Annasamur sólarhringur er að baki hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Lögreglu barst tilkynning um mann vopnaðan hnífi í miðborginni rétt fyrir miðnætti í gær. Maðurinn, sem var í annarlegu ástandi, var handtekinn og vistaður í fangageymslu. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Mótorhjólaslyss varð á kvartmílubrautinni í Hafnarfirði og voru lögregla og slökkvilið kölluð á vettvang. Einn var fluttur á slysadeild með minniháttar meiðsli.
Grjót féll á bíl á Reykjanesbraut í gær og urðu skemmdir á bílnum.
Þá fékk lögregla tilkynningu um umferðaróhapp á höfuðborgarsvæðinu. Tjónið reyndist vera minniháttar. Var ökumaður annars bílsins grunaður um ölvunarakstur og var hann handtekinn.
Loks bárust lögreglu þó nokkrar tilkynningar um hávaða víðs vegar í Reykjavík.
Sinnti lögregla alls 55 málum frá klukkan 17 í gærkvöldi til klukkan fimm í morgun. Fimm gistu fangageymslur.