Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

Vonbrigði þegar lagið var fjarlægt af plötu Spice Girls

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tónlistarkonan og lagasmiðurinn Heiðrún Anna Björnsdóttir kom heim á klakann til að taka þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins með lagi sínu Helgi eða Sunday Boy. Nú vinnur hún að því að klára tvær smáskífur og er auk þess með nýja plötu í smíðum.

„Í augnablikinu er ég að vinna í því að klára tvær smáskífur. Veit ekki hvora þeirra ég ætla að gefa út fyrst, rólega bíómyndalagið eða danslagið. Stefni alla vega að því að gefa annað þeirra út eftir tvo mánuði, vonandi bara stenst það,“ segir Heiðrún Anna, sem vinnur nú einnig hörðum höndum að útgáfu nýrrar plötu undir listamannsnafninu Lúlla sem er gælunafn Heiðrúnar innan fjölskyldunnar.

„Þetta er electronic-popplata sem hefur verið í vinnslu undanfarið tvö og hálft ár. Við gáfum út sex lög af plötunni í fyrra, nýjasti „síngúllinn“ heitir Nothing Changes. Það er hægt að nálgast öll lögin á Spotify. Restin af plötunni kemur út þegar við höfum tíma, að öllum líkindum seinna á árinu.“

Ég var boðuð á fund hjá Simon Fuller eftir að hann i hlustaði á lögin mín. Hann varð yfir sig hrifinn af einu þeirra, Angels, og vildi fá að nota það sem endurkomulag fyrir Spice Girls.

Boðið að vera með á Spice Girls-plötu

Heiðrún hefur búið í Englandi síðustu 23 ár og á að baki farsælan feril í tónlist. Hún var á samningi hjá Universal Publishing til margra ára og hefur unnið með ýmsum þekktum listamönnum, þar á meðal Swedish House Mafia sem gerði remix af lagi hennar Beating of my Heart sem hún gaf út með þáverandi hljómsveit sinni Cicada. Einnig var hún fengin til að semja fyrir Spice Girls þegar sveitin hugði á endurkomu fyrir tíu árum. „Ég var boðuð á fund hjá Simon Fuller eftir að hann i hlustaði á lögin mín. Hann varð yfir sig hrifinn af einu þeirra, Angels, og vildi fá að nota það sem endurkomulag fyrir Spice Girls. Þær voru að gefa út „best of“-plötu og þar áttu að vera tvö ný lög. Þær tóku lagið mitt upp og allt var tilbúið þegar mér var tilkynnt að gamli pródúserinn þeirra fengi mitt pláss, hans lag var allt í einu komið á plötuna,“ segir hún og viðurkennir að það hafi verið hræðileg vonbrigði þegar lagið var fjarlægt af plötunni á síðustu stundu.

Semur bara fyrir sjálfa sig

Heiðrún Anna hefur samið fyrir fleiri stóra aðila á ferlinum og var til að mynda fengin til að semja tónlist fyrir erlenda stórstjörnu, sem hún vill ekki nefna á nafn, fyrir tilstuðlan bresku útgáfunnar EMI. EMI var að hennar sögn ánægt með lagið en stórstjarnan ákvað á endanum að nota það ekki. „Svona er þetta, maður er svo oft næstum búinn að meika það,“ segir hún og hlær. „Ég er alls ekki bitur eða leið en ég missti samt einhvern veginn áhugann á þessu harki. Var líka komin með stóra fjölskyldu og fleira að hugsa um. Þannig að núna, í þessum breytta tónlistarheimi þar sem hver sem er getur gefið út eigið efni, þá sem ég bara fyrir sjálfa mig og það sem ég fíla.“

Svona er þetta, maður er svo oft næstum búinn að meika það.

- Auglýsing -

Horfir meira til Íslands en áður

Eins og fyrr sagði tók Heiðrún Anna þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins í ár. Hún hafði gaman af og segir að eftir keppnina hafi sér fundist vera rétti tíminn til að gefa út nokkur lög úr eigin smiðju, bæði gömul og ný. Eins sé hún farin að horfa meira til Íslands en áður. Hana langi mikið til að fara að gera tónlist með tónlistarfólki hér og styrka tengslin við íslensku senuna. „Já, ég er alltaf til í samstarf. Til dæmis gera remix af lögunum mínum. Það væri mjög gaman,“ segir hún.

Hægt er að lesa lengra viðtal við Heiðrúnu Önnu á albumm.is

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -