Bergrún Íris Sævarsdóttir, teiknari og barnabókahöfundur, ákvað að láta gott af sér leiða í heimsfaraldrinum og málaði póstkort fyrir heimilismenn hjúkrunarheimila. Kortin geta þeir sent til ástvina sinna, barnanna sem þau sakna.
„Það eru margir sem þurfa að halda sig fjarri ástvinum næstu vikur og mánuði, sökum heilsu og aldurs. Það sem mér finnst erfiðast við þetta ástand er einmitt tilhugsunin um gamla fólkið sem getur ekki faðmað ömmu-, afa-, langömmu- og langafabörnin sín,“ segir Bergrún Íris.
„Mér finnst ég oft svo vanmáttug, enda ekki í framlínusveit, ekki heilbrigðisstarfsmaður eða kennari, ekki starfsmaður í aðhlynningu eða ræstingum á sjúkrahúsum. Ég sit bara inni, örugg í stofunni minni og finnst ég ekki gera nóg.“
Bergrún Íris ákvað því að mála póstkort handa eldra fólkinu og í vikunni voru tíu kassar með 1.200 kortum tilbúin til dreifingar á hjúkrunarheimili um allt land. „Ég er búin að senda til á nágranna minna á Hrafnistu hér í Hafnarfirði,“ segir Bergrún Íris, sem býr í Hafnarfirði. Einnig hafa Berg í Bolungarvík, Eir, Landakot og Hraunbúðir í Vestmannaeyjum fengið senda kassa.
Bergrún Íris segir að sig langi til að senda á Suðurnes, Norður-, Austur og Vesturland til þess að kortin fari sem víðast og er alveg til í uppástungur.
„Vonandi slá póstkortin aðeins á sáran söknuðinn og virka sem hlýtt faðmlag í báðar áttir.“