Dr. Lorna Breen, virtur læknir sem starfaði í framlínunni í New York í baráttunni gegn COVID-19, er látin. Hún framdi sjálfsvíg á sunnudaginn. Hún var 49 ára. BBC fjallar um málið.
Þar segir að Breen hafi starfað á gjörgæsludeild á New York–Presbyterian Allen-spítalanum á Manhattan.
Faðir hennar, Philip Breen, sagði í samtali við New York Times að starfið hafi orðið henni að bana. Hann sagði dóttur sína ekki hafa glímt við andleg veikindi áður.
Lorna Breen hafði sjálf smitast af veirunni á einhverjum tímapunkti en snúið aftur til vinnu eftir að hún náði sér af veikindunum.
Lýsti ástandinu á spítalanum í síðasta samtalinu
Ástandið í New York hefur verið slæmt en þar hafa rúmlega 17.500 látist vegna COVID-19.
Faðir Lornu Breen segir hana hafa verið ólíka sjálfri sér þegar hann ræddi við hana í síðasta sinn. Hún mun hafa lýst ástandinu á spítalanum og sagt sjúklinga deyja í sjúkrabílnum vegna veirunnar áður en þeir komast inn á spítalann.
New York–Presbyterian Allen-spítalinn sendi út yfirlýsingu vegna andlátsins þar sem Lorna Breen er sögð hetja.