Bresk heilbrigðisyfirvöld hafa staðfest að tvö tilfelli Wuhan-kórónaveirunnar hafi greinst í Bretlandi. BBC greinir frá, og einstaklingarnir eru í sömu fjölskyldu, en ekki kemur fram hvernig tengslin eru.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin WHO lýsti í gær yfir neyðarástandi á heimsvísu vegna veirunnar, sem dreifir hratt úr sér og tala látinna hækkar stöðugt. Alls eru 213 látnir, flestir í Hubei-héraði í Kína. Gærdagurinn var sá mannskæðasti til þessa, tilkynnt var um 43 látna í gær. Yfir tíu þúsund eru smitaðir um allan heim, 9.692 staðfest smit eru í Kína og 129 staðfest smit í 23 öðrum löndum eða svæðum.
Samhæfingarmiðstöð almannavarna var virkjuð klukkan tíu í dag í varúðarskyni vegna Wuhan kórónaveirunnar. Deildarstjóri almannavarna leggur áherslu á að engar vísbendingar séu um að veiran sé komin til Íslands, og ítrekar að um varúðarráðstöfun sé að ræða í samtali við Vísi.