Lögregla handtók karlmann í gærkvöldi í Hlíðahverfi. Maðurinn hafði gengið berserksgang í hverfinu og er grunaður um eignaspjöll. Reyndist maðurinn í annarlegu ástandi og var hann settur bak við lás og slá. Lögrega rannsakar málið.
Lögregla horfði upp á ökumann bifreiðar bakka á kyrrstæða bíla og aka svo í burtu. Maðurinn var stöðvaður skömmu síðar og grunur leikur á að hann hafi verið undir áhrifum áfengis og fíkniefna.
Um klukkan hálf sex í gærkvöldi stöðvaði lögregla bíl á Álftanesvegi eftir mikinn hraðakstur. Bíllinn hafði ekið á 113 km/klst. en leyfilegur hámarkshraði er 70 km/klst. Þrætti ökumaðurinn fyrir hraðaksturinn.
Þá voru afskipti höfð af ölvuðum manni í fjölbýlishúsi í Breiðholti. Maðurinn var í stigagangi hússins og áreitti konu sem búsett er í húsinu. Var honum vísað úr húsinu.
Ekið var á hross á Vesturlandsvegi. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna en sá hefur einnig ítrekað ekið án ökuréttinda. Engin slys urðu á fólki en hesturinn var mikið slasaður. Fleiri hross voru sögð vera á götunni og var þeim smalað saman í girðingu.