Miðbærinn mun iða af lífi um helgina á Menningarnótt Reykjavíkur og viðburðirnir vægast sagt fjölbreyttir. Einn þeirra er brauðtertukeppni og við spurðum Erlu Hlynsdóttur, annan forsprakka Facebook-hópsins Brauðtertufélag Erlu og Erlu, út í þennan einstaka viðburð.
„Brauðtertan er veigamikill þáttur í íslenskri matarmenningu. Flest höfum við smakkað brauðtertur í fjölskylduveislum eða á tímamótum þegar fólk vill gera vel við sig og aðra. Ekki fyrir löngu mætti segja að brauðterturnar hafi meira eða minna horfið af veisluborðunum en ljóst er að þær eru farnar að njóta sín á ný. Við viljum sýna brauðtertunni þann heiður sem hún á skilinn og boðum því til brauðtertusamkeppni í Listasafni Reykjavíkur á Menningarnótt,“ segir Erla.
Skipuleggjendur keppninnar eru hönnuðirnir Tanja Huld Levý og Valdís Steinarsdóttir í samstarfi við Erlu Hlynsdóttur og Erlu Gísladóttur, forsprakka Facebook-hópsins Brauðtertufélag Erlu og Erlu, sem áhugasamir hafa fjölmennt í frá stofnun. Keppt er í þremur flokkum: Fallegasta brauðtertan, frumlegasta brauðtertan og bragðbesta brauðtertan. Dómarar eru ekki af verri endanum. Margrét D. Sigfúsdóttir, skólameistari Hússtjórnarskólans í Reykjavík, Siggi Hall, matgæðingur með meiru, og Erla Hlynsdóttir úr áðurnefndu brauðtertufélagi.
„Vinningar eru margvíslegir. Meiður trésmiðja gefur framreiðslubretti fyrir brauðtertur en fyrirtækið var valið handverksmaður ársins á Handverkshátíðinni á Hrafnagili í ágústbyrjun. Pro Gastro gefur skreytingasett, japanskan brauðhníf og grænmetishnífa. Tómatparadísin Friðheimar í Reykholti gefur glæsilega vinninga. Ásbjörn Ólafsson ehf. gefur stálbakka fyrir brauðtertur. Þá verða líka brauðtertuhandklæði sem Tanja Levý hannaði,“ segir Erla.
„Húsið opnar klukkan 14 og fyrsta klukkutímann geta gestir og gangandi komið og skoðað dýrðina. Eftir að dómarar hafa gert upp hug sinn og tilkynnt um sigurvegara býðst gestum að smakka allar brauðterturnar. Við höfum hvatt þátttakendur til að nefna brauðterturnar sínar, til að gera þetta enn skemmtilegra. Öllum er heimil þátttaka en við höfum ekki rými fyrir fleiri en þrjátíu brauðtertur. Þegar hafa um tuttugu staðfest þátttöku en áhugasamir eru hvattir til að senda póst á [email protected] og athuga hvort enn er pláss. Við viljum endilega að sem flestir séu með.“