Föstudagur 25. október, 2024
3.2 C
Reykjavik

Vill afsögn ríkislögreglustjóra

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ríkislögreglustjóri hefði getað vikið lögreglumanni, sem var kærður fyrir barnaníð, tímabundið frá störfum að mati nefndar um eftirlit með lögreglu. Halldóra Baldursdóttir, móðir stúlku sem kærði manninn, vill afsögn Haralds Johannessen ríkislögreglustjóra vegna málsins.

Nú hefur nefndin loks komist að þeirri niðurstöðu að Ríkislögreglustjóri hefði getað vikið manninum frá störfum á meðan rannsókn stóð. Hún sér þó ekki ástæðu til að senda Ríkislögreglustjóra tilmæli um aðgerðir vegna málsins. Hluti gagnanna sem Mannlíf hefur undir höndum.

Mannlíf hefur fjallað ítarlega um mál þriggja ungra stúlkna sem kærðu fyrrnefndan lögreglumann fyrir kynferðisbrot, en mál stúlknanna voru felld niður vegna ónægra sannanna. Maðurinn var ekki leystur frá störfum meðan á rannsókn stóð og starfar enn í lögreglunni. Móðir einnar stúlkunnar, Halldóra Baldursdóttir sendi í kjölfarið nefnd um eftirlit með lögreglu bréf þar sem hún gerði alvarlegar athugasemdir við málsmeðferðina í máli dóttur. Nú hefur nefndin loks komist að þeirri niðurstöðu að Ríkislögreglustjóri hefði getað vikið manninum frá störfum á meðan rannsókn stóð. Hún sér þó ekki ástæðu til að senda Ríkislögreglustjóra tilmæli um aðgerðir vegna málsins. Telur nefndin því ekki ástæðu til frekari athafna í tilefni af erindi Halldóru. Þetta kemur allt fram í gögnum sem Mannlíf hefur undir höndum.

Sumarbústaðarferð sem breyttist í martröð

Eins og kunugt er fjallaði Mannlíf fyrst fjölmiðla um málið þegar Halldóra prýddi forsíðu blaðsins á síðasta ári ásamt Helgu Elínu dóttur sinni. Í blaðinu sögðu þær frá meinta kynferðisbrotinu, sem Helga Elín segir hafa átt sér stað árið 2007 í sumarbústaðaferð með þáverandi bestu vinkonu hennar, Kiönu Sif, móður hennar og lögreglumanninum, sem þá var stjúpfaðir Kiönu, auka vinahjóna þeirra. Helga Elín var á barnsaldri þegar hún fór í ferðina og í samtali við Mannlíf sagðist Halldóra hafa séð miklar breytingar á dóttur sinni eftir ferðina. „Hún varð verulega kvíðin. Hún gat til dæmis ekki gengið ein heim úr skólanum án þess að vera með mig í símanum. Ef hún sá mann bíða í strætóskýli varð hún að vera með mig í símanum á leiðinni heim. Helga hætti að umgangast umrædda skólasystur eftir þessa ferð. Ég man ekki hversu oft hún kom á stökki inn til mín á nóttunni þegar hana var að dreyma illa. Hún varð hrædd við karlmenn.“

Halldóra hafði samband við barnavernd og sagðist gruna að eitthvað hefði komið fyrir dóttur sína en fékk þau ráð að þrýsta ekki á hana, ekki spyrja hana heldur leyfa henni að koma fram með þetta sjálfri og það var það sem hún gerði. Fjórum árum síðar var Halldóra boðuð á fund í skóla dóttur sinnar, þar sem henni var sagt að Helga Elín hefði trúað vinkonu sinni fyrir því að stjúpfaðir skólasystur þeirra hefði beitt hana kynferðislegu ofbeldi í sumarbústaðaferð fjórum árum áður. Vinkonan hvatti Helgu Elínu til að segja frá og saman fóru þær til umsjónarkennara síns. Eftir fundinn var málið strax sett í farveg, það kært til lögreglu og rannsókn hófst.

Fleiri stúlkur stigu fram og kærðu manninn

Ekki nóg með það heldur kærði önnur stúlka, Lovísa Sól, sama lögreglumann fyrir kynferðisbrot á sínum tíma og sömuleiðis stjúpdóttir hans, fyrrnefnd Kiana Sif, en hún steig einnig fram og rakti sögu sína af manninum í Mannlífi, skömmu eftir viðtalið við Halldóru og Helgu Elínu. Þar sagði Kiana Sif meðal annars: „Ég svaf alltaf uppi í rúmi hjá mömmu þegar hann var að vinna. Þegar hann færði mig á milli rúma man ég eftir að hann byrjaði að þukla brjóstin á mér. Ég var vakandi en lét sem ég svæfi. Ég vissi að þetta var ekki rétt en ég sagði ekki neitt. Ég var lítil og hafði ekki vit á því að þetta væri óeðlilegt. Síðan fór þetta að vinda upp á sig … Eitt kvöldið tók hann það skref að koma inn í herbergið mitt og snerta mig …Þegar ég bað hann um að hætta sagði hann að þetta væri bara leyndarmálið okkar,“ sagði Kiana í viðtalinu.

Kiana Sif. Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttirþ

Málin þrjú voru hins vegar látin niður falla vegna ónægra sannanna. Halldór, móðir Helgu Elínar hefur mikið út á rannsókn málsins að setja og skrifaði hún bréf til fyrrnefndrar nefndar um eftirlit með lögreglu þar sem hún óskaði eftir því að málsmeðferðin verði skoðuð og gripið til viðeigandi ráðstafana.

„Málin voru ekki rannsökuð saman sem hefði styrkt staðfastan framburð stúlknanna og málin í heild. Fram kemur í rannsóknargögnum að maðurinn saki stelpurnar um samsæri gegn sér. Ekkert var gert til að hrekja slíkt. Aðra stúlkuna þekki ég ekki en hin hafði verið vinkona Helgu. Með því að skoða Facebook-samskipti þeirra var augljóst að þær höfðu ekki verið í neinum samskiptum fyrr en eftir að málið kom upp. Við rannsókn málsins var mikið lagt upp úr nákvæmri tímasetningu sumarbústaðaferðarinnar og ég lagði fram símagögn sem sýndu símtöl milli mín og síma þeirra fyrir umrædda helgi. Ég mundi að Helga hafði hringt úr síma foreldra skólasystur sinnar þegar hún bað um að fá að fara í ferðina. Samskipti voru ekki við þau hvorki fyrr né síðar og því var tímasetningin nokkuð nákvæm. Mér fannst nákvæm tímasetning ekki skipta öllu máli, heldur að þessi atburður gerðist. Sakborningur lagði hins vegar fram ósannreynt vinnuvottorð sem niðurfelling málsins byggði meðal annars á. Excel-skjal sem sýndi að hann hefði verið í vinnunni á þessum tíma. Excel-skjal sem hann sendir lögfræðingi sínum sem áframsendir það. Ég meina, í hvaða bananalýðveldi heldur slíkt skjal fyrir dómi? Hver sem er getur farið inn í vinnustundir og breytt stimpilklukkunni eftir á. Ekkert annað var skoðað til að sjá hvort lögreglumaðurinn hefði í raun verið í vinnunni umrædda helgi,“ sagði Halldóra í fyrrnefndu viðtali við Mannlíf.

- Auglýsing -

Segir klámefni hafa verið haft fyrir börnunum

Þá sagði hún einnig að sakborningurinn hafi farið með á vettvang þegar sumarbústaðurinn var rannsakaður. Vinahjón sakbornings voru með í ferð í umræddri sumarbústaðaferð, en vinur mannsins er háttsettur embættismaður hjá hinu opinbera. Skýrslutaka yfir þeim fór fram á skrifstofu embættismannsins, að sögn Halldóru, og báru þau hjónin við minnisleysi vegna drykku. Niðurfelling málsins var meðal annars byggð á þeim vitnisburði að sögn Halldóru, en við rannsókn málsins kom fram að klámefni hafði verið haft fyrir börnunum í ferðinnni. Þá gagnrýnir Halldóra að skýrslur úr Barnahúsi hafi ekki haft meira vægi.

„Fyrir liggja skýrslur frá sérfræðingum í Barnahúsi, sálfræðingum sem sérhæfa sig í áföllum barna og læknum sem staðfesta að Helga varð fyrir miklum skaða í þessari sumarbústaðaferð. Mér finnst óskiljanlegt að þessar skýrslur hafi ekkert vægi haft þegar tekin var ákvörðum um framhald málsins. Réttarkerfið er handónýtt þegar kemur að börnum. Það stíga endalaust upp tröll sem segja að allir séu saklausir uns sekt er sönnuð. Þá spyr ég: Hvað þarf til að sanna sekt? Ég er með barn sem búið er að segja frá í Barnahúsi. Hún er trúverðug, hún hefur öll einkenni þess að hafa orðið fyrir broti. Hvað þarf meira?“

„Vildi ekkert fyrir okkur gera“

Þegar að málið kom upp sendi Halldóra póst á þáverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, Stefán Eiríksson. Hann vísaði erindingu á Harald Johannessen, ríkislögreglustjóra. Í samtali við Mannlíf lýsti Halldóra þeirri tilfinningu sinni að ríkislögreglustjóri hafi brugðist henni og dóttur hennar, þar sem hann vildi „ekkert fyrir okkur gera.“

- Auglýsing -

Haraldur Johannessen hefur ekki viljað svara spurningum Mannlífs persónulega um þetta mál. Samkvæmt yfirlýsingu frá embætti ríkislögreglustjóra fór embættið þess á leit við ríkissaksóknara að fá afhent rannsóknargögn málsins til þess að unnt væri að taka ákvörðun um hvort leysa skyldi lögreglumanninn frá embætti um stundarsakir eða að fullu. Ríkissaksóknari hafnaði erindi Embættis ríkislögreglustjóra með vísan til heimildarskorts í lögum. Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari sagði hins vegar í samtali við Stundina að ríkissaksóknari hafi sent „ríkislögreglustjóra allar upplýsingar um málið vegna fyrirhugaðrar ákvarðanatöku hans um það hvort veita ætti viðkomandi lögreglumanni lausn frá störfum.“

Stefán Eiríksson starfaði sem lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins meðan á rannsókn málsins stóð. Stefán sagðist ekki hafa fylgst með umfjöllun um málið þegar Mannlíf hafði samband við hann og neitaði að tjá sig um það við blaðamenn Mannlífs.

Síðan þá hefur málið verið til skoðunar hjá nefndinni sem hefur loks, eftir miklar tafir, komist að fyrrgreindri niðurstöðu.

Í kvöldfréttum RÚV rétt í þessu sagði Halldóra, móður Helgu Elínar, að hún vilji að Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri segi af sér vegna málsins.

Þess má geta að lögreglumaðurinn, sem var kærður fyrir brot gegn fyrrnefndum þremur stúlkum og sýknaður, starfar enn innan lögreglunnar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -