Lífið væri talsvert auðveldara ef hið rétta væri alltaf augljóst og aldrei án togstreitu milli ýmissa þátta. Þannig myndi Facebook eflaust loga mun sjaldnar, stjórnmál fengju minni athygli og margir fræðimenn myndu missa vinnuna svo fátt eitt sé nefnt. Við gætum sett tærnar upp í loftið og leyft litlausu lífinu að líða áfram.
Efnahagslegur ójöfnuður og túlkun á þróun, umfangi og áhrifum hans kemur upp í hugann í þessu samhengi. Það vill væntanlega enginn að allir þénuðu og ættu jafnmikið. Til hvers að taka áhættu og leggja sig almennt fram ef svo er í pottinn búið? Líklega yrði lítið eftir til skiptanna. Það vill heldur enginn að fáir fái notið alls þess sem líf í auðugu landi hefur upp á að bjóða. Sannleikurinn liggur einhvers staðar á milli og til að finna hann er fyrsta spurningin: Vitum við hvernig ójöfnuður þróast?
Svarið fer eftir því hvern þú spyrð. Mjög oft heyrist að ójöfnuður fari vaxandi. Sé því mótmælt, t.d. ef tekjur þeirra tekjulægstu hækka um fleiri prósentustig en annarra, heyrist að enginn lifi á prósentum eða að krónutöluhækkanir tekna séu meiri hjá þeim tekjuhærri, svo að ójöfnuður sé að aukast.
Játning: Ég lifi á prósentum
Þó að enginn lifi tæknilega séð á prósentum, þá er það engu að síður þannig að ef kaupmáttur einhvers eykst um 10% getur viðkomandi keypt 10% meira af öllu því sem hann eða hún keypti áður. Krónutöluhækkanir eru vissulega meiri hjá þeim sem eiga meira eða hafa meiri tekjur og slíkur samanburður getur verið gagnlegur. En ólíkt því sem oft er haldið fram er rangt að ójöfnuður aukist við það eitt að þeir tekjuhæstu fái meiri hækkun í krónum talið.
Tökum dæmi: Jón er með 300 þús. kr. á mánuði og Gunna er með 900 þús. kr. Segjum að Jón hækki um 10% í tekjum á ári en Gunna um 5%. Gunna hækkar fyrst meira í krónum talið en á endanum þurrkast bilið út og eftir 24 ár er Jón kominn með hærri tekjur en Gunna og ójöfnuðurinn nær horfinn. Hægt er að gera ótal útfærslur af þessu dæmi en niðurstaðan er alltaf sú sama. Það er því stærðfræðileg staðreynd að jöfnuður eykst, ef hlutur þeirra í lægstu þrepunum vex hlutfallslega hraðar en þeirra í efri þrepunum. Um þetta er ekki hægt að deila.
Hvað með ójöfnuð á Íslandi?
Tekjujöfnuður á Íslandi mældist árið 2016 sá mesti í Evrópu (miðað við GINI-stuðulinn). Fyrir utan fjármálakreppuna og aðdraganda hennar hefur jöfnuður haldist stöðugur og var árið 2016 sá nákvæmlega sami og 2004. Nýjustu tölur um tekjur einstaklinga árið 2017 benda svo eindregið til þess að tekjujöfnuður hafi aukist, einmitt þar sem lægstu tekjuhóparnir hækkuðu áberandi mest.
Eignaójöfnuð er erfiðara að fullyrða um einkum þar sem gögn úr skattframtölum taka ekki tillit til lífeyrisréttinda (sýna meiri ójöfnuð) og verðbréf eru eignfærð á nafnvirði (sýna minni ójöfnuð). Þrátt fyrir þessa annmarka heyrist oft margt fullyrt um eignaójöfnuð, þar með talið að eignaójöfnuður fari vaxandi. Ekki einu sinni þau gögn sem liggja fyrir styðja þá fullyrðingu. Hlutdeild efstu 5%, 1% og 0,1% í eigin fé landsmanna hefur í öllum tilvikum lækkað hvert einasta ár frá 2010 til 2016. Það þýðir að virði hreinna eigna þeirra hefur vaxið hægar en annarra, sem bendir til þess að eignajöfnuður fari vaxandi.
Röng sjúkdómsgreining – rangar lausnir
Vaxandi ójöfnuði er stundum kennt um ýmislegt sem aflaga fer í samfélaginu. Það er þó eilítið eins og að setja plástur á sár sem er gróið að ráðast í aðgerðir gegn ójöfnuði þegar hann er einmitt að minnka frekar en aukast. Það sem jafnvel er verra er að slíkar aðgerðir geta gert alla landsmenn jafnari gagnvart heiminum, eða með öðrum orðum, fátækari.
Heimildir:
https://www.althingi.is/altext/148/s/0041.html
http://appsso.eurostat.ec.europa.eu/nui/show.do?dataset=ilc_di12
https://vi.is/malefnastarf/utgafa/stadreyndir/tekjujofnudur-stadreynd/
Konráð S. Guðjónsson er hagfræðingur Viðskiptaráðs. Greinin birtist fyrst í Mannlífi 21. september, 2018.