Fimmtudagur 9. janúar, 2025
-6.2 C
Reykjavik

„Vona að ég verði ekki grýttur á almannafæri“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Rithöfundurinn Snorri Kristjánsson, sem hefur getið sér góðan orðstír fyrir Valhallarsögu-þríleikinn, hefur sent frá sér nýja bók, KIN (Ættin), sem hefur hlotið fína dóma og hefur útgáfurétturinn á henni þegar verið seldur til Þýskalands og Rússlands. Líkt og fyrri verk Snorra gerist bókin á tímum víkinga en höfundurinn sjálfur lýsir henni sem einskonar samblandi af fantasíuverki og glæpasögu í einkaspæjarastíl.

„Þetta er morðsaga á víkingaöld, svona í anda „Nordic Noir“ þótt brúnaþungir rannsóknarlögreglu-menn starandi út í skammdegið séu reyndar víðsfjarri,“ segir Snorri kíminn og vísar þar til þess að aðalsöguhetjan er ung kona, Helga Finnsdóttir, sem rannsakar hrottafengið morð í föðurhúsum þar sem ýmsar miður geðfelldar persónur liggja undir grun, þar á meðal systkini hennar sem eru hvert öðru skuggalegra.

Snorri kveðst ekki vita til þess að skrifaðar hafi verið skáldsögur um rannsókn og lausn glæpa á víkingaöld, hvað þá af íslenskum rithöfundum, en þorir ekki að slá því föstu að hann sé fyrstur til að ríða á vaðið. Eitt er þó víst, KIN markar visst brotthvarf frá fyrri bókum Snorra, fyrrnefndum Valhallarsögu-þríleik, sem voru hreinræktuð fantasíuverk. „Það var mjög gaman að skrifa þríleikinn en þegar þriðju bók lauk var ég orðinn leiður á því að skrifa stórar bardagasenur,“ segir hann hreinskilinn. „Mér fannst bara komið gott. Kominn tími til að skrifa um eitthvað annað.“ Hann útilokar þó ekki að hann muni einhvern tíma snúa sér aftur að fantasíuskrifum ef hann fái góða hugmynd að sögu.

En var hann ekkert tvístígandi að takast á við annað bókmenntaform, glæpasöguna? „Nei, í sjálfu sér ekki,“ svarar hann. „Því KIN er blanda af fantasíu og glæpasögu, eiginlega söguleg furðuglæpasaga. Þannig að í raun er ég ekki að takast á við form og hefðir glæpasögunnar. Ég er ekki að taka þátt í „samræðum geirans“ ef svo má að orði komast. Ég fékk bara hugmynd að fléttu og skrifaði sögu út frá því.“

Er ekki að halda því fram að konur séu svona

Snorri segist reyndar ekki vera viss um hvernig sú hugmynd kviknaði nákvæmlega. Í aðdraganda skrifanna hafi hann verið búinn að horfa á býsn af glæpaþáttum og haft gaman af því að fylgjast með eiginkonunni leysa gátur.  Hann hafi ákveðið að útbúa eina slíka fyrir heimilið og hún endaði sem úrdráttur að bók, tvær blaðsíður sem útgefandanum leist vel á og bauð Snorra því nýjan samning. „Já, umboðsmaðurinn sýndi útgefandanum þær og hún las yfir og sagði: „Hmmm, já þetta virkar“,“ segir hann og hlær.

Söguhetjan Helga, er skelegg ung kona sem skaut fyrst upp kollinum í annarri bók í Valhallarsögu-þríleiknum. Það er kannski ákveðin klisja að spyrja, en þú hefur ekkert verið hræddur við að skrifa út frá sjónarhóli konu? Snorri brosir. „Að ígrunduðu máli ætla ég að halda því fram að ég hafi ekki verið skíthræddur við það. Ætli það hljómi ekki betur að segja að ég hafi nálgast það verkefni af yfirvegun og töluverðri virðingu,“ segir hann sposkur.

Að því sögðu viðurkennir hann að vissulega sé það alloft kveðin vísa að karlkyns rithöfundar eigi erfiðara með að „skrifa út frá sjónarhorni kvenna“ en kvenkyns rithöfundar út frá sjónarhorni karla. Í KIN sé til hins vegar heill herskari kvenpersóna fyrir utan Helgu sjálfa og þær séu hver annarri snúnari.

„En auðvitað er ég ekki að skrifa út frá eigin reynslu og það getur vel verið að það fari illa í einhverja lesendur. Ég vill þó undirstrika að ég er alls ekki halda því fram að konur séu „svona“ eins og konurnar eru í bókinni, en ég vona innilega að kvenpersónurnar mínar séu sannfærandi og að ég verði ekki grýttur á almannafæri fyrir að voga mér upp á téðan sjónarhól.“

- Auglýsing -

Hörð samkeppni

KIN er skrifuð á ensku og gefin út í Bretlandi líkt og fyrri verk Snorra og segir hann ekki standa til að þýða bókina á íslensku því það sé bæði dýrt og tímafrekt verk. Útgáfurétturinn á bókinni hafi hins vegar þegar verið seldur til Þýskalands og Rússlands, auk þess sem Valhallasögu-þríleikurinn hafi líka verið þýddur á pólsku, hollensku, spænsku og ungversku og gefinn út í Bandaríkjunum. Spurður hvort það sé stór markaður fyrir svona bækur erlendis, segir hann það fara eftir því hvað sé átt við með „svona bókum“. Eins og sjáist á Krúnuleikunum (Game of Thrones) sé alveg sæmilegur markaður fyrir eina og eina fantasíu, en það séu færri og stærri nöfn í þeim geira. Á meðan glæpasögur seljist aftur á móti á tiltölulega breiðari markaði en fantasíur þá sé „harðari samkeppni um að komast á flugvallar-hilluna“.

Hefur komið til tals að kvikmynda bækurnar? „Já, þegar Vikings þættirnir voru hvað vinsælastir barst í tal að kvikmynda Valhallar-bækurnar en það varð lítið úr því og smám saman hef ég áttað mig á því að kvikmyndagerðarfólki finnst afskaplega gaman af því að tala um hlutina. Þess vegna hallast ég núorðið að viðhorfi Elmore Leonard til kvikmynda, en hann sagði að bíópeningur væri fundið fé.“

En sérðu fyrir þér að getað lifað alfarið af skrifum? „Það er draumurinn,“ svarar hann, „en í augnablik-inu er ansi langt í það. Þeir rithöfundar sem ég hef rætt þetta við segja að það sé spurning um úthald og framleiðslu frekar en að skrifa einhverja metsölubók. Ég hef mjög gaman af skrifum, þannig að ég ætla bara að halda þeim áfram á meðan ég get og nenni. Ritstörf og kennsla eru hvort tveggja dásam-leg og skrítin störf sem geta átt hug manns allan og eins og er hef ég náð góðu jafnvægi á milli þessara starfa.“

- Auglýsing -

Sem stendur segist hann vera með nokkrar hugmyndir að bókum sem hann er að þróa. Þar á meðal að annarri „Helgu-bók“ og svo handrit að unglingabók sem þurfi að fínpússa. Ætlar hann þá að fikra sig yfir í enn eina bókmenntgreinina?  „Já, ég er að sjálfsögðu að stefna að fullnaðarsigri í þeim öllum þannig að ætli ég sendi ekki svo frá mér rómantíska unglingaglæpafurðusögu árið 2022,“ segir hann og hlær.

Mynd / Gunnar Freyr Steinsson Photography

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -