Stjörnuhjónin Justin Timberlake og Jessica Biel eru búin að setja þakíbúð sína í hverfinu Soho í New York á sölu. Hjónin vilja tæplega átta milljónir dollara fyrir íbúðina, eða tæplega átta hundruð milljónir króna. Íbúðina keyptu þau árið 2010 á 650 milljónir króna.
Íbúðin er öll hin glæsilegasta og búin þremur svefnherbergjum og þremur baðherbergjum. Útsýnið úr íbúðinni er óviðjafnanlegt og vel hægt að sitja þar dægrin löng og dást að New York-borg.
Íbúðin er 240 fermetrar að stærð og mjög hátt til lofts. Í íbúðinni er einnig arinn og sérstakur viðarpanell sem hentar vel til að hengja listaverk á svo þau njóti sín. Þá er einnig sérstök víngeymsla í íbúðinni og hiti í gólfum í baðherberginu sem fylgir hjónaherberginu.
Mikil þjónusta er í byggingunni, en þar er opin móttaka allan sólarhringinn, sameiginlegur garður og líkamsræktarstöð.
Ár er síðan hjónin fluttu sig í stærri þakíbúð í gamalli verksmiðju sem var breytt í lúxushúsnæði. Þá íbúð keyptu þau á tuttugu milljónir dollara, eða um tvo milljarða króna. Sagan segir að aðrar stjörnur hafi einnig fest kaup á íbúðum í húsnæðinu, svo sem leikkonan Jennifer Lawrence og hjónin Blake Lively og Ryan Reynolds.