Vopnað rán var framið í apóteki í hádeginu í dag. Lögregla leitar ræningjans.
Samkvæmt frétt RÚV leitar Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu að manni sem rændi apótek í Vallakór í Kópavogi um klukkan hálf eitt í dag. Ógnaði maðurinn starfsfólki apóteksins með dúkahníf og hafði lyf á brott með sér.
Segir í yfirlýsingu lögreglunnar að ræninginn hafi verið farinn þegar lögregluna bar að garði. „Hann er enn ófundinn en maðurinn var klæddur í svarta 66° Norður-úlpu, með svarta húfu og buff fyrir andlitinu.“
Samkvæmt yfirlýsingunni sakaði engan í apótekinu en starfsfólkinu hafi verið mjög brugðið. Þá eru þeir sem geta veitt upplýsingar um málið vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögreglu í síma 444-1000.