Lögregla handtók karlmann í Kópavogi seinnipartinn í gær en sá hafði gengið um og hótað fólki. Auk þess hafði dólgurinn ráðist á fólk og því ekki hægt að leysa málið á vettvangi. Gisti hann í fangaklefa lögreglu í nótt.
Síðar um kvöldið, um klukkan níu, hafði lögregla afskipti af öðrum manni í Kópavogi en sá var ölvaður og hafði áreitt fólk sem á vegi hans varð. Maðurinn neitaði að gefa lögreglu upp nafn sitt og streittist á móti við handtökuna. Sá fékk einnig að gista bak við lás og slá.
Þá barst lögreglu tilkynning skömmu fyrir miðnætti í gær en var það vegna stolins bíl. Maðurinn sem tilkynnti þjófnaðinn ákvað sjálfur að veita þjófnum eftirför en var ferðinni heitið inn í Hafnarfjörð þegar hann hafði samband við lögregluna. Eltingaleikurinn endaði með því að stolna bifreiðin valt og ökumaður grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.