„Nú hef ég á sirka tveim vikum keypt þrjár fernur af rjóma frá MS, eina 250 ml og tvær 500 ml. Í öllum tilvikum hef ég hellt innihaldinu í mælikönnu til nota í tiltekinni uppskrift. Og í öllum tilvikum er innihaldið talsvert undir uppgefnu magni,“ skrifar Vilhjálmur Þorsteinsson í færslu á Facebook síðu sinni.
Vilhjálmur Þorsteinsson er fjárfestir og fyrrum gjaldkeri Samfylkingarinnar. Hann situr nú í einum af svokölluðum heiðurssætum flokksins, í kjördæmi Reykjavík norður eins og Mannlíf greindi frá hér. Félag í hans eigu fannst í Panamaskjölunum á sínum tíma eins og fram kom í þætti Kastljóss um málið árið 2016.
Nú er Vilhjálmur hins vegar kominn á neytendavaktina og greinir frá því að uppgefið magn hafi ekki staðist þegar hann hafi mælt innihald nokkurra rjómaferna.
Samkvæmt mælingum Vilhjálms reyndust aðeins rúmir 200 ml vera í 250 ml rjómafernu og í báðum 500 ml fernunum sem hann keypti voru innan við 450 ml.
Reiknast honum til að magnið sé því að minnsta kosti 10 prósent minna en stendur á umbúðunum og spyr Vilhjálmur: „Hefur einhver eftirlit með svona löguðu? Hafa fleiri tekið eftir þessu?“