„Ég trúi því að okkur hafi tekist að gera þetta mjög skynsamlega hingað til og það höfum við gert með því að hlusta á okkar besta og færasta fólk í þessum efnum. Það hefur forveri minn í starfi gert mjög skynsamlega og náð samstöðu með ríkisstjórninni um þær tillögur sem sóttvarnarlæknir hefur lagt til. Ég hyggst hitta þau Þórólf, Ölmu og Víði, fólkið sem hefur ráðlagt okkur heilt skref fyrir skref, sem fyrst og taka stöðuna út frá því,“ segir Willum Þór Þórsson, sem tók við embætti heilbrigðisráðherra í dag, um Covid-heimsfaraldurinn og stöðuna hér á landi hvað hann varðar.
Ég hyggst hitta þau Þórólf, Ölmu og Víði, fólkið sem hefur ráðlagt okkur heilt skref fyrir skref, sem fyrst og taka stöðuna út frá því
Hvernig er tilfinningin að taka við stöðunni í miðjum heimsfaraldri? „Samstaðan hefur reynst okkur vel og höfum við sameinast um að vera skynsöm í sóttvörnum og farið að tilmælum en þannig verðum við að skrefa okkur í gegnum þennan faraldur, taka umræðuna og vera gagnrýnin en tapa ekki samstöðunni þegar á reynir. Það þýðir að sameinast um að láta þær ákvarðanir ganga upp sem teknar eru. Þær verða síðan ávallt bestar að undangenginni gagnrýnni, upplýstri umræðu. Það hlýtur alltaf að vera markmið að halda samfélaginu gagnandi eins og frekast er unnt, atvinnulífi, skólum, menningarlífi og íþrótta- og tómstundastarfi. Ég horfi síðan á heilbrigðismálin sem auðvitað afar mikilvægan málaflokk og ef við horfum á einstaklinginn sem slíkan þá er heilsan dýrmætasta eign hvers einstaklings sem við þurfum að vernda. Í þjóðhagslegu samhengi og í stjórnarsáttmálanum er styrkur hvers þjóðfélags ekki síst mældur í öflugu heilbrigðiskerfi. Þetta er mjög stór málaflokkur og það í eiginlega hvaða samhengi sem er.
Í þjóðhagslegu samhengi og í stjórnarsáttmálanum er styrkur hvers þjóðfélags ekki síst mældur í öflugu heilbrigðiskerfi
Ég vona að við náum sátt um sterkt og öflugt heilbrigðiskerfi. Það er kannski mín sýn akkúrat núna. Ég hef þá trú að við höfum mjög öflugt og hæft starfsfólk og öflugar stofnanir á þessu sviði og við þurfum að tryggja þeim bæði fjármögnun og aðbúnað. Það er búið að vera gífurlegt álag á starfsfólki og maður heyrir auðvitað að þetta tekur á. Það setur aukaálag á allt kerfið og við þurfum að hlusta og gera allt sem í okkar valdi stendur til að vera hér áfram með öflugt heilbrigðiskerfi.“
Lýðheilsumál ofarlega í huga
Willum Þór hefur sérstakan áhuga á lýðheilsumálum. „Mér finnst við einmitt í stjórnarsáttmálanum horfa á heilbrigðismálin í víðara samhengi heldur en oft áður; horft er á geðheilbrigðismálin, forvarnirnar sem og félagslega þáttinn og þann andlega samhliða þessum líkamlega og þá erum við kannski að horfa svolítið til framtíðar í samhengi við breytta aldurssamsetningu þjóðarinnar til að létta álagið af heilbrigðisþjónustunni til framtíðar litið. Þannig að ég leyfi mér alveg að tala um þjóðarátak í lýðheilsutengdum forvörnum alveg allan aldursskalann.“
Mér finnst við einmitt í stjórnarsáttmálanum horfa á heilbrigðismálin í víðara samhengi heldur en oft áður
Hvað með einkavæðingu? „Það er oft talað eins og við höfum lagt niður þetta blandaða kerfi sem við höfum búið við lengi og það er alls ekki raunin en við þurfum að nýta alla þekkingu sem er til staðar í kerfinu.“
Gagnrýnisraddir hafa verið uppi um nýjan stjórnarsáttmála; sagt að hann sé þunnur. Hvað segir heilbrigðisráðherra um það? „Ég hef ekki haft tíma til að lesa fjölmiðlana í dag þannig að ég hef ekki séð hvernig það er orðað. Mér finnst stjórnarsáttmálinn hins vegar vera vel orðaður og vel skrifaður og ég hef alveg skilning á því að það sé almennt orðalag í honum. Í honum er svo viðbót miðað við fyrri stjórnarsáttmála varðandi málaflokka tengda aðgerðaáætlunum sem mér finnst vera mjög gott þannig að ég get ekki tekið undir það að hann sé þunnur að þessu leyti.“
Hefur Willum dreymt lengi um að setjast í ráðherrastól?
„Nei. Ég fór inn á þennan vettvang með það að leiðarljósi að bæta samfélagið og láta gott af mér leiða. Svo hafa verkefnin elt mig. Ég hef verið heppinn og fengið að takast á við mörg og krefjandi verkefni og þau hafa haldið áfram að elta mig og nú er ég kominn í stól heilbrigðisráðherra og mig óraði ekki fyrir því. Þetta bar frekar brátt að. Þetta var ekki staðfest fyrr en á þingflokksfundi í gær.“
Ég fór inn á þennan vettvang með það að leiðarljósi að bæta samfélagið og láta gott af mér leiða.
Hvernig var tilfinningin?
„Ég skal viðurkenna að hún var næstum því yfirþyrmandi fyrst en svo meira blönduð af spenningi. Ég er með bakgrunn í íþróttum og þá leið mér eins og ég væri að fara í úrslitaleik og einhvern veginn allt undir. Þá fer hugurinn á flug um það hvernig maður fer að máta sig við kringumstæðurnar og það er spennandi og skapar fiðring í magann. Svo einhvern veginn fer maður af stað og þegar maður fer í svona leik þá fer maður um leið að undirbúa öll atriðin sem þarf að hafa á hreinu og svo þegar er flautað þá einhvern veginn skýrist allt og allt fellur í fókus. Það var svolítið líðanin þegar ég kom í ráðuneytið í morgun og hitti Svandísi og lyklaskiptin voru og svo þegar ég er búinn að hitta allt þetta frábæra starfsfólk í ráðuneytinu þá líður mér eins og það sé búið að flauta á.“
Ég er með bakgrunn í íþróttum og þá leið mér eins og ég væri að fara í úrslitaleik og einhvern veginn allt undir.
Hvernig nýtist starfsferillinn í knappsyrnu í ráðherrastólnum? „Hann hefur nýst mér mjög á þessum vettvangi stjórnmálanna en í gegnum íþrótta- og tómstundastarf lærir maður að takast á við tilfinningar. Maður lærir að maður þarf að leggja á sig vinnu til að uppskera eitthvað, maður lærir að taka tillit til annarra og maður lærir að vinna í hópi. Maður lærir aga, maður lærir bæði muninn á því hvernig sjálfsaginn og hópaginn hanga saman, hvað liðsheild er mikilvæg og hvernig á að byggja hana upp. Það er svo margt í þessu félagslega samhengi sem maður lærir.“
Willum Þór segir að stærsti sigur sinn í lífinu séu börnin sín. „Þó það sé ankannalegt að tala um sigur í því sambandi þá gefa þau mér svo mikið gildi; börnin og fjölskyldan.“
Hver er mesti ósigurinn? Mestu vonbrigðin? „Ég held að ég eigi eftir að upplifa einhver slík vonbrigði. Maður hefur orðið fyrir vonbrigðum með hitt og þetta en ekkert til að tiltaka sérstaklega.“
Maður lærir aga, maður lærir bæði muninn á því hvernig sjálfsaginn og hópaginn hanga saman, hvað liðsheild er mikilvæg og hvernig á að byggja hana upp.