Ég á sjálfur tvö börn og ég gæti aldrei komið svona fram við þau og það er líka þeirra réttur að vita hvaðan þau koma. Svo finnst mér líka nauðsynlegt að vita ef það eru einhverjir ættgengir sjúkdómar í fjölskyldunni,“ segir Páll.