Verkalýðsforkólfurinn Vilhjálmur Birgisson ritar langan pistil á Facebook-síðu sinni – þar sem meðal annars þetta og margt annað kemur fram:
„Ég hef ítrekað spurt sjálfan mig að því á liðnum vikum hvort það sé þessi virði að vera að reyna að leiðrétta ítrekaðar rangfærslur og villandi og afveigaleiðandi athugasemdir við kjarasamning sem 18 aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands undirrituðu 3. desember sl. Kjarasamning sem í þokkabót var samþykktur að meðaltali með 86% greiddra atkvæða.“
Bætir við:
„Niðurstaða mín er einfaldlega sú að það er ekki hægt að sitja aðgerðalaus og horfa á allar þær rangfærslur sem forsvarmenn Eflingar með Stefán Ólafsson prófessor og fræðimann í broddi fylkingar, setja fram. Rangfærslur sem byggja á því að rýra trúverðugleika 18 aðildarfélaga SGS vítt og breitt um landið. En förum yfir staðreyndir og þær stórkostlegu rangfærslur sem forsvarsmenn Eflingar hafa haldið linnulaust uppi.
Meðal annars hefur því ítrekað verið haldið fram að nýgerður kjarasamningur SGS kalli á kaupmáttarskerðingu og það þrátt fyrir að kauptaxtar verkafólks í þessum samningi séu að hækka frá 10% upp í 13% eða að meðaltali um 11,28% Það liggur fyrir að SGS, VR og iðnaðarmannafélögin unnu með verðbólguspá Seðlabankans í þessum viðræðum sem gerir ráð fyrir tæplega 6% verðbólgu sem þýðir að kaupmáttaraukning yrði á kauptöxtum SGS um 5,28% ef þessi verðbólguspá gengur eftir.“
Vilhjálmur nefnir að „í þættinum Sprengisandi í gær spurði ég Stefán Ólafsson prófessor og fræðimann hví í ósköpunum hann sé að ýja að því að kjarasamningur SGS muni leiða til kaupmáttarskerðingar í ljósi þess að kjarasamningurinn sé að skila 11,28% meðaltalshækkun og verðbólguspáin sé 6%. Svarið frá fræðimanninum var vægast sagt stórundarlegt svo ekki sé fastar að orði kveðið en hann sagði orðrétt:
„Hins vegar að taka verði rýrnun á kaupmætti, sem hafi orðið á síðari hluta síðasta árs, inn í myndina.“
Hérna komum við að einum óheiðarlegasta blekkingarleik sem ég hef orðið vitni að, allt til að senda grafalvarlegar rangfærslur út til almennings og afvegaleiða innihald kjarasamnings SGS.“
Vilhjálmur segir að „það sem Stefán fræðimaður gerir ásamt forystu Eflingar er að taka hækkun á vísitölu neysluverðs frá 1. apríl 2022 til desember 2022 sem var hækkun upp á 4,8% og segja að þessa hækkun á vísitölu neysluverðs verði að draga frá 11,28% hækkun á kauptöxtum sem SGS samdi um. En um hvað snýst þessi ógeðfelldi blekkingarleikur fræðimannsins? Jú, hann sleppir 25.000 kr. launahækkunum sem komu á kauptaxta verkafólks 1. janúar 2022 og 10.500 kr. hækkun vegna hagvaxtarauka sem kom til framkvæmda 1. apríl 2022. En þessar tvær launahækkanir samtals að fjárhæð 35.500 kr. skiluðu 10,7% launahækkun. Forysta Eflingar með Stefán Ólafsson prófessor og fræðimann í broddi fylkingar sleppir þessari 10,7% launahækkun sem kom til framkvæmda á fyrstu mánuðum ársins 2022 og velur sér síðan að mæla hækkun á neysluvísitölunni eftir að þessar launahækkanir eru komnar til framkvæmda og segir að draga þurfi „kaupmáttarrýrnun“ á seinni hluta ársins frá!“
Vilhjálmur segist hafa „séð Samtök atvinnulífsins velja sér tímabil til að fá sem bestu niðurstöðu máli sínu til stuðnings en skal fúslega viðurkenna að svona grófan blekkingarleik hef ég aldrei séð áður. Hvað skyldu t.d. fulltrúar í kjaratölfræðinefnd segja um svona blekkingaleik, að sleppa 10,7% launahækkun og byrja að mæla hækkun á neysluvísitölunni um leið og launahækkun er komin til framkvæmda. Málið er að ætíð þegar verið er að skoða kaupmáttaraukningu eða skerðingu kjarasamninga þá er miðað við þegar kjarasamningar koma til framkvæmda og þar til þeir renna út. Ef kaupmáttaraukning lægsta taxta verkafólks í lífskjarasamningum sem var frá janúar 2019 til októberloka 2022 er skoðuð þá hækkaði lægsti taxti um 37,62% en neysluvísitalan hækkaði á sama tímabili um 20,5% Það þýðir að á samningstíma lífskjarasamningsins nam kaupmáttaraukning 17 prósentustigum. Málið er að alltaf þegar samið er þá eru stéttarfélögin að semja fram í tímann og á það eins við núna og eins og áður hefur komið fram þá er þessi skammtímasamningur að skila verkafólki 11,28% launahækkun á kauptöxtum í verðbólguspá sem miðast við 6% en það mun ef sú spá gengur eftir skila 5,28% kaupmáttaraukningu.“
Hann segir einnig að „þessi ógeðfelldi blekkingarleikur sem forysta Eflingar ástundar til að koma villandi og röngum upplýsingum á framfæri til að koma ógeðfelldu höggi á 18 aðildarfélög SGS er afar óheiðarlegur. Það er umhugsunarefni að fræðimaður eins og Stefán Ólafsson sem ætlast til þess að hann sé tekinn alvarlega skuli voga sér að ástunda svona óheiðarleg vinnubrögð sem standast ekki eina einustu fræðilegu skoðun. Ég hef áður sagt að við erum að stíga þétt og jöfn skref í því að lagfæra kjör verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði og er þessi kjarasamningur sem við undirrituðum 3. desember einn áfangi í því enda framhald af lífskjarasamningnum.“
Vilhjálmur bendir á að „launataxtar verkafólks eru að hækka frá 35.000 kr. upp í 52.000 kr. í þessum skammtímasamningi og laun stórra hópa eins og vaktavinnu- og fiskvinnslufólks eru að hækka um frá 50.000 upp í tæplega 70 þúsund krónur á mánuði. Kjarabaráttu fyrir bættum kjörum verkafólks lauk ekki í þessum kjarasamningi né lýkur henni í kjarasamningum framtíðarinnar enda er barátta fyrir bættum hag verkafólks eilífðarverkefni.
Ég óska félagsfólki Eflingar svo sannarlega velfarnaðar í sinni kjarabaráttu sem framundan er en mér sem formanni SGS ber skylda til að upplýsa og verja þegar svona óheiðarlegur blekkingarleikur er ástundaður. Það er alls ekki hægt að sitja undir hvaða óhróðri sem er.“