Mini Countryman í tvinnbílaútgáfu er einstaklega skemmtilegur bíll sem er fyrst og fremst gaman að keyra.
Hvern einasta morgun þegar ég vakna og lít út um gluggann verð ég að hughreysta sjálfan mig og endurtaka í sífellu: Jú, sumarið kemur víst að lokum. Það kemur víst. Vertu þolinmóður.
Ég get vel ímyndað mér að flestir landa minna séu í sömu sporum, við höfum öll fengið okkur fullsödd af grámyglunni og votveðrinu. En við höfum ekkert val, við verðum bara að setja hausinn undir okkur og vaða upp í vindinn.
Nú, eða setjast inn í sumarlegasta bíl sem framleiddur hefur verið. Bíl sem nær ómögulegt er að vera í vondu skapi í.
Austin Mini hefur alltaf verið í ákveðnu uppáhaldi hjá mér. Hann er svo ungæðislegur og bjartsýnn, ef hægt er að segja það um bíl. Hann er tákn bresku nýbylgjunnar, æskunnar og draumsins að slaka bara á og njóta lífsins.
Mini stækkar og styrkist
Þegar ég fékk bílinn í hendurnar, en ég keyrði Mini Countryman í tvinnbílaútgáfu, var það fyrsta sem ég hugsaði: Vá. Mini er búinn að hanga aðeins of mikið í ræktinni og fá einum og margar sterasprautur í afturendann.
Hann er einhvern veginn meiri um sig og stærri. Sem þarf ekki að vera verra, vegna þess að hann er ögn rúmbetri en fyrirrennarar sínir.
Mælaborðið er eins og smekklegur glymskratti, marglit ljós og sérstæð hönnun mælaborðsins og stýrisins kemur vel út. Hönnunin er greinilega innblásin af hönnun gamalla stjórnklefa í flugvélum og kannski hef ég horft á of margar James Bond-myndir en þetta gengur fullkomlega upp.
Lipur sem aldrei fyrr
Ég var strax kominn í gott skap og hélt af stað út fyrir borgarmörkin í leit að smávegis vorglætu. Hlustaði í bítnikktónlist og leyfði borginni að hverfa í baksýnisspegilinn.
Það er gott að keyra Mini Cooper og Countryman. Þeir eru svo liprir og verða fljótlega eins og framlenging á huga manns. Ég átti ekki í vandræðum með að taka fram úr hægfara ferðamönnum sem negldu niður í hvert sinn sem sást glitta í hesta í gerði við þjóðveginn. Sú staðreynd að Countryman er fjórhjóladrifinn gerði aksturinn enn áhugaverðari.
Rafmagn og bensín í bland
Countryman er tvinnbíll sem hægt er að stinga í samband fyrir hleðslu. Tvinnvélin gerir bílnum lítinn greiða í langakstri. Rafhlöður eru þungar og út á þjóðveginum kostar tvinnhlutinn einungis meiri eyðslu. Árinni kennir, og allt það, en ég var allavega langt fyrir ofan gefna eyðslu á bílnum strax á Vesturlandsveginum.
Tvinnvélin kemur sér án efa mun betur í innanbæjarsnattinu þar sem vegalengdir eru styttri og möguleiki gefst að setja bílinn í samband.
Ég ákvað að keyra að Búðum á Snæfellsnesi og kíkja þar í kaffi. Það var eins og við manninn mælt að um leið og komið var upp úr göngunum reif nesið af sér og sólin heilsaði upp á okkur. Fyrir framan okkur var þungur rigningarbakki, og gott ef ekki snjókoma bak við okkur. En svona var þetta alla leiðina. Ekkert nema sól á Mini-inn.
Þetta er helsti kostur Mini Cooper og Countryman. Þeir eru einstaklega skemmtilegir bílar sem er fyrst og fremst gaman að keyra. Það eru án efa praktískari kostir í stöðunni, en þegar þunglyndið yfir vorleysinu hellist yfir mann þá fýkur praktík út í veður og vind og þessi hreina og fölsvalausa gleði sem felst í að keyra Mini verður öllu öðru yfirsterkari.