Michele Roosevelt Edwards, eigandi nýja WOW air, greindi í síðustu viku frá því að flugfélagið muni taka til starfa innan skamms.
Óljóst er til hvaða áfangastaða nýja flugfélagið mun fljúga til en áður hefur komið fram að Edwards stefni á að fljúga til þeirra áfangastaða sem áður voru í leiðarkerfi WOW air.
Í nýrri færslu sem Edwards birtir á LinkedIn gefur hún vísbendingu um að WOW muni fljúga til Sikileyjar, stærstu eyju Ítalíu.
Í færslunni segir Edwards frá verslun sem WOW mun reka á Dulles-flugvelli í Washington. Samkvæmt færslu Edwards verður hægt að versla varning frá þeim áfangastöðum sem WOW mun fljúga til í umræddri verslun, þá tekur hún Ísland og Sikiley sem dæmi.