Mánudagur 6. janúar, 2025
-3.2 C
Reykjavik

Yfirmenn Reykjalunds um Covid: Tíu prósent fá langvinn veikindi – Ungt og frískt fólk sleppur ekki

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tíu prósent Covid-19 sjúklinga glíma við langvarandi afleiðingar veikindanna. Ungt og frískt fólk er þar engin undantekning og getur vel lent í þeim hópi sjúklinga. Það getur miðaldra fólk einnig sem leiðir jafnvel til skerðingar á starfsorku og lífsgæðum.

Þetta kemur fram hjá stjórnendum Reykjalunds, þeim Pétri Magnússyni forstjóra og Stefáni Yngvasyni, framkvæmdastjóra lækninga, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. „Veiran fer ekki í manngreinarálit og getur komið upp hvar sem er. Veiran veldur ekki bara ótímabærum andlátum og erfiðum veikindum hjá áhættuhópum. Það er því ekki í boði að leyfa veirunni að leika lausum hala. Sumir þeirra sem sýkjast og fá jafnvel ekki mikil einkenni geta samt verið að glíma við eftirstöðvarnar í langan tíma eftir sýkingu. Enginn veit með vissu hvað sá hópur er stór sem fær langvarandi einkenni eftir covid-smit. Þótt nákvæmar rannsóknir skorti hafa sérfræðingar erlendis leitt að því líkum að það séu að minnsta kosti 10 prósent. Þessi hópur er að glíma við eftirstöðvar mörgum vikum eða mánuðum eftir sýkingu,“ segja þeir Pétur og Stefán og ítreka að ungt fólk og miðaldra geti vel lent í þessum hópi langvarandi sjúklinga:

„Þetta lýsir sér í fjölbreytilegum einkennum svo sem síþreytu, þrekleysi, verkjum og öndunarfæraeinkennum svo dæmi séu nefnd. Merkja má viðhorfsbreytingu hjá almenningi gagnvart smiti síðan í vor. Hjá yngra og miðaldra fólki var hugsunin oft sú að viðkomandi vildi ekki smitast til að verða ekki valdur að því að smita aðra, til dæmis nána ættingja eða vini sem væru í áhættuhópum og gætu orðið alvarlega veikir eða jafnvel dáið. Í dag er vitað að hluti þeirra sem sýkjast getur þurft að glíma við langvarandi einkenni sem leiða til skerðingar á starfsorku og lífsgæðum, jafnvel í mjög langan tíma. Þar sjáum við að frískt fólk, til dæmis í yngri kantinum og miðaldra, getur vel lent í þessum hópi.“

„Hjá yngra og miðaldra fólki var hugsunin oft sú að viðkomandi vildi ekki smitast til að verða ekki valdur að því að smita aðra.“

Hátt í 50 einstaklingar hafa leitað til Reykjarlunds eftir endurhæfingu vegna einkenna sem þeir glíma við löngu eftir smit. Beiðnunum fjölgar í viku hverri. Stjórnendurnir segja Íslendinga getað hrósað happi yfir að hafa haft þríeykið fræga við stjórnvölinn í kórónuveirufaraldrinum. Þeir vara við sundrungu þjóðarinnar þar sem sérhagsmunir ráði för. „Á tímum sem þessum er mikilvægt að við stöndum saman. Sundrung og sérhagsmunir eru besti vinur veirunnar. Nú ríður á að við Íslendingar vinnum saman, fylgjum leiðbeiningum og sigrum þessa veiru. Mikilvægt er að allir aðilar í þjóðfélaginu standi saman í baráttunni gegn þessum vágesti þó ástandið sé sannarlega farið að reyna vel á þolinmæði okkar allra. Hér á landi þarf öfluga leiðtoga með bein í nefinu til að stýra málum, lesa í aðstæður á hverjum tíma og hafa dug til að láta ekki undan alls kyns þrýstingi og sérhagsmunum. Við Íslendingar getum hrósað happi að hafa „þríeykið“ okkar við stjórnvölinn,“ segja Pétur og Stefán.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -