Karlmaður í annarlegu ástandi var handtekinn í miðbæ Reykjavíkur upp úr klukkan hálf fjögur í nótt. Var hann grunaður um brot á vopnalögum og hótanir og vistaður í fangageymslu lögreglu, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.
Þá var maður í annarlegu ástandi handtekinn í Kópavogi í gærdag klukkan 15.30, grunaður um líkamsárás og vörslu fíkniefna. Var hann vistaður í fangageymslu en ekki er vitað hversu alvarlega áverka sá hlaut sem fyrir varð fyrir barðinu á manninum.
Einnig er greint frá því í dagbók lögreglu að slys hafi orðið á Reykjanesbraut í Garðabæ, þegar bíl var ekið á umferðaskilti og svo á ljósastaur klukkan 21.14 með þeim afleiðingum að bíllinn fór nokkrar veltur og staurinn féll og lenti á öðrum bíl. Ökumaður bílsins sem valt var fluttur á slysadeild, grunaður um nytjastuld og að aka undir áhrifum fíkniefna. Ekki kemur fram hversu alvarlega meiðsli hans voru.