Þýski handknattleiksmaðurinn fyrrverandi Christian Schwarzer hefur gert allt vitlaust í Þýskalandi með ummælum sínum sem hann lét flakka um kvenkynsdómara á heimsmeistaramótinu í Svíþjóð og Póllandi sem nú er í fullum gangi.
Schwarzer varð heimsmeistari með Þjóðverjum árið 2007 – en hann lét ummælin falla í hlaðvarpsþætti sem hann heldur úti, Erhellendes von Blacky Schwarzer.
„Ég geri mér ekki grein fyrir því hvernig hugmyndin um að leyfa konum að dæma á heimsmeistaramóti karla kom upp,“ sagði Schwarzer og bætti við:
„Ég hefði aldrei samþykkt þetta – konur geta dæmt hjá konum og karlar eiga að dæma hjá körlum. Hvort konur sé betri dómarar eður ei kemur þessu máli ekkert við; bara mín skoðun og dómarahæfileikar koma málinu ekki við. Ég er engin karlremba; á frábæra eiginkonu og hef alls ekkert á móti konum.“
Ummælin hafa valdið fjaðrafoki í Þýskalandi; en það dæma þrjú kvenkynsdómarapör á heimsmeistaramótinu.