Mikil umræða hefur átt sér stað á samfélagsmiðlum þess efnis að Valsmenn hafi vegna lélegs árangurs karlaliðsins í sumar ekki haldið lokahóf þegar tímabilið var búið.
Talað hefur verið um lélegan móral hjá karlaliði Vals í sumar, sem margir spáðu titlinum. Þótt Valsmenn hafi sent frá sér stuðningsyfirlýsingu við þjálfara liðsins, Heimi Guðjónsson, er ekki víst að allt sé í himnalagi; yfirlýsingar sem þessar frá stjórn eru oftast kallaðar ,,Koss dauðans.“
En mjög oft hefur það gerst að eftir slíkar yfirlýsingar hafi sá sem naut stuðningsins samt verið látinn fara – en varðandi Heimi, þá kemur það væntanlega fljótlega í ljós hvort hann heldur starfinu.
En Þeir Valsmenn hafa nú sent frá sér yfirlýsingu vegna áðurnefndu umræðunnar sem þeim finnst vert að leiðrétta:
„Vegna skrifa um lokahóf knattspyrnudeildar Vals vill knattspyrnudeild árétta nokkur atriði. Í fyrra varð mfl. karla Íslandsmeistarar í fótbolta og fögnuðu því í Fjósinu eins og frægt varð og án aðkomu knattspyrnudeildar.
Um þetta var tíst og allt fór í bál og brand á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum, síminn stoppaði ekki, lögreglan hafði samband og framkvæmdastjóri Vals fékk stöðu sakbornings og félagið í kjölfarið kært fyrir brot á sóttvarnarlögum.
Meistaraflokkur kvk. urðu Íslandsmeistarar í ár og þann 10. september var haldinn fögnuður fyrir leikmenn og þjálfara, ásamt mökum, þar sem boðið var í mat og drykk í Fjósinu.
Stóð sú veisla fram eftir kvöldi og var mjög vel heppnuð.
Síðastliðinn laugardag hittist svo mfl. karla í Fjósinu þar sem boðið var upp á drykki og í kjölfarið fór hópurinn saman út að borða,“ segir í yfirlýsingunni.