Félagið Ísland-Palestína skora á Vínbúðina að hætta sölu á víni frá ísraelsku framleiðendunum Psagot og Clos de Gat. Vínið frá þessum fyrirtækjum er sagt framleitt á hernumdu landi. Félagið birtir opið bréf til Vínbúðarinar þar sem kallað er eftir því að hún versli ekki við landræningja.
„Vínbúðin býður nú til sölu nokkrar víntegundir sem fyrirtækið segir vera frá Ísrael. Engin þessara víntegunda er frá Ísrael, þau eru framleidd á Vesturbakkanum, á hernumdu landi í landtökubyggðum sem teljast ólöglegar samkvæmt alþjóðalögum og samþykktum Sameinuðu þjóðanna. Vínbúðin auglýsir vín frá ísraelsku framleiðendunum Psagot og Clos de Gat. Psagot er starfrækt í landtökubyggðinni Migron á Vesturbakkanum, á landi sem stolið er af Palestínumönnum, nánar tiltekið systrunum Amal og Keinat Quran, sem fá ekki að stíga fæti á eign sína.Vínframleiðandinn Clos de Gat, sem er skráður í Ísrael, er með vínekrur á stolnu landi á Vesturbakkanum, innan vopnahléslínunnar frá 1949 sem eru viðurkennd í alþjóðasamþykktum sem framtíðar landamæri Ísraels og Palestínu,“ segir í bréfinu.
Þar er enn fremur að Ísland sé aðili að samningum sem nái utan um þetta. „Ísraelsku landtökubyggðirnar og hernám Vesturbakkans stríða gegn alþjóðalögum og samþykktum alþjóðasamtaka sem hafa fordæmt þær. Aðgerðir Ísraels stríða gegn Fjórða Genfarsáttmála sem bannar flutning almenna borgara hernámsveldisins til búsetu á hernumdu landsvæði og ennfremur að nýta auðlindir hernumdra landssvæða. Alþjóðadómstóllinn í Haag og Alþjóðanefnd Rauða krossins hafa hafnað fullyrðingum Ísraels um að landið hafi ekki tilheyrt fullvalda ríki þegar það var hertekið. Ísland er aðili að þessum samningum auk þess sem Ísland styður s.k. tveggja ríkja lausn sem byggir á alþjóðlegum samþykktum um landamæri Ísraels og að landtökubyggðirnar séu ólöglegar,“ segir í bréfinu.
Uppruni vínsins á heimasíðu Vínbúðarinnar sé í besta falli misvísandi. „Samkvæmt úrskurði ESB frá 2019 ber að koma skýrt fram á merkimiðum innfluttrar vöru hvert upprunaland vörunnar er. Upplýsingarnar á vefsíðu Vínbúðarinnar geta í besta falli talist misvísandi. Þar er skráð að vínið sé frá Ísrael og frá „Judean hills“, en ekki eins og rétt er; að vínið sé ræktað á Vesturbakkanum, í ólöglegum landtökubyggðum á herteknu landi. Á vefsíðu Vínbúðarinnar segir að ÁTVR sé ábyrgt fyrirtæki og vilji vera til fyrirmyndar á sviði samfélagsábyrgðar. Þetta eru góð markmið en það er ekki nóg að hafa viljann – viljann verður að sýna í verki,“ segir í bréfinu.
Samtökin vonast til þess að þetta vafasama vín verði tafarlaust tekið úr sölu. „Í ljósi yfirlýstrar stefnu íslenskra stjórnvalda, þar sem hernáminu hefur verið andæft og stuðningi lýst við sjálfstæða Palestínu, er með öllu óverjandi að Vínbúðin, sem er opinbert fyrirtæki, selji vín landræningja úr landtökubyggðum sem starfa í trássi við alþjóðalög. Félagið Ísland-Palestína skorar á Vínbúðina að hætta tafarlaust sölu á öllum vínum frá ofangreindum vínframleiðendunum.“