Mánudagsmorguninn 18. desember árið 1995 réðust þrír grímuklæddir og vopnaðir menn inn í Búnaðarbankann á Vesturgötu. Þeir komust burt með rúmlega eina og hálfa milljón króna meðferðis.
Þetta er vopnað rán
„Þeir ruddust inn með miklum hávaða og öskruðu: Þetta er vopnað rán. Ég var staddur inni á skrifstofu minni baka til og áttaði mig ekki alveg á alvörunni í fyrstu.“
Þetta sagði Leifur H. Jósteinsson, útibússtjóri í bankanum, í samtali við DV sem birtist í blaðinu daginn eftir ránið. Leifur sagðist hafa áttað sig á alvarleika málsins þegar hann sá einn mannanna stökkva yfir afgreiðsluborðið með hníf í hendi.
Tveir bankaræningjanna voru vopnaðir hnífum en sá þriðji bar haglabyssu.
Hélt að um grín væri að ræða
Einn viðskiptavina bankans þennan morgun, Ólafur G. Björnsson, lýsti upplifun sinni af hinum óhuggulega atburði við DV. Þar sagði hann að ræningjarnir hefðu skipað öllum að horfa niður í gólfið.
„Ég fór eftir því og þess vegna sá ég lítið hvað ræningjarnir aðhöfðust. Þeir voru þó á ferð og flugi og með skipanir til starfsfólksins,“ sagði Ólafur.
Ólafur sagðist í fyrstu hafa haldið að um grín væri að ræða. Annað hafi þó fljótlega komið í ljós og ekkert annað að gera en að hlýða og hreyfa hvorki legg né lið.
Ránið tók aðeins eina mínútu
Leifur útibússtjóri vildi meina að greinilegt hefði verið á allri hegðun og athöfnum ræningjanna að þeir hefðu skipulagt ránið vandlega. Þeir hefðu gengið fagmannlega til verks. Leifur sagði sömuleiðis að sér hafi virst maðurinn með haglabyssuna vera höfuðpaurinn sem stjórnaði aðgerðunum.
Sá maður beið framan við afgreiðsluborðin á meðan hinir tveir fóru á bak við þau og brutu upp skúffur fjögurra gjaldkera. Úr skúffunum náðu þeir, eins og fyrr sagði, um einni og hálfri milljón króna og létu sig svo hverfa jafn skyndilega og þeir höfðu birst. Raunar virðist ránið varla hafa tekið meira en eina mínútu, ef marka má orð útibússtjórans.
Gjaldkerarnir fengu aldrei ráðrúm til að hringja neyðarbjöllunum en Leifi tókst það hinsvegar. Einnig var maður að nafni Eyjólfur Einarsson sem hringdi á lögregluna, en hann var hinumegin við götuna og sá þegar ræningjarnir létu til skarar skríða. Eyjólfur sá mennina stíga út úr lítilli Toyotu, einn þeirra með haglabyssuna í hendi. Hann horfði síðan á eftir þeim inn í bankann og sá því strax að ekki var allt með felldu og hljóp inn til sín til að hringja á lögregluna. Skjót viðbrögð Eyjólfs dugðu þó ekki til – ræningjarnir voru of snöggir. Litlu Toyotuna skyldu þeir eftir í gangi fyrir utan bankann og létu sig hverfa með öðrum leiðum.
Bæði Leifur útibússtjóri og Eyjólfur vildu meina að ræningjarnir hefðu sennilega verið í kringum tvítugt.
„Af hreyfingum mannanna virtist mér sem þeir væru um tvítugt. Það er þó erfitt að átta sig á slíku enda mennirnir með lambhúshettur á höfðum og í vinnugöllum,“ sagði Eyjólfur.
„Þetta voru ungir menn þótt erfitt væri að átta sig á aldri þeirra í samfestingunum og með lambhúshetturnar. Ég giska á að þeir hafi verið um eða rétt yfir tvítugt. Þeir voru mjög vel þjálfaðir sem sést af því að þeir undu sér yfir afgreiðsluborðin eins og ekkert væri,“ sagði Leifur.
Starfsfólk fékk áfallahjálp og öryggismál tekin til skoðunar
Starfsfólk Búnaðarbankans í Vesturgötu, sem var við störf í útibúinu þegar ránið var framið, fékk áfallahjálp í kjölfarið. Hanna Pálsdóttir, aðalféhirðir Búnaðarbankans, hafði áhyggjur af starfsfólkinu og sagði atburðinn hafa valdið því mikilli andlegri áreynslu.
„Það er ólýsanlegt að lenda í þessu. Ég hugsa að það taki langan tíma fyrir starfsfólkið að átta sig á hvaða varanleg áhrif þetta kann að hafa. Við leggjum því mikla áherslu á að hlúa sem best að fólkinu,“ sagði Hanna í samtali við Morgunblaðið.
Daginn eftir ránið var útibú bankans í Vesturgötu opið eins og venjulega. Engar sérstakar öryggisráðstafanir höfðu verið gerðar. Leifur útibússtjóri sagðist ekki eiga von á sömu mönnunum tvisvar. Þessi afstaða bankans til öryggismála virðist þó strax hafa verið endurskoðuð, því tveimur dögum eftir ránið var verið að setja upp eftirlitsmyndavélar í bankanum. Slíkar myndavélar höfðu aldrei áður verið notaðar sem hluti af öryggikerfi í útibúum Búnaðarbankans.
„Aðalatriðið er að reyna að ná þessum mönnum. Það er vont ef menn komast upp með svona athæfi,“ sagði Sólon Sigurðsson, bankastjóri Búnaðarbankans, í samtali við Morgunblaðið þann 20. desember 1995, þegar verið var að herða gæsluna og setja upp myndavélarnar.
Þaulskipulagt og vasklega gengið til verks
Ýmis atriði benda til þess að ræningjarnir þrír hafi undirbúið ránið í Búnaðarbankanum á Vesturgötu afar vel. Þeir gengu hratt og vasklega til verks, völdu tímasetningu þar sem minnst var um að vera í bankanum, komu á farartæki sem þeir gátu skilið eftir við bankann og gufuðu svo nánast strax upp án þess að skilja eftir sig neina slóð.
Bíllinn sem þeir komu á, sem skilinn var eftir í gangi fyrir utan bankann, reyndist stolinn og í honum voru engin sönnunargögn sem leitt gátu lögreglu á slóð mannanna.
Það eina sem vitni sáu af þremenningunum eftir að þeir yfirgáfu bankann var þegar þeir hlupu niður á Nýlendugötu. Eftir það virðist enginn hafa orðið þeirra var en sporhundar lögreglu röktu slóð þeirra þó áfram yfir Garðastræti. Svo varð slóðin köld – það var hreinlega eins og jörðin hefði gleypt þá. Taldi lögregla að þar hefði önnur bifreið beðið ræningjanna. Toyota-bifreið fannst síðan á Blómvallagötu. Í henni var einn hnífur sem var talinn hafa tilheyrt einum mannanna.
Fjórir menn grunaðir
Í júlí árið 1996 sagði Hörður Jóhannesson, þáverandi yfirlögregluþjónn hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins, að málið væri „óupplýst ennþá en ekki búið.“ Þá hafði Búnaðarbankinn sjálfur reynt að halda málinu á lofti með því að heita einni milljón króna fyrir upplýsingar sem gætu leitt til handtöku ræningjanna.
Það er þó ekki svo að enginn hafi nokkurn tíma verið grunaður um verknaðinn. Þannig voru fjórir ungir menn með réttarstöðu grunaðra í málinu um nokkurn tíma. Í ljós kom að sömu menn höfðu lagt á ráðin um rán sem svipaði mjög til Búnaðarbankaránsins. Rannsóknarlögregla ríkisins gekk svo langt að lýsa yfir vissu um að fjórmenningarnir tengdust málinu. Allir fjórir sátu þeir um tíma í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Þeir voru lögreglu ekki ókunnugir, heldur höfðu þeir áður komist í kast við lögin fyrir bæði fjár- og tryggingasvik. Þeir höfðu reynt að beita blekkingum til að svíkja fé út úr tryggingafélögunum, til að mynda með því að sviðsetja innbrot og bílslys.
Líkindi við Skeljungsránið
Ráninu í Búnaðarbankanum svipaði mjög til annars ráns, svokallaðs Skeljungsráns. Þar voru ræningjarnir líka þrír og vopnaðir hnífum. Þeir voru klæddir á svipaðan hátt og ræningjarnir í Búnaðarbankaráninu og komu sömuleiðis á vettvang glæpsins á stolnum bíl sem hafði verið stolið nóttina áður.
Allt kom þó fyrir ekki. Þrátt fyrir að rannsóknarlögregla hafi virst ansi viss í sinni sök voru sannanir á hendur mönnunum fjórum ekki nógu sterkar til að hægt væri að fara með málið fyrir dómstóla. Þeir voru þó ákærðir fyrir ýmis önnur brot, til að mynda framangreind fjársvik og tryggingasvik. Allir hlutu þeir dóm fyrir þau mál, þó mislangir væru.
„Það liggur fyrir að þessir menn hafa planað svona atburð með mjög áþekkum hætti og raunin varð á Búnaðarbankamálinu. Það er enn til rannsóknar að hve miklu leyti þeirra undirbúningur kom við sögu varðandi ránið. Bankaránið er staðreynd og þeirra undirbúningur er staðreynd. En urðu einhverjir á undan þeim eða hvað?“
sagði Hörður Jóhannesson í samtali við Helgarpóstinn í febrúar árið 1996.
Fjórmenningarnir neituðu ávallt sök í Búnaðarbankamálinu. Bankaránið þennan mánudagsmorgun í Vesturgötu er óupplýst enn þann dag í dag.
Þessi baksýnisspegill birtist fyrst hjá Mannlífi 13. desember 2021