Föstudagur 15. nóvember, 2024
-0.1 C
Reykjavik

Vytautas Narbutas: „Við fæðumst með bæði paradís og helvíti innra með okkur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég er manneskja, sextugur og dauðlegur,“ segir listamaðurinn Vytautas Narbutas þegar hann er beðinn um að lýsa sjálfum sér. Hann opnaði nýlega sýningu sína „Tomorrow, and tomorrow, and tomorrow“ í Gallerí Göng og þar má einmitt sjá dauðlegar manneskjur. Dauðlegar manneskjur og sumar meira að segja dánar. Verkin hans eru full af táknfræði. Trúarbragðasímbólum. Goðsagnarmístík. Heimspekilegum pælingum.

Hún lét sækja prest svo ég dæi ekki trúleysingi.

Hann fæddist einmitt fyrir sextíu árum síðan, sex áratugum, í Klaipéda í Litháen. Þegar hann var kominn í þennan heim leið ekki langur tími þar til sjálfur dauðinn ætlaði að sækja hann. Lungnabólga í báðum lungum barnsins. „Læknar sögðu móður minni að það væri engin von og að hún ætti að búast við hinu versta. Hún lét sækja prest svo ég dæi ekki trúleysingi. Ég var þess vegna skírður á sjúkrahúsinu og sem betur fer gerðist kraftaverk: Mér fór að batna. Og ég er enn lifandi og ég vona að svo verði áfram.“

Drengurinn sem var svona ungur við dauðans dyr fór að teikna og sjálfur meistarinn Leonardo da Vinci blés honum í brjóst þótt dáinn væri. „Ég las bækur um hann þegar ég var barn og heillaðist af verkum hans.“

Hann sem lifði var 11 ára þegar hann fór í listaskóla: Klaipéda-listaskólann. Síðan var það Kaunas-listaskólinn í fimm ár og loks Vilnius Academy of Fine Arts á árunum 1982-1990. Lærði myndlist og leikmynda- og búningahönnun. Námið í síðastnefnda skólanum tók sex ár en eftir fyrsta árið þurfti Vytautas að fara í sovéska herinn í tvö ár. „Þetta var á þeim tíma þegar Sovétríkin höfðu ráðist inn í Afganistan og það kom mér í ógöngur: Gæti ég drepið mann? Sem betur fer kom ekki til þess.“

Uppsetning á TARTUFFE eftir Moliére í leikhúsi í Óðinsvéum í Danmörku árið 2013 í leikstjórn Oskaras Koršunovas.

Grímuverðlaunahafi

Örlögin urðu til þess að Vytautas, sem gagnrýnendur í heimalandi hans höfðu kallað „endurreisnarmanninn“, kom til Íslands í fyrsta skipti þremur árum eftir útskrift: Draumalands hans frá æskuárunum. Landið þar sem álfar, tröll og huldufólk er sagt búa á meðal mannanna sem og í stokkum og steinum og þar sem goð svo sem Óðinn, Frigg og Þór hafa yfir sér ævintýrablæ.

- Auglýsing -

Leikstjórinn Rimas Tuminas og tónskáldið Faustas Laténas settu þá upp Mávinn eftir Anton Chekhov í Þjóðleikhúsinu. Vytautas sá um sviðsmyndina. Hann stóð svo að fjórum öðrum sýningum með Rimas hér á landi.

Fékk ég Grímuverðlaunin fyrir Engla alheimsins.

„Þetta var yfirskilvitlegt kraftaverk vegna þess að mig hafði dreymt um að fara til Íslands þegar ég var barn. Ég veit ekki hvers vegna. Mig dreymdi hins vegar ekki um að búa á Íslandi en hér hef ég hins vegar búið frá árinu 1998 og ég þori að fullyrða að að ég geti litið á mig sem litháískan-íslenskan listamann. Ég hef unnið meðal annars fyrir Þjóðleikhúsið, Borgarleikhúsið, Íslensku óperuna, Loftkastalann og Gaflaraleikhúsið. Síðasta uppsetning sem ég vann að var Djöflaeyjan í Þjóðleikhúsinu og fékk ég Grímuverðlaunin fyrir Engla alheimsins.“

Vytautas Narbutas

- Auglýsing -

 

Sál mannanna

Það er óhætt að segja að verk Vytautas séu eins og úr öðrum heimi. Öðrum heimi þar sem allt getur gerst. Hvernig hefur Ísland blásið honum í brjóst? Landið þar sem eins og þegar hefur komið fram álfar, tröll og huldufólk er sagt búa á meðal mannanna sem og í stokkum og steinum og þar sem goð svo sem Óðinn, Frigg og Þór hafa yfir sér ævintýrablæ? „Stórkostlegt landslagið á Íslandi heillaði mig frá fyrstu stundu og gerir enn. Þetta er yfirnáttúrlegur innblástur og það að horfa á þetta landslag er eins og hugleiðsla. Ég bý rétt hjá vita í Gróttu og þaðan sé ég sólarlagið, sólsetrið, stjörnur og norðurljósin, fjöll og skip.“

Hann hlustar á nið hafsins. Fuglasönginn.

Mávahlátur.

„Ég málaði einu sinni mynd af Maríu mey þar sem íslenskt landslag var á myndinni sem Vilnius MO Museum á.“

Hvernig hafa myndirnar hans þróast í gegnum árin?

„Þær hafa þróast bæði hvað varðar myndefni og tækni.“

Hann talar um Sovétríkin fyrrverandi en þau voru ekki fyrrverandi þegar hann sem lifði var barn, unglingur og ungur maður. Og hann segir að ekki sé að finna sovésk áhrif í verkunum. „Ég var alltaf á móti hugmyndafræði kommúnista. Heimur minn var andlegur en síðan fór ég að leggja áherslu á trúarlegt myndefni.“

Sumum finnast myndirnar mínar vera ógnvekjandi.

Hann segist trúa á sál mannanna og allt sem henni tengist. Þessar áherslur má sjá í verkum hans sem látinn meistarinn Leonardo da Vinci blés í brjóst fyrir um hálfri öld. Stundum sést inn í fólk. Inn í líkama fólks. Bein. Hauskúpur. „Sumum finnast myndirnar mínar vera ógnvekjandi. Ég er ósammála. Við fæðumst með bæði paradís og helvíti innra með okkur. Við þurfum að komast út úr göngum andlegs vesaldóms og frelsa okkur sjálf frá myrku horni sálarinnar eins og Jesús gerði í eyðimörkinni.“

Allt þetta birtist svo í uppbyggingu verkanna. Litum. Táknum.

Hafið bláa hafið, sólarlag og sólsetur og mávahlátur dáleiða litháíska-íslenska listamanninn en útlönd kalla líka en Vytautas hefur að undanförnu unnið mest við sviðsmyndir í erlendum leikhúsum. Síðasta verkefni sem ég vann að var leikrit byggt á Brave New World eftir Huxley í leikstjórn Gintaras Varnas en það var sett upp í Vilnius Youth Theatre. Leikmyndin var tilnefnd til Golden State Cross-verðlaunanna.“ Annars er Vytautas á Íslandi við hafið. „Restina af tímanum mála ég hér á Íslandi og ber út blöð á nóttunni.“

Vytautas Narbutas

Í fjarbúð

Hann sem lifir segir að heimurinn sem við þekkjum blási honum ekki í brjóst; eins og meistari da Vinci. „Ég les ekki dagblöð,“ segir hann sem ber út dagblöð á nóttunni, „og ég horfi ekki á sjónvarpið þó ég hafi reyndar byrjað að fylgjast með fjölmiðlum eftir að stríðið í Úkraínu hófst. Frá því ég var barn hef ég haft áhuga á list, sögu og heimspeki. Trú var mér mikilvæg áður en ég gerði mér grein fyrir því. Mig dreymdi um að verða prestur og ganga í klaustur til að forðast þennan heim þótt ég hafi á sama tíma dreymt um að ferðast og skoða heiminn.“

Og hjónin búa ekki saman.

Vytautas er kvæntur Dagbjörtu Ásbjörnsdóttur. Og hjónin búa ekki saman. Heimilin eru tvö. „Það er eitt vandamál; þegar við hittumst þá finnst okkur við ekki geta varið nógu miklum tíma saman.“

Listamaðurinn sem lifir er spurður hvaða lífsreynsla hafi haft mest áhrif á líf hans. „Leikhús er mikilvægur hluti í lífi mínu; leikhúsið er heill heimur út af fyrir sig. Ég fæddist í Sovétríkjunum eins og hefur komið fram; búrinu þar sem allt var ritskoðað, bælt niður og afbakað. Leikhúsið var staðurinn þar sem hægt var með myndlíkingum að tala um það sem ekki hefði annars verið hægt að tala um. Fólk fer í leikhús til að finna frelsi. Upplifa frelsi.

Ef þeir sem fara á sýninguna, og horfa á verkin mín, ná að líta í eigið sjálf og tala við sitt innra sjálf með því að horfa á myndirnar mínar mun það veita mér ánægju því þá veit ég að ég lifi og vinn ekki til einskis.“

Vytautas Narbutas

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -