Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir greindi frá því í gær að hann myndi leggja til við heilbrigðisráðherra að gildistíma samkomubannsins, sem á að gilda til 13. apríl, verði framlengt.
Hann hefur nú lagt til við Svandísi Svavarsdóttur að samkomubannið muni gilda til 4. maí. Þessu er sagt frá á vef RÚV, þar kemur fram að Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, staðfesti þetta.
Svandís mun taka ákvörðun um samkomubannið en samkvæmt frétt RÚV mun hún kynna tillögu sóttvarnarlæknis á fundi ríkisstjórnarinnar á morgun.
Á föstudaginn bað Þórólfur landsmenn um að búa sig undir að samkomubannið muni gilda lengur en gert var ráð fyrir í upphafi. Hann sagði þá baráttuna gegn útbreiðslu COVID-19 vera langhlaup og að útlit sé fyrir að faraldrinum ljúki í maí.