Föstudagur 10. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

„Yngjandi og mannbætandi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Feður yfir fimmtugu.

Jakob Frímann með dætrum sínum Katrínu Borg, 5 ára, og Jarúnu Júlíu, 10 ára.

Jakob Frímann Magnússon, tónlistarmaður og framkvæmdastjóri Miðborgarinnar okkar, var 59 ára gamall þegar hann eignaðist yngsta barnið sitt en þá voru liðin 35 ár síðan elsta dóttir hans fæddist. Jakob er einn af fjórum úr Félagi eldri feðra sem eru í viðtali í nýjasta tölublaði Mannlífs.

„Ég var 34 ára þegar Bryndís mín kom í heiminn og tilfinningin var stórkostleg. Mér fannst ég upplifa kraftaverk og upplifunin var miklu stærri og magnaðri en ég bjóst við,“ segir Jakob sem á fjórar dætur; Katrínu Borg, 5 ára; Jarúnu Júlíu, 10 ára; Bryndísi, 30 ára og Ernu Guðrúnu sem hann ættleiddi og er nú 40 ára. Eiginkona Jakobs og móðir yngstu dætrana er Birna Rún Gísladóttir viðskiptafræðingur sem starfar hjá Arion banka.

„Þegar Katrín Borg fæddist var ég 59 ára og upplifunin var afar sterk sem fyrr. Eins og mér fannst ég njóta þess í botn þegar frumburðurinn kom í heiminn þá virðist mér ég nú hafa meiri þroska og burði til þess að njóta þess til hlítar frá degi til dags að eiga ung börn. Það hefur satt að segja veitt mér alveg ólýsanlega gleði og viðvarandi hamingju sem ég þakka af auðmýkt á degi hverjum. Ég er á þeim stað í lífinu núna, að ég nýt upplifunarinnar svo sterklega að mig hefði í raun aldrei órað fyrir því. Við erum alveg einstaklega heppin með börnin okkar og leggjum okkur fram um að rækta þau sem best við getum, fyrst og fremst með því að umvefja þau ómældum kærleika. Það er ekki til neitt dásamlegra í lífinu en að halda á barninu sínu og umvefja það umhyggju og ást í sinni tærustu mynd.

Vinir og ættingjar hafa samglaðst okkur frá fyrsta degi og ég hef aldrei fundið fyrir efasemdum eða fordómum neins konar, þvert á móti. Ég á frábæra konu með stóra og skemmtilega fjölskyldu. Þaðan er nú stoðkerfi fjölskyldunar fyrst og fremst sprottið; ótal svilkonur, frænkur og vinkonur reiðubúnar að passa dömurnar okkar þegar svo ber undir, að ekki sé minnst á mína frábæru tengdamóður Sigurlaugu Þórðardóttur, hana ömmu Systu, sem ávallt er boðin og búin þegar mikið liggur við.“

Mælir með þessu
Jakob segist ekki finna fyrir þreytu, heldur þvert á móti. „Ég bý sem betur fer yfir mikilli orku og hef alltaf gert. Það hefur tvímælalaust gefið mér aukna orku að eignast þessar ljósverur mínar og gleðigjafa. Börnin héldu í raun ekki vöku fyrir okkur nema rétt eftir fæðingu, vorið 2007 og haustið 2012. Ég mæli eindregið með því við þá sem eiga ungar heilbrigðar konur og hafa til þess aðstæður, að eignast börn fram eftir aldri. Það er að mínu mati bæði yngjandi, mannbætandi og einstaklega gefandi. Föðurhlutverkið er nú einu sinni hið mikilvægasta í mínu lífi og ég elska börnin mín alveg óendanlega. Að svæfa þau yngstu með frumsömdum ævintýrum og vakna með þeim á morgnana og aka í skólann, það eru bestu stundir dagsins. Þetta eru svo ómetanleg lífsgæði að mig hefði aldrei órað fyrir því hve mikillar gæfu ég yrði aðnjótandi. Ég hlakka til hvers nýs dags með þessum elskum öllum. Við erum afar samrýmd fjölskylda og njótum hins einfalda í lífinu saman, ekki síður en að ferðast og skemmta okkur við söng og leik. Lífið er sannarlega ljúft þeim föður sem hér er annars vegar.“

Viðtölin við Hallgrím Helgason og Björn Karlsson.

- Auglýsing -

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -