Föstudagur 25. október, 2024
3.2 C
Reykjavik

Völva Mannlífs segir okkur hvernig árið 2021 verður – Ár ljóss og skugga

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Að ná sambandi við völvuna sem Mannlíf taldi að gæti spáð fyrir um komandi ár reyndist erfitt verkefni. Lengi stóðu vonir til þess að blaðamaður fengi að hitta völvuna í eigin persónu en eftir slitrótt samskipti var horfið frá því. Völvan var einstaklega treg til þess að skyggnast inn í þoku framtíðar og greina þar útlínur þess er koma skal á nýju ári. Að lokum varð að samkomulagi að völvan myndi skilja sendingu eftir handa blaðamanni sem hann mætti vitja á tilteknum stað og tíma.

Staðurinn reyndist vera kirkjugarðurinn í Fossvogi, nánar tiltekið við leiði þjóðþekkts manns sem hér verður ekki nafngreindur. Þangað fór blaðamaður um miðnætti á fullu tungli og fann snjáðan pappakassa liggjandi á leiðinu. Kassinn reyndist innihalda fjölmarga bréfsnepla sem óljósum skilaboðum ásamt tveimur kassettum sem geymdu ógreinilegar upptökur af manneskju í einhvers konar transi. Þessi mannvera söng og talaði á nokkrum tungumálum góða stund. Stundum var mál hennar skýrt og skipulegt en á köflum samhengislítið.

Blaðamaður hefur eftir bestu getu reynt að ráða í hrafnaspark á gömlum Bónuskvittunum og fá þráð í þuluna á segulbandinu. Það sem hér fer á eftir er spádómur völvunnar um komandi ár – eftir því sem næst verður komist.

Ár ljóss og skugga

Árið 2021 verður Íslendingum verður ár ljóss og skugga. Margt gengur vorri voluðu þjóð til sólar og lífgar nýjar vonir eftir myrkur pestar og innilokunar en árið ber einnig í skauti sér myrka atburði andbyr og mótlæti.

Mynd: Landlæknir.is

Bólusetningar á gegn Covid 19 ganga vel og eftir áætlun í þeim efnum og þegar kemur fram yfir páska verður líf þjóðarinnar að mestu komið í það sem kalla má hefðbundið horf. Engar hömlur á ferðum, allar verslanir og veitingastaðir opnir og félagslíf landans kemst aftur í eðlilegt horf.

- Auglýsing -

Íslendingar gleðjast óskaplega yfir þessu og sérstaklega verður félagslífið líflegt kringum páskana þegar menn þyrpast saman og gera sér glaðan dag. Allir staðir landsins sem bjóða upp á eitthvað sem tengist skíðum verða yfirfullir og þátttaka í gönguskíðamótum slær öll fyrri met og margar nýjar göngur verða settar á laggirnar. Þeir sem færi hafa á ferðast til útlanda á skíði en þar er fátt um fína drætti því þegar kemur fram á vorið verða skíðasvæði Evrópu lokuð eftir einn snjóléttasta og heitasta vetur frá upphafi mælinga.

Björn tapar hlutverki

Björn Ingi

Þótt fæstir sakni Covid faraldursins sér völvan Björn Inga Hrafnsson standa einan og hnípinn þegar bólusetningum lýkur. Enginn átti eins glæsta endurkomu í sviðsljósið eins og hann þegar hann stóð einarður vaktina á maraþonfundum þríeykisins og spurði í þaula fyrir fjölmiðil sinn Viljann. Björn snýr sér að gerð podcast þátta sem bera yfirskriftina: Þetta er Björn Ingi Hrafnsson frá Viljanum.

- Auglýsing -

Bólusetningarbiðröðin riðlast

Nokkur kurr verður í tengslum við bólusetningar snemma á árinu þegar uppskátt verður um losarabrag á boðun í bólusetningu. Einhver brögð eru að því að fólk sem ekki er í áhættuhópi en er „vel tengt“ inn í íslenskt samfélag- nánar tiltekið innan heilbrigðiskerfisins – getur komist fram fyrir röðina. Um þetta hnakkrífast Íslendingar um stund en svo dettur allt í dúnalogn á ný. Völvan sér þjóðþekktan lækni og náttúruverndarfrömuð nokkuð rjóðan í kinnum á sjónvarpsskjá eftir að hann dregst inn í málið.

Völvan sér þjóðþekktan lækni og náttúruverndarfrömuð nokkuð rjóðan í kinnum á sjónvarpsskjá eftir að hann dregst inn í málið.

Efnahagur sumra

Að vonum réttir efnahagur margra við þegar lífið færist í eðlilegt horf eftir Covid. En margir hafa lent úti á jaðri í þeim efnahagsþrengingum sem fylgdu pestinni. Þess vegna eru skilin milli hinna ríku og fátæku sýnilegri en stundum áður. Mjög margir högnuðust á ástandinu meðan pestin gekk yfir af margvíslegum ástæðum og um leið og hömlum verður aflétt fer stór hópur Íslendinga að vilja hverfa aftur til fyrri lífshátta. Þar eru ferðalög til útlanda efst á blaði og fyrst um sinn er takmarkað framboð af flugsætum frá landinu og verð hærra en við áttum almennt að venjast fyrir Covid.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.

Þeir sem hafa efni á að ferðast verða fyrri til en aðrir og verða fyrir aðkasti vegna þess. Völvan sér harðorð mótmæli vegna þessa ástands og beinast þau einkum að Icelandair en mörgum finnst að sú alþýða manna sem bjargaði fyrirtækinu með óbeinum hætti gegnum lífeyrissjóðakerfið í verstu kreppunni fái litlar þakkir fyrir.

Líf ófæddra lamba

Íslenska sauðkindin.

Heilsufar sauðkindarinnar verður talsvert í fréttum á nýju ári því riðusmit greinist á fleiri bæjum í Skagafirði og niðurskurður heldur áfram af fullkomnu miskunnarleysi. Að vanda ná þessar fréttir að snerta sérstakan streng í hjörtum þjóðarinnar og á vordögum verður efnt til mótmælastöðu á Austurvelli þegar til stendur að skera heila hjörð fjár í Skagafirði rétt fyrir sauðburð. Varðstaða um hin ófæddu lömb vekur athygli um heim allan en enga miskunn er að finna innan kerfisins sem fer með blikandi hnífinn gegn 500 mæðrum á síðustu skrefum meðgöngu.

Katla gýs

Katla mun gjósa á árinu

Árið 2021 verður ár eldgosa. Enn einu sinni beinast augu heimsbyggðarinnar að Íslandi þegar móðir allra eldfjalla, Katla gamla gýs á haustdögum 2021. Eftir þessu hefur lengi verið beðið en gosið reynist sem betur fer í minna lagi og stendur ekki langan tíma. En því fylgir öskufall í háloftum og lokanir á flugumferð líkt og áður. Umræddu gosi fylgir einnig jökulhlaup sem að þessu sinni er ólíkt öðrum Kötluhlaupum því gosið kemur upp svo vestarlega í öskjunni að hlaupið ryðst fram undan Entujökli og kemur niður farveg Markarfljóts og þar til sjávar. Þetta vekur gríðarlega athygli jarðfræðinga á Íslandi en þetta hefur ekki gerst í um það bil 1500 ár. Fyrir vikið verða stór svæði á Suðurlandi rýmd allt vestur að Hvolsvelli og reynist ekki vanþörf á því hlaupið flæðir yfir allt láglendi sunnan Fljótshlíðar og álar úr því fara allt að jaðri þorpsins á Hvolsvelli. Ekkert manntjón verður en miklar skemmdir á löndum bænda, sumarbústöðum neðst í Fljótshlíð, útihúsum og bæjarhúsum í Landeyjum og vegakerfið á Suðurlandi lætur verulega á sjá.

Ekki bara Katla

Gos í Grímsvötnum.

Það er ekki aðeins Katla sem lætur á sér kræla þetta ár því skömmu eftir að Kötlugosi lýkur gýs í Grímsvötnum í Vatnajökli. Eins og Kötlugosið er þetta frekar lítið gos á jarðfræðilegan mælikvarða. Töluverður vatnagangur verður á Skeiðarársandi í kjölfarið en engar verulegar skemmdir. Öskufall úr Grímsvötnum á sér einkum stað í suðlægum áttum og leggst því yfir jökulinn sjálfan og öræfin norður af honum. Svolítið öskufall verður á syðstu byggðum á Norðurlandi. En ekkert sem veldur tjóni.

Undarleg skriðuföll

Margir muna eftir miklu skriðufalli sem varð í Hítardal fyrir fáum árum. Var þess getið að það ætti rætur að rekja til hlýnandi veðurfars því sífreri í fjöllum væri að þiðna. Á nýju ári verða tvö atvik af þessu tagi á Íslandi, bæði á Tröllaskaga. Um er að ræða mikil skriðuföll á stöðum þar sem enginn átti þeirra von. Í öðru tilfellinu fer skriðan óþægilega nálægt byggð og blasir við af þjóðvegi eitt. Hnattræn hlýnun birtist þarna með sérstæðum hætti en bæði tilvikin þykja renna stoðum undir kenningar um þiðnandi sífera í fjöllum.

Tvíhöfða lamb fæðist í Meðallandi

Engin skýring þessa heims finnst á dularfullu ljósi yfir Suðurlandi.

Gríðarlega athygli vekur þegar lifandi tvíhöfða lamb fæðist í Meðallandi og birtast myndir af því um allan heim. Um svipað leyti sjást undarleg ljós á himni yfir Suðurlandi og engin skýring þessa heims finnst á þeim. Mörgum finnst þetta vera fyrirboðar í anda hinna gömlu annála og óttast að illt fylgi á eftir. Ekki löngu seinna verða atburðir í okkar heimshluta sem skekja allan heiminn en hér verður ekki sagt meira frá þeim því þetta er íslensk völvuspá.

Týndir garpar

Íslendingar njóta sérstæðs veðurfars á næstu mánuðum því veturinn verður einn sá mildasti frá upphafi mælinga. Samt skortir lítt snjó, sérstaklega fyrir norðan. Nokkurn skugga ber þó á því völvan segist sjá átakanlegt slys síðla vetrar þegar nokkrir ákafir útivistargarpar láta kapp bera forsjá ofurliði og týnast á hálendinu. Þjóðin stendur á öndinni meðan leitað er að hópnum sem inniheldur þjóðþekkta einstaklinga. Leitin ber loks árangur en ekki lifa allir leiðangurinn af.

Þjóðin stendur á öndinni meðan leitað er að hópnum sem inniheldur þjóðþekkta einstaklinga.

Skrímsli?

Mikið uppnám verður síðla sumars 2021 þegar fólk á ferð við Lagarfljót á Austurlandi nær ljósmyndum og myndbandi af einhverju sem lítur út eins og skrímsli í Leginum. Háværar deilur verða milli manna um það hvort myndirnar séu ekta eða ekki og dragast menn í fylkingar. Fjölskyldan sem tók myndirnar verður á svipstundu fræg því myndirnar fara með eldingarhraða um allan heim. Þegar vafasöm fortíð eiginkonunnar kemur upp á yfirborðið aukast deilurnar enn og fer fjölskyldan huldu höfði í kjölfarið. Aldrei fæst samt úr því skorið svo óyggjandi sé hvort myndirnar eru ekta eða ekki.

Stjórnmálin

Eins og flestum er kunnugt verður kosið til Alþingis á nýju ári – nánar tiltekið í haust. Kosningabarátta setur vaxandi svip á störf þingsins og verða margir til þess að nota ræðustól Alþingis til þess að lofa kjósendum sínum öllu fögru í von um stuðning. Af sjálfu leiðir að störf þingsins verða samfelld röð geðshræringa og upphlaupa þar sem loforð eru svikin og hrossakaup stunduð fyrir nánast opnum tjöldum þegar flokkar beita málþófi, daðri, svikum og loforðum á víxl.

Til þess að gera langa sögu stutta þá verða helstu úrslit kosninganna sumpart fyrirsjáanleg en sumpart óvænt.

Bjarni sigrar

Sjálfstæðisflokkurinn fær býsna góða niðurstöðu úr kosningunum eða nærri 23 prósent atkvæða sem er meira en flestir bjuggust við. Þetta leiðir til þess að Bjarni og hans menn verða skilgreindir sem sigurvegarar kosninganna. Það gerist svo í einni svipan að Katrín Jakobsdóttir gengur á fund Guðna Jóhannessonar forseta og biðst lausnar fyrir sitt ráðuneyti og skömmu síðar verður Bjarna Bendiktssyni falið umboð til stjórnarmyndunar.

Bjarni Benediktsson. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Á næstu vikum eftir þann fund saumar Bjarni svo saman ríkistjórn undir sínu forsæti en ásamt Sjálfstæðisflokki sitja Framsóknarflokkur, Viðreisn og Samfylking í stjórninni. Þetta verður skilgreint sem þrautalending fyrir Framsóknarflokkinn sem kom verulega laskaður frá umræddum kosningum með tæplega 8 prósenta fylgi. Samfylkingin kemur hinsvegar vel út úr kosningum og bætir verulega við sig frá því sem áður var.

Hvaða loforð?

Ekki verða allir hrifnir af þessari nýju ríkisstjórn og sérstaklega eru Sjálfstæðismenn yst til hægri þungbúnir og telja Bjarna vera að „svíkja til vinstri“ eins og það er víst kallað og draga flokkinn inn á miðjuna. Fylgismenn Samfylkingar eru ekki heldur hrifnir því margir þeirra muna eftir hinni banvænu sambúð flokkanna tveggja í ríkisstjórn þegar hrunið varð sem kostaði Samfylkinguna algert afhroð í kjölfarið.

Ekki eru heldur allir Samfylkingarmenn búnir að gleyma yfirlýsingum Loga Einarssonar formanns um að samstarf við Sjálfstæðisflokkinn kæmi ekki til greina en hann lýsti því ítrekað yfir fyrr á árinu.

Allt verður þetta til þess að margir spá illa fyrir hinni nýju stjórn enda er hún með tæpan meirihluta svo fáir mega ganga úr skaftinu þegar mikið liggur við. En pólitík er víst list hins mögulega og Bjarni kann því ekki illa að feta í fótspor frænda síns og alnafna og leiða ríkisstjórn með kratana innanborðs en ekki utan.

Hverjir eru inni og hverjir úti?

Nýr flokkur, Sósíalistaflokkur Íslands kemst inn á Alþingi í þessum kosningum og þykja nokkur tíðindi enda langt síðan flokkur undir þessu nafni átti menn á þingi. Völvan sér flokkinn með 2 menn inni. Flokkur fólksins sem margir spáðu að hyrfi í þessum kosningum hangir inni.

Katrín Jakobsdóttir. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Ef einhver flokkur telst vera úti í kuldanum eftir þessar kosningar þá er það leiðtogar síðustu ríkisstjórnar Vinstri-grænir sem bíða mikið afhroð í kosningunum og tapa verulegu fylgi. Katrín Jakobsdóttir formaður situr á þingi með fáeina þingmenn og má segja að flokkurinn sleiki sár sín í eftirmálum kosninganna. Þetta kemur mörgum á óvart því eitt helsta baráttumál flokksins um stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands var samþykkt á vorþinginu og urðu margir til þess að telja að það ætti að bjarga löskuðu fylgi flokksins upp fyrir frostmarkið. Þær vonir rættust ekki.

Sigmundur er sér á báti

Miðflokkurinn rær gegn miklu andstreymi í kosningabaráttunni. Nokkrir þættir hafa áhrif á það. Erfiðlega gengur að manna framboðslista flokksins í sumum kjördæmum, sérstaklega gengur illa að fá konur til liðs við málstaðinn. „Klausturmálið“ svokallaða reynist vera lífseigt og loðir við flokkinn og fylgismenn hans eins og kusk og er höfuðástæða þess að konur reynast tregar til setu á listum flokksins.

Flokkurinn tekur harðari afstöðu í ýmsum málum sem oft eru kennd við ysta hægrið og popúlisma með því að tala hart gegn innflytjendum, hælisleitendum og almennt gegn fjölmenningu. Þetta reynist ekki vera eins girnilegt agn og einhverjir ætluðu og afrakstur

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Mynd / Skjáskot RÚV

flokksins frekar bágur í kosningum. Sigmundur leiðtogi flokksins er sem fyrr sífellt í sviðsljósinu og þykir jafn undarlegur og áður og völvan sér ósmekklega umfjöllun um heilsufar hans birtast á opinberum vettvangi.

Völvan sér Sigmund standa á göngum þinghússins með lítinn hóp karla í kringum sig og er skuggi yfir svip leiðtogans. Engin kona er í hópnum.

Hver á hvaða stól?

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Hin nýja ríkisstjórn undir forsæti Bjarna Benediktssonar endurspeglar vel hve margir flokkar sitja við ríkisstjórnarborðið og því erfitt að koma fólki að. Bjarni er sjálfur forsætisráðherra en Benedikt frændi hans Jóhannesson stýrir fjármálaráðaneytinu. Þorgerður Katrín er sjávarútvegsráðherra og fá margir snerkjur í andlitið við þau tíðindi. Logi Einarsson verður menntamálaráðherra en Helga Vala Helgadóttir stýrir umhverfismálum. Framsókn verður að sætta sig við eitt embætti og er Sigurður Ingi áfram í ráðuneyti samgöngu og sveitarstjórnarmála. Áslaug Arna verður dómsmálaráðherra og Þórdís Kolbrún stýrir ferðamálum og iðnaði. Guðlaugur Þór verður heilbrigðisráðherra og Oddný Harðardóttir verður utanríkisráðherra.

Forsetinn í andbyr

Völvan sér forseta Íslands Guðna Jóhannesson sæta nokkurri gagnrýni á nýja árinu. Sú ákvörðun hans að fela Bjarna Benediktssyni umboð til stjórnarmyndunar fyrstum allra verður umdeild því margir halda því fram að Samfylkingin hefði frekar átt hnossið skilið vegna góðs gengis í kosningum. Þetta verður til þess að vekja upp sögusagnir um „Garðabæjarforsetann“ og bakland hans þegar hans þegar hann var upphaflega kosinn en margir þóttust þá sjá þræði sem lágu inn í bakland Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar og myrkviði Garðabæjar.

|
Mynd / Heimasíða Forseta Íslands

Annað sem þykir styrkja þetta er að snemma árs verður nýr forsetaritari ráðinn og hann reynist vera úr innsta hring framboðsins, vel tengdur bæði flokknum og sveitarfélaginu. Völvan sér Guðna sveittan á efrivörinni á sjónvarpsskjá í harðri vörn vegna þessara mála.

Guðni ræður vin

Völvan sér Guðna Th. Jóhannesson forseta Íslands í ofurlítið vandræðalegri stöðu á nýju ári. Snemma árs verður ráðinn nýr forsetaritari því Örnólfur Thorsson er að láta af störfum eftir 21 ár hjá embættinu. Þegar persónulegur vinur Guðna og einn náinna samstarfsmanna hans frá 2016 framboðinu fær starfið verða einhverjir til þess að ræskja sig og gera athugasemdir.

Völvan sér forseta vorn örlítið kindarlegan á svip í fjölmiðlum vegna þessa en þetta er svona vikuskandall sem menn gleyma fljótt.

Samherji í kröppum sjó

Fá fréttamál fá eins mikið rúm í umræðu nýs árs eins og risafyrirtækið Samherji. Mútumálin sunnan úr Afríku hverfa ekki heldur loða eins og smurolíuklessa við jakkaföt forstjórans. Þótt starfsmenn samsteypunnar og Norðlendingar sýni þeim fylgispekt snýst almenningsálitið mjög gegn Samherjamönnum á nýju ári.

Þar ráða mestu um upptökur sem koma fram í dagsljósið snemma árs. Þar er Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri í miklum reiðiham og lætur vaða á súðum um mútumálin, yfirráð sín yfir Morgunblaðinu, persónuleg mál Helga Seljan og margt fleira. Sumt af því sem forstjórinn segir gengur algerlega fram af alþýðu manna en staðfesta á sama tíma margt af því sem borið hefur verið á fyrirtækið síðustu misseri.

Þorsteinn Már Baldvinsson

Upptakan virðist vera gerð á fundi með efsta lagi fyrirtækisins en enginn veit hver gerði hana eða hvernig hún komst á opinberan vettvang. Þar verður fjölmiðillinn Stundin í sviðsljósinu en þar verður fyrst sagt frá upptökunni þótt síðar komi í ljós að hún var send miklu víðar.

Völvan sér Þorstein Má afar sneypulegan á hlaupum undan fjölmiðlum vegna þessa máls. Völvan sér Baldvin son hans með reiddan hnefa frammi fyrir fjölmiðlamönnum sjálfum sér til lítils frama.

Kristján til Samherja

Völvan sér Kristján Þór Júlíusson hætta í stjórnmálum á nýju ári og ganga til liðs við frændur sína og vini í Samherja. Enginn veit samt nákvæmlega hver verkefni Kristjáns eru fyrir sjávarútvegsrisann en völvan sér hann í hlutverki einhvers konar talsmanns fyrirtækisins.

Völvan sér Þorstein Má afar sneypulegan á hlaupum undan fjölmiðlum vegna þessa máls.

Myndirnar frá Afríku

Eitt af því sem verður Samherja og starfsmönnum þeirra til mikillar minkunnar á nýju ári eru ljósmyndir sem birtast opinberlega. Þær sýna ýmsa starfsmenn Samherja í Namibíu í tiltölulega nánum samskiptum við innfædda af gagnstæðu kyni og virðast sumir á myndunum vera talsvert undir því sem kallað er lögaldur á Vesturlöndum.

Vigdís í kastljósinu í borginni

Þær heiftúðugu deilur sem litað hafa starf borgarstjórnar Reykjavíkur það sem af er kjörtímabilinu halda áfram af fullum þunga næsta ár. Vigdís Hauksdóttir heldur áfram skæruhernaði gegn meirihlutanum með litríkum upptækjum þar sem lítt er hirt um það sem satt er heldur hitt sem betur hljómar.

Vigdís Hauksdóttir verður fjarlægð með valdi af borgarstjórnarfundi.

Vigdís sækir í sig veðrið á nýja árinu og árásir hennar á borgarstjóra og hans fylgismenn verða sífellt hatrammari og óvenjulegri. Völvan sér Vigdísi standa einskonar mótmælastöðu á borgarstjórnarfundi með bundið fyrir munninn að mótmæla því að hafa ekki fengið að tjá sig á fundinum með sínum hætti. Völvan sér hana líka fjarlægða með valdi af fundi borgarstjórnar og verður sú uppákoma til þess að fundir borgarstjórnar leggjast af um hríð.

Eyþór í skugganum

Hinn seinheppni leiðtogi Sjálfstæðismanna í stjórnarandstöðu í Reykjavík, Eyþór Arnalds stendur algerlega í skugganum af ofsa Vigdísar Hauksdóttur eins og fyrr. Hann reynir eins og áður að toppa málflutning hennar með því að ganga jafnvel lengra en hún en fjarlægist sífellt meira hinn almenna flokksmann. Völvan sér hann standa einan fyrir utan ráðhúsið með eitthvert skrautlegt klæðisplagg í höndum sem gæti verið slæða en gæti líka verið einhvers konar undirfatnaður. Hann virðist vera á útleið. Í þessari hugsýn völvunnar strunsar Heiðrún Lind Marteinsdóttir framhjá Eyþóri á leið inn í ráðhúsið og heilsar honum ekki.

Dagur hættir

Ein klassískasta svigasetning í leikbókmenntum heimsins er: (tekur hatt sinn og staf og fer út til vinstri). Þetta er einmitt það sem Dagur B. Eggertsson gerir í lok hins nýja árs. Hann stendur upp úr stól sínum sem borgarstjóri og heldur á vit annarra verkefna. Völvan sér hann á sjónvarpsskjánum með tár á hvarmi þegar hann er að þakka samstarfsfólki sínu og borgarbúum fyrir samstarfið.

Dagur tekur staf sinn og hatt á árinu.

Ástæðurnar eru tvíþættar. Annarsvegar freistandi tilboð frá alþjóðastofnun sem starfar að heilbrigðismálum og hinsvegar heilsufar borgarstjórans sem hefur verið í fréttum annað veifið undanfarin ár.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir fulltrúi Viðreisnar tekur við stól borgarstjórans í lok ársins og völvan sér Vigdísi Hauksdóttur ljósrauða í framan vegna þessa máls en borgarbúar virðast sáttir.

Davíð hættir

Það vekur minni athygli en brottför Dags úr borginni en Davíð Oddsson tekur einnig hatt sinn og staf og gengur út af sviðinu -líklega til hægri. Hann semsagt stendur upp úr stól ritstjóra Morgunblaðsins og sest í helgan stein. Enginn verður ráðinn í stað hans heldur höktir blaðið áfram með þeirri áhöfn sem eftir er. Nýtt ár verður Morgunblaðinu ekki sérlega hagstætt. Maðurinn með ljáinn heldur áfram að saxa niður áskrifendurnar og sjávarútvegsfyrirtækin halda áfram að borga með útgáfunni þótt sum þeirra láti í ljósi vaxandi andúð sína á því. Semsagt engar stórar vendingar en dropinn holar steininn og ljósið dofnar ofurlítið yfir þessu forna flaggskipi íslenskra dagblaða þegar gamli refurinn yfirgefur bygginguna.

Það er ekki bara Dagurborgarstjóri sem hættir heldur líka Davíð ritstjóri.

Sameinast blöðin?

Eftir brottför Davíðs breytist margt í höllinni og völvan sér forráðamenn Morgunblaðsins í nánum samræðum við eigendur Fréttablaðsins um afar náið samstarf á ýmsum sviðum. Þýðir þetta að blöðin sameinist? Ekki er völvan alveg viss um að það gerist á nýju ári.

Útvarp Saga hættir um tíma eftir umdeilt viðtal

Hinn umdeildi fjölmiðill Útvarp Saga lendir í umtalsverðum vandræðum á árinu sem fer í hönd. Aðdragandi þess er að umdeild persóna úr íslensku þjóðlífi fer í viðtal hjá Arnþrúði og talar þar um fjölskyldumál sín með þeim hætti að flestum blöskrar. Þar er fjallað um persónulegt líf opinberra persóna með þeim hætti sem við eigum ekki að venjast með sérstakri áherslu á einkaneyslu þeirra á ólöglegum efnum. Viðmælandinn sem hér verður ekki nefndur hefur starfs síns vegna aðgang að meiri upplýsingum en almenningur. Mikil mótmælaalda rís í kjölfarið sem leiðir til falls í auglýsingatekjum og svo fer að lokum að stöðinni verður lokað um tíma. En hún opnar aftur.

Jón Baldvin batnar ekki

Staða Bryndísar og Jóns Baldvin mun versna á árinu.
Mynd / Facebook

Völvan sér Jón Baldvin Hannibalsson og eiginkonu hans Bryndísi Schram standa áfram í þeim leiðindamálum sem sett hafa svip sinn á líf þeirra síðustu ár. Ekkert lát verður þar á og heldur ástandið einungis áfram að versna. Þær upplýsingar sem koma upp á yfirborðið á útmánuðum verða síst til þess að bæta stöðu þeirra en þá verða einhvers konar vatnaskil í málarekstri sem þau standa í.

Bubbi Morthens tekur flugið

Bubbi Morthens, þjóðargersemi og snillingur á afar gott ár í vændum. Þjóðin elskar þennan mann og hann er samviska hennar með einhverjum óútskýranlegum hætti. Þegar samkomuhöftum verður létt í kjölfar bólusetningar verður aftur fært til tónleikahalds og þá verður bókstaflega allt vitlaust.

Völvan sér Bubbi á sviði frammi fyrir tugþúsundum Íslendinga sem þyrpast kringum kónginn og virðist þetta vera upphafið á einhvers konar tónleikaferð hans um landið allt.

Allt sem Bubbi gerir á nýju ári gengur vel.

Listin blómstrar

Almennt virðist lista og menningarlíf ná vopnum sínum á ný á vormánuðum. Þá verður hömlum létt og sýningar og tónleikar hefjast á ný. Í ljós kemur að alþýða manna vill endilega láta skemmta sér og gríðarleg aðsókn er að mörgu sem er í boði. Þetta leiðir til þess að leikhús og tónlistarhús breyta dagskrá sinni til þess að koma á móts við eftirspurnina og verður fátt um sumarfrí hjá sviðslistamönnum. Völvan sér mikinn blóma á þessu sviði.

Óperan flengd opinberlega

Nokkur hávaði verður í menningarlífinu þegar Íslenska óperan verður dæmd fyrir að greiða Þóru Einarsdóttur söngkonu langt undir taxta fyrir þátttöku í sýningu á Brúðkaupi Fígarós og verður óperunni gert að greiða Þóru skaðabætur fyrir. Við þetta rís alda gremju og frekari málshöfðana býsna hátt frá mun fleiri söngvurum. Óperan stórskaðast við þetta bæði í augum almennings og listamanna sem hafa samskipti við þetta flaggskip menningarlífsins. Völvan sér Steinunni Birnu Ragnarsdóttur yfirgefa Hörpuna og halda út í næðinginn á bryggjunni. Hún er með þykka nótnabók undir hendinni.

Ragnar Kjartansson vekur enn meiri athygli

Ragnar verður frægur á fæðingarfötunum einum saman.

Ragnar Kjartansson myndlistarmaður er án efa frægasti listamaður sem Ísland hefur alið á sviði myndlistar og mörg gjörningaverka hans þekkt um allan heim listarinnar. Ragnar verður í sviðsljósinu á árinu, sumpart fyrir verk sín og ný verk sem koma fram en ekki síður fyrir framkomu sína í tengslum við þau. Völvan sér snillinginn á fæðingarfötunum einum með aðdáun og athygli alls heimsins á sér.

Víkingur flýgur hátt

Sigurganga Víkings Heiðars Ólafssonar píanósnillings um heiminn heldur áfram. Völvan sér hann taka við verðlaunum og viðurkenningum hvar sem hann fer. Víkingur verður áfram ástmögur sinnar eigin þjóðar og sennilega langt síðan Íslendingar hafa eignast eins vinsælan og stórkostlegan listamann.

Hneyksli í tónlistarheiminum

Völvan sér mikið uppnám þegar þekktur íslenskur popptónlistarmaður stígur fram og segir frá lífinu bakvið tjöldin með opinskárri hætti en áður hefur sést. Þessi ungi maður segir frá skemmtanalífi, neyslu og allskonar samtryggingu sem tíðkast í litlum heimi íslenskrar tónlistar. Þjóðin stendur á öndinni yfir þessum uppljóstrunum. Það sannast svo á þessum unga manni að sannleikurinn mun ekki gera yður frjálsa heldur ærulausa. Allir snúast gegn honum og völvan sér hann yfirgefa Ísland og freista gæfunnar erlendis.

Grátið í grínheimum

Völvan sér eitthvert uppnám í íslenska grínheiminum þegar allþekktur uppistandari kvenkyns gengur gersamlega fram af gestum þegar hún er að skemmta. Eins og oft er menn ekki sammála um hvað sé fyndið og hvað ekki og skamma stund er þetta helsta áhugamál þjóðarinnar.

Uppistandarinn særir kollega sína holundarsárum þegar hún veitir óumbeðna palladóma um það hverjir þeirra séu fyndnir og hverjir ekki og hver geti komið fram edrú og hver ekki. Völvan sér ýmsa þeirra með tár á hvarmi vegna þessa.

Stríðsmenn verkalýðsins

Hinir herskáu forystumenn verkalýðsfélaganna Ragnar Ingólfsson og Sólveig Anna Jónsdóttir sem hafa vakið athygli undanfarin ár fyrir snöfurlegri vinnubrögð en lengi hafa tíðkast eiga gott ár í vændum.

|
Sólveig Anna Jónsdóttir mun leiða byltingu á Austurvelli.

Nýtt ár mun einkennast af miklu atvinnuleysi og meiri neyð og fátækt en lengi hefur sést. Við slíkar aðstæður verður fólki ljóst hvert gildi öflugrar verkalýðshreyfingar er. Völvan sér  Sólveigu Önnu standa með steyttan hnefa í pontu frammi fyrir miklu mannhafi sem tekur henni vel. Þetta gerist á útifundi í miðbæ í Reykjavíkur og í kjölfarið verða átök milli lögreglu og fundargesta í þeim stíl sem ekki hefur sést síðan í búsáhaldabyltingunni.

Brotist inn til ráðherra

Mikla athygli vekur á nýju ári þegar lögreglan handtekur mann sem brotist hafði inn á heimili forsætisráðherra og sat á rúmstokk ráðherrans þegar vart var við hann. Í ljós kom að hér var mikill aðdáandi bresku konungsfjölskyldunnar á ferð og hafði einsett sér að endurgera nokkur valin atriði úr þáttaröðinni.

Að stela naríum

Völvan sér fréttamál á vordögum sem vekur stjórnlausa kátínu með Íslendinga. Heimamaður í meðalstórum byggðakjarna á Norðurlandi er staðinn að verki við að stela nærfötum af snúrum í heimabyggð sinni. Við rannsókn málsins kemur í ljós umtalsvert safn af undirfötum kvenna sem maðurinn hafði safnað á löngum tíma. Safnið var allt vandlega flokkað og hvert eintak merkt upphaflegum eiganda. Kátínustigið hækkar talsvert þegar í ljós kemur að um er að ræða háttsettan sveitarstjórnamann, leiðtoga sinnar byggðar.

Hvíta tjaldið

Árið 2021 verður mikið kvikmyndaár. Bæði verða frumsýndar nýjar kvikmyndir sem hafa verið teknar á Íslandi en einnig verður ráðist í ný um umsvifamikil verkefni á þessu sviði. Völvan sér aðallega tvær persónur standa í skærara sviðsljósi en nokkru sinni. Annar þeirra er Baltasar Kormákur sem vekur feiknalega athygli þegar hann kemur með Emmu Stone til Íslands vegna nýs verkefnis sem hann er að vinna í.

Það verður áfram nóg að gera hjá Baltasar.

Hinn er Benedikt Erlingsson, verðlaunasafnari sem kemst í sviðsljósið þegar hann tekur að sér meðalstórt stjörnum hlaðið verkefni sem er bandarískt að uppruna en verður tekið á Íslandi og völvan sér ekki betur en Andri Snær Magnason tengist þessu með einhverjum hætti.

Þetta eru aðeins tvö kvikmyndaverkefni af fjölmörgum sem verða í brennidepli á Íslandi næsta sumar og haust.

Matareitrunin mikla

Gríðarleg havarí verður í Reykjavík um mitt sumar þegar fjöldamatareitrun kemur upp í veislu á vegum hins opinbera í Hörpu. Pestin er svo snörp að menn verða að finna Gustavsberg í snatri einungis 30 mínútum eftir neyslu. Þetta leiðir fljótlega af sér neyðarástand þegar aðstaða Hörpunnar hefur ekki undan og flýja þá gestir út í erindum sem að jafnaði eru leyst á afviknum stað. Fljótlega komast á flot á samfélagsmiðlum myndir af mönnum með kjólfötin niður um sig í bókstaflegri merkingu eða húkandi í grjótgarðinum utan við Hörpuna. Engum verður samt beinlínis meint af þessari uppákomu til lengri tíma litið en margur ber af þessu nokkurn kinnroða lengi sumars.

Jón Ásgeir snýr aftur

|
Jón Ásgeir Jóhannesson snýr aftur. Mynd / Rakel Ósk|Erlendur Gíslason.

Margt á eftir að ganga á í íslensku viðskiptalífi í kjölfar Covid þegar fyrirtæki í ferðaþjónustu ýmist leggjast flöt eða sameinast öðrum. En stærsti atburður viðskiptalífsins á nýju ári er endurkoma Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Um þessar mundir berst Jón Ásgeir fyrir því að ná völdum í olíufélaginu Skeljungi og hefur lagt fram yfirtökutilboð til annarra hluthafa.

Skemmst er að segja frá því að Jón stendur uppi með tögl og hagldir með full völd yfir félaginu. Hann tekur þegar í stað til við gamalkunnug trix og selur eignir og veðsetur allt sem naglfast er alveg upp í rjáfur og nær þannig að bjarga viðskiptaveldi sínu sem fram til þessara atvika hafði vegið salt á bjargbrúninni.

Hver er að banka?

Í heimi banka á Íslandi gengur á ýmsu á nýju ári. Helsta fréttin er sú að enginn reynist vilja kaupa Íslandsbanka þótt ríkisstjórnin vilji ólm selja sinn hlut í bankanum. Völvan sér forsvarsmenn stjórnmálaflokka hanga í pilsfaldi lífeyrissjóðanna hrínandi eins og keipakrakka og biðja þá að stíga inn og kaupa hlut ríkisins. Það tekst að einhverju leyti.
Af öðrum bönkum er það helst að Arion og Kvika banki eiga í viðræðum um sameiningu. Helsta röksemdin er sú að stærra sé betra en það hljómar ekki sérlega vel í eyrum þeirra sem enn muna eftir 2008. Völvan sér þessar viðræður í fréttum nýs árs en þær bera ekki sýnilegan árangur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -