Um 3000 manns hafa skrifað nafn sitt undir undirskriftalista þar sem þess er krafist að dómnefndakerfið í Eurovision-keppninni verði ekki notað áfram. Þeir sem standa fyrir undirskriftasöfnuninni vilja að úrslit keppninar ráðist alfarið af niðurstöðum símakosningar.
Slíkt fyrirkomulag var í keppninni frá árunum 2003 til 2008, þá voru það atkvæði áhorfenda sem réðu úrslitum.
Í söfnuninni, sem fer fram í gegnum vefinn Change.org, er tekið fram að dómnefndir geti haft stórkostleg áhrif á úrslit. „Það er mjög ósanngjarnt í ljósi þess að dómnefndin er bara nokkrir einstaklingar frá hverju landi,“ segir í textanum.
Þá er fólk hvatt til að skrifa undir og krefjast þess að atkvæði almennings verði það sem ráði úrslitum.
Þess má geta að áhrif dómnefndar geta svo sannarlega verið mikil. Til dæmis hefði framlag Íslands í keppninni í ár endað í sjötta sæti en ekki því tíunda ef ekki hefði verið fyrir dómnefndina. Þá hefði Noregur sigrað Eurovision ef símakosningn hefði ráðið úrslitum.