Werner Ívan Rasmusson, aldurhnigið sóknarbarn þjóðkirkjunnar, er ekki par hrifinn af hugmyndinni um aðskilnað ríkis og kirkju. Hann telur víst að með því komi áhrif Þjóðkirkjunnar til að minnka enn frá því sem orðið er og hleypa öðrum miður æskilegum trúarbrögðum að valdastóli.
„Mér skilst að þetta þýði að þjóðkirkjan verði lögð af sem slík og þykja mér það vondar fréttir vegna þess að það auðveldar öðrum, að mínu mati, miður æskilegum trúarbrögðum að komast til aukinna áhrifa hér á landi,“ segir Werner Ívan. Enn síður er hann hrifinn af þögn Agnesar Sigurðardóttur biskups og annarra stjórnenda Þjóðkirkjunnar og segir ljóst að undir hennar stjórn hefur virðing almennings á kirkjunni farið þverrandi.
„Og enn þegja kirkjunnar menn.“
„Sá grunur vaknar ósjálfrátt hjá manni að ákvörðun um ofangreint hafi verið tekin af þjónkun við þá sem ekki játa kristna trú. Því verður vart neitað að undanfarin ár hefur virðing og traust almennings á þjóðkirkjunni farið þverrandi og kemur það gleggst fram í fjölda úrsagna. Kirkjan á sér því miður óvildarmenn, sem bæði ljóst og leynt hafa unnið gegn henni og dropinn holar steininn. En hinir geistlegu stjórnendur kirkjunnar eru ekki alveg saklausir. Mér finnst þeir hafa brugðist því hlutverki sínu að vernda stöðu hennar og virðingu í samfélaginu.“
Þetta ritar Werner Ívan í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Þar viðurkennir hann að kirkjusókn sín hefði sjálfsagt getað verið betri í gegnum árin. „Trúrækni fer ekki eftir fjölda kirkjuheimsókna eða tíðni bæna. Sum trúarbrögð skylda menn til þess að sækja tilskilinn fjölda bænastund dag hvern. Hvort trú einstaklings verður traustari eða betri við það veit ég ekki. Menn deila um boðskap trúarinnar, en siðfræðin, sem kristnin kennir okkur, er ómetanleg fyrir allan þann heim sem við teljum siðmenntaðan. Og enn þegja kirkjunnar menn. Þá virðist skorta vilja og áræði til þess að vernda helgidóma og hefðir þess samfélags sem þeim er ætlað að þjóna og stýra,“ segir Werner Ívan og bætir við:
„Fyrst kom „borgaraleg ferming“ – engar athugasemdir gerðar – og núna trompa ásatrúarmenn það með „heiðinni fermingu“! Hvað er eiginlega á seyði? Hefur athöfnin ferming ekki alltaf verið staðfesting kristinnar trúar á skírninni? Hvernig getur ferming verið borgaraleg eða heiðin athöfn? Er ekki kominn tími til að menn rísi upp og beri hönd fyrir höfuð þeirrar kirkju sem þeir eru vígðir til? Við, sóknarbörnin, bíðum þess að prestarnir okkar vinni að því að endurvekja virðingu og traust kirkjunnar.“