Hugmyndir eru uppi um að reisa álfahúsið úr Eurovision-mynd Will Ferrels á Húsavík og færa varamannaskýli Völsungs, sem lék þar hlutverk biðskýlis, á sama stað og í myndinni.
„Hugmyndin er að endurskapa kvikmyndasettið,“ segir Hinrik Wöhlers, forstöðumaður Húsavíkurstofu, í samtali við Fréttablaðið.
Húsavíkurstofu hefur farið fram á það að við skipulags- og framkvæmdaráð Norðurþings að það heimili að varamannaskýli Völsungs, sem gegndi hlutverki biðskýlis í Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga, verði sett upp á sama stað við höfnina á Húsavík og það var í myndinni.
„Það eru ákveðnir munir úr myndinni sem væri gaman að setja upp aftur, til dæmis biðskýlið og álfahúsið, fyrir fólk að skoða,“ segir Hinrik.
Ekki eru nema nokkrir dagar síðan tveir félagar, Örlygur Hnefill Örlygsson og Leonardo Piccione, opnuðu veitingastað á Húsavík sem heitir Jaja Ding Dong Húsavík, eftir samnefndu, vinsælu lagi úr myndinni. Í samtali við Mannlíf greindi Örlygur frá því að staðurinn væri vel sóttur og áform væru uppi um að opna sérstakt Eurovison-safn á Húsavík.
Í samtali við Fréttablaðið segir Hinrik að menn séu náttúrlega að reyna að nýta sér vinsældir myndarinnar til fulls, enda hafi hún skilað fimmfaldri aukningu erlendis frá í áhuga á Húsavík, eins og sjáist af heimsóknum á vefsíðu Húsavíkurstofu. Fyrir utan fyrrtéðan veitingastað séu til dæmis í boði sérstakar Eurovision-ferðir um bæinn og nú vonist menn til að geta endurskapað biðskýlið fyrrnefnda og álfahúsið.