„Við teljum ekki ástæðu til að óska eftir að sinna þessari rannsóknarstarfsemi,“ skrifaði Jón Gunnlaugur Jónasson, yfirlæknir meinafræðideildar Landspítala, um miðbik ágúst 2020 í svari til svæðisstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og sagði Landspítala aldrei hafa haft til rannsóknar né greininga frumusýni úr leghálsi í tengslum við skimun á leghálskrabbameini.
Í nýútkominni skýrslu segir orðrétt:
Yfirlæknir meinafræðideildar LSH svaraði þann 12. ágúst 2020 bréfinu sem til hans var beint[1]. Þar kom m.a. eftirfarandi fram: „Meinafræðideild LSH hefur aldrei haft til rannsóknar/greininga frumusýni úr leghálsi í tengslum við skimun fyrir leghálskrabbameini. Því er ekki til staðar raunhæf gjaldskrá fyrir slík sýni á deildinni. Slík starfsemi er allnokkuð frábrugðin starfi á meinafræðideild LSH, þarfnast sérhæfðs starfsfólks (sérmenntaðra lífeindafræðinga (screenera) og frumumeinafræðinga og mjög sérhæfðs tækjabúnaðar auk viðeigandi húsnæðis. Mjög lítið af þessu er til staðar á meinafræðideildinni og verður að segjast að við teljum ekki ástæðu til að óska eftir að sinna þessari rannsóknarstarfsemi. Því munum við ekki fara út í kostnaðargreiningu slíkra sýna til að svara flókinni fyrirspurn þinni varðandi slíka rannsóknir.“
[1] Bréf yfirlæknis meinafræðideilda Landspítalans, dags. 12.8.2020
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra greindi frá því á Alþingi þann 3. mars sl. að Landspítalinn hefði vísað verkefni frá þegar ráðuneyti og Heilsugæsla óskuðu kostnaðargreiningar af hálfu yfirmanna meinafræðideildar og sýkla- og veirufræðideild síðasta sumar. Yfirlæknir meinafræðideildar, þvertók hins vegar fyrir að sú væri raunin og sagði að um misskilning væri að ræða í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni þann 4. mars. Þá sagði Jón Gunnlaugur að bréfið hefði hann túlkað sem ósk ráðuneytis, en ekki tilskipun, um að meinafræðideildin tæki verkefnið að sér.
Það var svæðisstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem innti yfirmenn meinafræðideildar og sýkla- og veirufræðideildar Landspítala formlegra svara um kostnað og getu þeirra til að rannsaka sýni vegna skimunar fyrir leghálskrabbameini í júlí 2020. Þetta er meðal efnis sem fram kemur í skýrslu Haraldar en Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hafði þá átt í viðræðum við Heilbrigðisráðuneyti um tíma vegna þeirrar ákvörðunar ráðherra að breyta skipulagi, staðsetningu og framkvæmd skimunar fyrir krabbameinum.
Yfirlæknir meinafræðideildar svaraði fyrirspurn svæðisstjóra Heilsugæslu um miðbik ágúst 2020 og hafnaði boði á fyrrgreindum forsendum. „Því munum við ekki fara út í kostnaðargreiningu slíkra sýna til að svara flókinni fyrirspurn þinni varðandi slíkar rannsóknir.“ Yfirlæknir sýkla- og veirufræðideildar, sem einnig fékk erindið, svaraði hins vegar ekki skriflegri fyrirspurn svæðisstjóra Heilsugæslu.
Í minnispunktum forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarinnar frá 2. september 2020 kemur þó fram að yfirlæknar meinafræðideildar og sýkla- og veirufræðideild hafi rætt þann möguleika við stjórnendur Heilsugæslu á lokuðum fundi að greining HPV yrði á vegum Landspítala en frumusýni yrðu send erlendis til nákvæmrar greiningar. Þá hafi Landspítali staðfest að HPV sé rannsakanlegt hér á landi en að spítalinn óskaði ekki eftir því að framkvæma frumurannsóknir en að spítalinn myndi gera svo ef til hans yrði leitað.
Þessar upplýsingar voru meðal gagna sem ráðuneyti lagði fram og koma fram í nú opinberri skýrslu Haraldar Briem, fyrrum sóttvarnarlæknis en skýrslan var rituð að beiðni Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur og fleiri alþingmanna sem kröfðu heilbrigðisráðherra svara af forsendum og áhrifum breytinga á skipulagi og framkvæmd skimunar fyrir krabbameini í leghálsi. Tveir mánuðir liðu þar til Haraldur féllst á verkið og nú, fjórum vikum síðar, hefur skýrslan verið gerð opinber.