Komið er á daginn að með nýsamþykktum lögum fær lögreglan hér á landi auknar heimildir er snúa að upplýsingaöflun og greiningu þeirra.
Segir Margrét Valdimarsdóttir afbrotafræðingur þetta auðvelda samstarf við lögreglu í öðrum löndum og auka þannig getu stjórnvalda til að sporna við skipulagðri glæpastarfsemi, en þetta kom fram á RÚV.
„Lögreglan mun hafa auknar heimildir til að safna og vinna með upplýsingar um borgarana og það kallar auðvitað á mikið, aukið, óháð eftirlit með lögreglunni.“ Það verði meðal annars gert með að því að fá gæðastjóra til starfa hjá Ríkislögreglustjóra; því til viðbótar mun standa til að efla nefnd um eftirlit með lögreglu. Í þeirri nefnd munu sitja 5 starfsmenn; lögfræðimenntaðir.

Segir Margrét það vonbrigði að ekki hafi verið valinn fjölbreyttari hópur í nefndina:
„Eins get ég ekki séð að þessi nefnd, sem verður mjög mikilvæg, að hún hafi í þessum lögum skýrt vald til að fylgja eftir athugasemdum eða kærum og það held ég að hefði verið mikil bót,“ segir Margrét og bætir við að lokum:
„Það var kominn tími á að breyta lögreglulögum og það er mitt mat á þessum nýsamþykktu lögum að þau muni koma til með að bæta störf lögreglu. Þessi lög eru framför frá fyrri frumvarpi og frumvörpum,“ segir Margrét Valdimarsdóttir afbrotafræðingur.