Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar um veðrið næstu daga segir að í dag sé útlit fyrir hæga breytilega átt, að áfram verði léttskýjað á norðanverðu landinu og að það létti til austanlands þegar kemur fram á daginn.
Á Suður- og Vesturlandi verða ský á himni og mögulega koma einhverjir dropar úr sumum þeirra, eitthvað mun þó sjást til sólar milli skýja. Hiti yfir daginn á bilinu 5 til 10 stig segir í spánni.
Á morgun er útlit fyrir hægviðri og sólríkt veður á mestöllu landinu. Ekki er útlit fyrir miklum breytingum til miðvikudags.
„Næstu þrjá daga er semsagt útlit fyrir hægan vind á landinu og viðunandi hitatölur yfir daginn, en svalt að næturlagi. Aðgerðaleysið í veðrinu má líta á sem eitt af einkennum vorsins á Íslandi og vorið er svo sannarlega komið,“ segir í spánni.