Miðvikudagur 15. janúar, 2025
7.8 C
Reykjavik

Yfirlæknir vildi skylda GBS-skimun: „Ég skil ekki hvers vegna ekki er skimað“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hartnær tveir áratugir eru síðan barn lést síðast hér á landi vegna sambærilegrar sýkingar og raunin varð í tilfelli Friðriks Ragnars Hansen, sem veiktist lífshættulega af völdum heilahimnubólgu í kjölfar GBS sýkingar í apríl á þessu ári.

Friðrik Ragnar sem kom í heiminn eftir 33 vikna meðgöngu þann 3. apríl síðastliðinn er nú orðinn ríflega tveggja mánaða gamall og er undir stöðugu eftirliti taugalæknis. Karen Ingólfsdóttir sem er móðir drengsins sagði í viðtali við Mannlíf nú í gær að taka þurfi blóðprufur af barninu í hverri viku til að mæla natríumbirgðir líkamans. Þetta er gert þar sem litli drengurinn veiktist það alvarlega af heilahimnubólgu einungis fjórum dögum eftir fæðingu að heiladingull hans varð fyrir skaða á sjón- og hreyfisviði líkamans sem svo hafði alvarleg áhrif á getu líkamans til að vinna úr natríum.

Upplýsingar færðar í sjúkraskrá án vitundar

Karen telur að skylda ætti skimun barnshafandi kvenna á Íslandi en slíkt tíðkast víða meðal nágrannaþjóða okkar. GBS skimun á meðgöngu er valkvæður möguleiki á Íslandi í dag en fjölmargar konur eru svonefndir GBS-berar án þess að hafa nokkru sinni fundið einkenni eða til nokkurra óþæginda. Sú reyndist raunin í tilfelli Karenar en að sögn hinnar nýbökuðu móður voru upplýsingarnar færðar í meðgönguskrá hennar án frekari málalenginga og fengu foreldrar barnsins ekki að vita af skráningu fyrr en nýfæddur drengurinn var orðinn lífshættulega veikur.

Einkennalausir GBS berar

Fleiri eru á sama máli og Karen, en ekki þarf að líta lengra aftur í tímann en aftur til ársins 2013, en þá veiktist 9 daga gömul stúlka lífshættulega vegna streptókokkasýkingar frá fæðingarvegi móður. Í viðtali við Vísi árið 2013, sagði Þórður Þorkelsson, þáverandi yfirlæknir vökudeildar að skima ætti allar barnshafandi konur til að útiloka að þær bæru streptókokka af þessari gerð. Slík skimun væri einföld í framkvæmd og gæti dregið stórlega úr hættu á að nýburar veiktust svo alvarlega. Liðin eru ein átta ár frá orðum þáverandi yfirlæknis vökudeildar og stendur reglugerðin enn óbreytt í heilbrigðiskerfinu. Talið er að fjórðungur mæðra sem fæða börn hvert ár séu svokallaðir GBS berar en að helmingur þeirra barna smitist og þar af væru fáein börn úr þeim hópi, eða um 1 – 2 prósent sem veiktust alvarlega.

- Auglýsing -

Orð yfirlæknis vökudeildar fengu sterkan hljómgrunn árið 2013 og tók Birna Harðardóttir, móðir Matthildu litlu sem aðeins 9 daga gömul var lögð inn á spítala í hasti með sýkingu í blóði og þvagi, heilshugar undir orð Þórðar Þorkelssonar sem þá sagði í viðtölum við fjölmiðla að börn væru í bráðri lífshættu ef bakterían kæmist í blóðið. „Erlendar rannsóknir hafa sýnt tiltölulega háa dánartíðni, 30-40 prósent en sem betur fer er dánartíðnin ekki nærri eins há hér á landi“.

Vonar að frásögn hennar muni hrinda af stað skylduskimun á meðgöngu

Átta ár eru nú liðin frá síðasta þekkta tilfelli hér á landi og orðum yfirlæknis, sem staðfesti að sýking hjá nýfæddum börnum völdum streptókokka í fæðingarvegi móður gæti orðið svo alvarleg að gæti valdið heilahimnubólgu. Slíkt varð raunin í tilfelli Friðrik litla. „Hugsun okkar foreldranna í dag er sú að það hefði verið hægt að koma í veg fyrir að hann veiktist svona alvarlega. Ég skil ekki hvers vegna ekki er skimað fyrir GBS hjá óléttum konum eins og gert er annars staðar í heiminum. Ég óska engum að lenda í þessu og vona ég innilega að frásögn mín verði til þess að skylduskimað verði fyrir GBS á meðgöngu kvenna héðan í frá,“ sagði Karen í viðtali við Mannlíf.

- Auglýsing -

Upplýsingar um GBS má finna á fræðsluvef ljósmæðra en þar kemur fram að ekki hafi verið mælt með skimun allra barnshafandi kvenna fyrir GBS hér á landi. Konur sem hafi áður fætt barn sem sýktist af GBS eða hafa greinst með GBS í þvagi eða leggöngum/endaþarmi á meðgöngu eigi allra helst að fá sýklalyfjagjöf í æð meðan á fæðingu stendur.

Fræðsluefni um GBS:

DOKTORStreptókokkar í leggöngum

LJÓSMÓÐIRGBS berar

ÖSKUBUSKAErt þú GBS beri? 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -