Saga Sigurðardóttir og Ísak Freyr Helgason skara hvort um sig fram úr á sínu sviði. Hún er einn af okkar bestu ljósmyndurum og hann einn færasti förðunarfræðingur sem landið hefur alið. Saman eru þau baneitrað teymi og bestu vinir. Saga flaug nýlega til London að hitta Ísak sem þar býr og smellti að sjálfsögðu af myndum fyrir viðtalið í leiðinni.
Saga ætlaði að verða stjarneðlisfræðingur og svo læknir þegar hún var yngri en hún dúxaði í Hagaskóla og fór á náttúrufræðibraut í MR. Það var sterk innsæisrödd sem hvíslaði að henni að hún væri á rangri braut. Hún færði sig yfir í Verzlunarskóla Íslands, sem hún segist eiga ljósmyndaferil sinn í dag að þakka. „Ef ég hefði ekki byrjað í Verzló og farið að mynda fyrir skólablaðið væri ég ekki ljósmyndari í dag.“
Ísak ætlaði aftur á móti að verða fornleifafræðingur þegar hann var yngri, enda með þráhyggju fyrir Jurassic Park. „Ég fór oft og tíðum með tannbursta út í garð og þóttist vera grafa upp bein. Það leit kannski ekkert allt of vel út á þeim tíma,“ segir Ísak og hlær.
Lítil virðing fyrir förðunarfræðingum
Saga og Ísak kynntust á unglingsaldri þegar hún vann í tískuvöruversluninni Rokki og rósum og Ísak var þar fastagestur. Saga lýsir honum sem yfirmáta feimnum, hann hafi ekki þorað að heilsa til að byrja með en eftir að hann skráði sig í förðunarnám hafi hann beinlínis blómstrað og fundið sig. Það er augljóst af spjalli okkar að þau bera gríðarmikla virðingu hvort fyrir öðru sem listafólki.
Sögu finnst mikið vanta upp á að förðunarfræðingar, búningahönnuðir og stílistar fái þá virðingu og laun sem þau eiga skilið hér á landi.
„Það gerir mig svo leiða og reiða að sjá hversu lítil virðing er borin fyrir förðunarfræðingum, búningahönnuðum og stílistum, til dæmis á kvikmyndasettum á Íslandi. Erlendis eru förðunarfræðingarnir oft stórstjörnur og þeir hæstlaunuðu á setti og fá tíma til að vinna vinnuna sína. Þar er líka viðurkennt að stílistar eru mikilvægir fyrir heildarmyndina. Hér hafa verið gefnir út þættir um gerð kvikmynda þar sem gervi og förðun er í stóru hlutverki og engum dettur í hug að minnast einu orði á fólkið sem stendur að þeirri vinnu. Við eigum flinka hönnuði og listafólk sem nær að gera ótrúlegustu hluti á sama og engum tíma. Oftar en ekki er ein manneskja í starfi sem sex manneskjur úti gegna. Það er sorglegt að horfa upp á þetta. Vonandi hækka laun þessara starfsstétta og fólki í þessum störfum verði sýnd sú virðing sem það á skilið, þetta er svo hneykslanlegt. Vegna þessa held ég að margir nenni þessum störfum ekki lengur,“ segir Saga og Ísak tekur undir að bransinn sé gjörólíkur hér á landi og úti í London.
„Það gerir mig svo leiða og reiða að sjá hversu lítil virðing er borin fyrir förðunarfræðingum, búningahönnuðum og stílistum, til dæmis á kvikmyndasettum á Íslandi.“
„Markaðurinn er svo miklu stærri hérna úti og mörg stór tískuhús og tímarit til að vinna fyrir og auðvitað miklu fleiri förðunarfræðingar og peningar í spilinu. Fyrirtækin eru líka dugleg að nota förðunarfræðinga til að auglýsa fyrir sig og vera talsmenn þeirra. Þeir eru þá orðnir stór nöfn innan geirans. Margt hefur breyst með komu Instagram. Það getur skipt miklu máli hversu marga fylgjendur förðunarfræðingar hafa þegar þeir eru valdir í ákveðin verkefni sem mér finnst alveg fáránlega leiðinleg þróun sem ég tek lítinn þátt í,“ segir Ísak einlægur að vanda.
Saga tekur undir það hversu breyttur bransinn er með vinsældum ákveðinna samfélagsmiðla. „Þegar ég flutti heim frá London fyrir nokkrum árum var ég kannski fengin í stór verkefni á hálfs árs fresti. Mikið var í þau lagt og launin eftir því. Núna er hraðinn orðinn svo mikill að allt þarf að endurnýjast á mánaðarfresti eða svo. Sem þýðir miklu meiri vinnu fyrir minni peninga. Landslagið fyrir okkur ljósmyndarana er mjög breytt og ekki jafnskemmtilegt og það var. Þessi endalausi hraði bitnar á gæðunum. Ég vona að þetta sé bara ákveðið tímabil og að gæðin komist aftur í tísku,“ segir Saga.
Grét af reiði vegna virðingaleysis
Talið berst að jafnréttisbaráttunni en eitt atvik frá því Saga leikstýrði myndbandi á dögunum, situr í henni. „Ég hef tekið þátt í allskonar verkefnum og tel mig heppna að hafa ekki oftar en raun ber vitni upplifað kynjamisrétti, þótt ég hafi vafalaust fengið minna borgað en karlkynskollegar mínir. Við konur eigum það til að gera lítið úr okkur. Ég er smám saman að læra samningatækni,“ segir Saga en nýlega var gert lítið úr henni í vinnu. Hún upplifði algera vanvirðingu á tökustað. „Ég var fengin til að leikstýra myndbandi og upplifði á eigin skinni að karlkynstökumaður hlustaði ekki á neitt sem ég sagði. Sama hversu oft ég sagði sama hlutinn, allar athugasemdirnar mínar voru virtar að vettugi. Tilfinningin sem ég fann fyrir situr í mér. Ég var svo reið að ég grét af reiði,“ segir Saga en bætir við að viðkomandi tökumaður hafi rétt í þessu sent henni fallegan afsökunarpóst, sem hún kunni að meta. „Það skiptir miklu máli að standa með sjálfri sér þegar svona gerist og læra af reynslunni. Setja þarf ákveðin mörk í samskiptum fyrirfram en það kemur með reynslu og tímanum,“ segir hún og bætir við að hún hafi unnið með frábæru og hæfileikaríku fólki í gegnum tíðina, af báðum kynjum, og það sé virkilega dýrmætt að eiga góða vini í bransanum.
Í annarlegu ástandi í frægum kastala
Ísak og Saga segjast bæði vera viðkvæm, svolítið meðvirk og með ákveðnar þráhyggjuhugsanir. Það séu viss mál sem þau tali aðeins um hvort við annað því þar finni þau skilyrðislausan gagnkvæman skilning. Ísak varð edrú fyrir nokkrum árum og hefur aldrei verið í meira jafnvægi en Saga segist varla drekka.
„Ég minntist ekki á að ég drykki ekki, þegar ég bjó í London. Fólki hefði fundist það svo skrítið. Það var ekkert eðlilegra en að fólk í mínum bransa fengi sér ketamín eða önnur furðuleg vímuefni á þriðjudegi,“ segir Saga og Ísak tekur við: „Við Saga höfum aldrei þurft vímugjafa til þess að skemmta okkur saman. Við tengjumst í gegnum listina og höfum alltaf skapað eitthvað skemmtilegt saman þegar við hittumst. Saga fékk samt að taka þátt í ruglinu á mér áður en ég varð edrú. Hún þurfti hálfpartinn að halda á mér í gegnum þorp í svissnesku Ölpunum þegar ég drakk of mikið og fann mig vafinn í teppi í annarlegu ástandi í frægum kastala í Bretlandi eftir marga skandala. Það er til allrar guðs lukku liðin tíð,“ segir Ísak og meinar hvert orð.
„Við Saga höfum aldrei þurft vímugjafa til þess að skemmta okkur saman. Við tengjumst í gegnum listina og höfum alltaf skapað eitthvað skemmtilegt saman þegar við hittumst.“
„Mér finnst það alltaf jafnsúrealískt að við, litla fátæka fólkið frá Íslandi, hafi verið í þessum aðstæðum með kóngafólki,“ segir Saga en í þessu umrædda tilviki voru þau stödd í Sviss að farða og mynda fyrir brúðkaup í konungsfjölskyldu.
Myndlistarkonudraumar og barneignir
Talið berst að framtíðinni. Saga segist vera búin að gera það sem hana langaði mest til í ljósmyndabransanum. Eftir að hún útskrifaðist úr skóla í London vann hún þar myrkranna á milli til að sanna sig. Og hún gerði það heldur betur. Hún kom nafni sínu á blað og meira en það þegar hún vann fyrir tímarit á borð við Dazed and Confused og stórfyrirtæki eins og Nike og Topshop.
„Ég gerði allt sem mig langaði að gera og varð síðan þreytt á því. Þótt það sé líka gaman þá langar mig til að gera hluti sem næra mig meira. Að skapa frá eigin hjarta, ef ég má orða það þannig.“
Saga tók nýverið á leigu stúdíó í miðbænum þar sem hún mun njóta sín í myndlistarkonuhlutverkinu.
Eins og fyrr segir býr Ísak í London með James, kærastanum sínum. Hann flýgur heimshorna á milli og farðar fallegustu konur heims, á borð við Cöru Delevingne og Katy Perry. Hann er augljóslega ástfanginn upp fyrir haus og börn eru á dagskrá, en fyrst lítill og sætur hvolpur.
Myndir / Saga Sigurðardóttir