Fimmtudagur 9. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

Vinkonur á sóttvarnarhóteli – „Ég hélt hún væri að deyja“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Rakel Ósk Halldórsdóttir er ein þeirra sem sýktist í COVID-19 hópsmiti á Irishman Pub um miðjan september sem talið er vera upphaf þriðju bylgju faraldursins hér á landi. Rakel vann úti á landi í sumar og hafði tekið sóttvarnir mjög alvarlega, haldið sér að mestu til hlés. Hún var í göngutúr þennan föstudag með vinkonu sinni þegar þriðja vinkonan hringdi og bað þær að koma með sér út að borða. Þær voru til í það, langt síðan þær allar hefðu gert sér dagamun.

„Þetta var svona skyndiákvörðun hjá okkur vinkonunum að fá okkur að borða og svo förum við í einn bjór á Irishman Pub og vorum þar inni í 30 mínútur og ég var komin heim á miðnætti.“

Rakel tekur fram að sóttvarnir á staðnum hafi verið upp á 10 og engum hafi verið hleypt inn án þess að hafa borð. Þetta gerði það að verkum að röðin fyrir utan var löng, röð sem þær ákváðu að standa í.

Það reyndist afdrifarík ákvörðun.

Óvenjulegar og miklar harðsperrur

„Daginn eftir fór ég í heilsdagsgöngu og var bara rosa hress. Ég mætti svo í vinnuna á mánudag og þriðjudag og fór í ræktina báða dagana og var að lyfta.“

- Auglýsing -

Þegar Rakel vaknaði svo á miðvikudeginum var hún með óvenjulegar og miklar harðsperrur. „Ég hef bara aldrei á ævi minni upplifað annað eins,“ segir Rakel sem hefur stundað líkamsrækt um langt skeið og er í góðu formi. Auk þess að stunda ræktina af fullum krafti er Rakel í fjarþjálfun hjá frænku sinni sem er líka sjúkraþjálfari. „Ég hringdi í hana þarna á miðvikudeginum og sagðist halda að ég væri hreinlega með vöðvaeitrun,“ segir Rakel hlæjandi. Rakel segist ekki hafa staðið undir sjálfri sér en hafi þó ekki upplifað sig veika. „Frænka mín sagði þá ,,þetta eru ekki harðsperrur Rakel. Ég veit alveg hverju þú varst að lyfta og það var ekki svona þungt,““ segir Rakel og hlær.

Frænkan hvatti hana til að fara strax heim úr vinnunni og mæla sig. „Ég gerði það og var komin með 39 stiga hita.“ Rakel segist hafa verið svolítið brugðið. „Þá var ég búin að vera á skrifstofunni á fundum með fullt af fólki. Ég hringdi strax í vinnuna og lét vita að ég kæmi ekki daginn eftir.“

Þennan dag ágerast verkirnir og hausverkurinn.

- Auglýsing -

„Svo hringir vinkona mín í mig, sú sem ég hafði farið með út að borða og á Irish og segir – „ég er með COVID.“ Þá varð ég skíthrædd.““

Greindist fyrst neikvæð

Rakel hafði strax samband við Heilsuveru og óskaði eftir sýnatöku. Hún lokaði sig af inni í herbergi, lét vinnuna vita hver staðan væri og hvatti þau til að sótthreinsa allt.

„Ég fer í próf stuttu seinna og greinist neikvæð.“ Rakel var samt hundslöpp og ákvað engu að síður að halda sér áfram til hlés. „Svo varð ég bara meira og meira lasin. Ég svaf og svaf.“

Rakel lét þriðju vinkonuna vita og hvatti hana til þess að fara í COVID-próf þrátt fyrir að hún sýndi engin einkenni – hún reyndist jákvæð. Þetta var á föstudegi, viku eftir kvöldið afdrifaríka. Í öllu þessu ferli hafði Rakel verið í sambandi við vinkonu sína sem er hjúkrunarfræðingur á COVID-deildinni.

„Hún hringir í mig og segir bara „þú ert með COVID“ og ég þræti fyrir það en hún segir mér að fara aftur próf sem ég og geri og fæ þá jákvæðar niðurstöður.““

Kaus að „tékka sig inn“ á sóttvarnarhótel

Rakel segir að þá hafi tekið við mjög skrýtið ferli. „Ég var auðvitað hrikalega lasin en þurfti að gera allskonar ráðstafanir, hringja í fullt af fólki og þar með talið vinnuna. Ég gerði það fyrst – áður en ég lét manninn minn vita,“ segir hún og hlær. „Ég höndlaði ekki að fara út úr herberginu, ég vissi að synir mínir tveir myndu taka þetta mjög nærri sér, svo ég græjaði bara allt fyrst og svo fór ég fram.“

Þá hringdi hjúkrunarfræðingur í Rakel og fór yfir með henni hvaða þýðingu þetta allt saman hefði og til hvaða ráðstafanna Rakel og fjölskylda þyrfti að grípa til. Þegar hún hafði velt upp kostum og göllum og þegar maðurinn hennar reyndist neikvæður, ákvað Rakel að fara á sóttvarnarhótel til að forða honum og drengjunum frá smiti og til að stytta þeirra tíma í sóttkví.

„Ég byrjaði að pakka, börnin skælandi og allt eitthvað hræðilegt. Ég fárveik á leið í tveggja vikna einangrun og þeir í sóttkví. Þetta var allt saman mjög skrýtið.“ Rakel lét vinkonu sína vita og hún vildi með. Þær ákváðu að deila herbergi. „Áður en við löbbum inn setjum við á okkur grímur og hanska. Okkur er fylgt upp á herbergi.“ Hurðin lokast og það þyrmdi yfir þær. Tvær vinkonur, fárveikar í pínu litlu herbergi. Hér yrðu þær –  a.m.k. næstu tvær vikurnar.

Sendi marga í sóttkví en smitaði engan 

Rakel segist eiga yfirmönnum sínum mikið að þakka. „Verst var auðvitað að senda svona marga í sóttkví og lang flestir voru samstarfsfólk. Yfirmenn mínir tóku strax samtalið við mig og sögðu mér að hrista af mér allt samviskubit. Þetta væri ekkert mér að kenna. Þau tóku líka strax alla ábyrgð af mér og sögðu mér að einbeita mér að því að ná bata. Það var enginn að dæma mig og það skipti mig miklu máli í öllu þessu ferli.“

Rakel segist þakklát fyrir að hafa engan smitað svo vitað sé til og í raun er það ótrúlegt þar sem hún deildi rúmi með maka sínum í viku eftir að hún smitaðist.

„Ég hélt hún væri að deyja“

En aftur að sóttvarnarhótelinu. „Sem betur fer erum við vinkonurnar bara mjög góðar saman. Við deildum þarna pínulitlu herbergi, eitt borð við vegg, sjónvarp með engu HDMI tengi, bara línuleg dagskrá, RÚV og útlenskar stöðvar. En við sváfum mikið. Þetta var bara algjört veikindabæli.“

Komið er með mat á herbergin þrisvar á dag og til að taka við matnum setja allir á sig grímur og gæta sóttvarna.

,,Starfsfólkið er frábært og ég get ímyndað mér að fyrir fólk sem er eitt í herbergi þá er bara þessi félagsskapur gríðarlega dýrmætur í þessari einangrun.“

Vel er fylgst með líðan fólks sem dvelur í sóttvarnarhúsinu við Rauðarársstíg og gripið er inn í eftir þörfum. Rakel segir að það hafi fyllt hana öryggi.

„Vinkona mín þurfti að fara einu sinni upp á Landspítala, ég fór með henni. Læknir spurði hvort ég treysti mér til þess að keyra henni þar sem ég var líka smituð. Ég var auðvitað með bullandi hita en vildi fara með.“ Rakel segir þetta hafa verið eina skiptið sem þær hafi farið út í þessar tvær vikur.

„Þegar við komum upp á deild leið strax yfir vinkonu mína. Ég sit þarna á stól, líka með COVID og fór bara að hágráta, mér brá svo og varð svo hrædd. Hugsaði bara að hún hlyti að vera að deyja. Hún fór í myndatökur og allskonar rannsóknir. En það reyndist allt í góðu, hún þurfti bara vökva í æð.“

Hápunkturinn að horfa út um gluggann

Það verður að segjast eins og er að þessar lýsingar minna einna helst á kafla úr vísindaskáldsögu.

„Já, þetta var allt saman ofboðslega skrýtið. Þegar maður kemur að húsinu opnast öryggishlið og þá tekur á móti starfsmaður Rauða krossins með grímu og í búning og fylgir þér inn. En þetta var það sem var skemmtilegast að gera, glugginn á herberginu okkar sneri út að Rauðarársstíg og við gerðum því mikið af því að fylgjast með fólki koma og fara og fjölskyldum sem stóðu úti á götu og vinkuðu fólkinu sínu.“

Þegar Rakel og vinkona hennar „tékkuðu sig inn,“ eins og Rakel orðaði það sjálf, voru mjög fáir á sóttvarnarhótelinu. Þegar leið á dvölina fylltist hótelið svo smám saman og urðu þær vel varar við aðra sjúklinga.

„Eina nóttina vöknuðum við upp við öskur af efri hæðinni. Það hefur líklega verið fullorðinn karlmaður sem hefur verið alvarlega veikur. Hann var svo sóttur af sjúkrabíl.“

Til að stytta sér stundir horfðu vinkonurnar á allskyns sjónvarpsþætti. Aðstandendur þeirra voru líka duglegir að færa þeim glaðning í formi matar og drykkjar. „Við létum t.d. færa okkur kaffivél.“ Skemmtilegast við þessar matarsendingar, segir hún, var að sjá aðeins framan í fólkið sitt, veifa þeim út um gluggann. „Það var yndislegt.“

„Eitt af því sem við gerðum til að stytta okkur stundir og hafa gaman var að mynda allar máltíðir og deila með vinum. Það var mjög skrautlegt. Ekkert alltaf mjög girnilegt. En ólíkt mér, missti vinkona mín bragð- og lyktarskyn svo hún gat borðað meira en ég,“ segir hún kímin. Auðvitað eru forréttindi að fá mat segir Rakel en oftar en ekki hafi hann verið kaldur og ólystugur.

Eftirköstin áfall

Hvernig var svo að koma heim?

„Það var auðvitað dásamleg tilfinning að labba út og kveðja allt góða Rauða kross starfsfólkið. Ég var búin að vera einkennalaus í nokkra daga og þá er ég að tala um smiteinkenni, ég var ennþá með vöðvaverki og hausverk. En ég sá alltaf fyrir mér að þegar ég myndi labba út að ég myndi bara vilja vera úti og hreyfa mig. Það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom heim var að sótthreinsa allt sem ég hafði tekið með mér og bara eftir það var ég bara búin á því og fékk svolítið áfall við það.“

Og þannig hefur það gengið. Rakel fór ekkert út fyrr en þremur dögum eftir heimkomu og þá í stuttan göngutúr. „Mér leið eins og ég hefði hlaupið 5 kílómetra og þá áttaði ég mig á því að þetta væri kannski svolítið mikið langhlaup. Ég upplifi mig sem hálfgerðan aumingja og það er það sem er erfiðast við þetta. Ég þarf að velja hvort ég labbi smá eða vinni smá.“ Rakel segist ekkert hafa unnið fyrstu vikuna eftir að hún kom heim. Svo hafi hún unnið tvo daga vikuna þar á eftir og svo á þriðja degi hafi hún algjörlega örmagnast. „Ég var bara í tölvunni og bara í samskiptum við fólk. En þetta er svo mikil síþreyta og miklir vöðvaverkir.“ Hún hafði þá ætlað að leggja sig í stuttan stund en svaf þá frá fjögur síðdegis til níu næsta dags. „Þetta er mjög ólíkt mér.“

Aðspurð segir Rakel enga eftirfylgni vera. Hún hafi fengið útskriftarsímtal en svo ekkert meir og á meðan ástandið er eins og það er finnist henni bara skrýtið að leita til læknis og kvarta yfir vöðvaverkjum á meðan einhverjir eru í öndunarvél. Þá hafi hún fengið mjög misvísandi skilaboð frá fagfólki. „Ég hef svolítið þurft að finna út úr þessu sjálf og það finnst mér mjög erfitt. Ég er svona týpa sem veð bara áfram og þarf einhvern til að hafa vit fyrir mér. Það eru auðvitað allir að gera sitt besta en það er alveg ljóst á öllu að það er mikið af ósvöruðum spurningum.“

Strákurinn hennar eldri var spurður að því um daginn í skólanum hvernig mamma hans hefði það eftir þetta allt saman. „Jú hún er bara hress en hún er bara búin að sofa síðan hún kom heim,“ segir Rakel og hlær.

„Ég stend mig stundum að því að horfa út um gluggann og langa ekkert heitar en að fara út að hreyfa mig en bara tilhugsunin við að þá þurfi ég að klæða mig í úlpu, skó og húfu þreytir mig svo ég sleppi því. Mér líður eins og allt sé í þoku og ég er svona við hliðina á sjálfri mér,“ segir Rakel Ósk um eftirköst COVID-19.

Hvetur fólk til að passa sig

Hvaða ráð mundir þú gefa fólki sem hefur ekki fengið COVID?

„Ég hef oft heyrt fólk segja og sérstaklega ungt fólk, að það vilji bara fá þetta til að klára þetta. Þá sé maður bara góður og geti farið til útlanda og lifað eðlilegu lífi. Ég mæli bara alls ekki með því.“ Hún hvetur því alla til að gæta ítrustu sóttvarna því engin veit hvaða áhrif sjúkdómurinn mun hafa til lengri tíma.

„Við fjölskyldan tökum þessu mjög alvarlega og höfum reyndar gert frá upphafi. Ég var bara óheppin. Við pöntum gjarnan mat frá Krónunni og höldum okkur mikið heima – sem er auðvitað drulluleiðinlegt til lengdar,“ en betra en sjálf pestin segir hún að lokum og bætir við að hún ætli svo að drífa sig í flensusprautuna því nóg sé komið af veikindum í bili.

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -