Fimmtudagur 9. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

Yngsta dóttirin fór úr olnbogalið á brúðkaupsdaginn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Vala Dögg Petrudóttir gekk að eiga Trausta Má þann 13. ágúst árið 2016 á Ísafirði, en umgjörð brúðkaupsins var afskaplega rómantísk.

„Okkur langaði í síðsumarbrúðkaup þegar aðeins væri farið að dimma og extra kósí. Brúðkaupið var haldið úti undir berum himni í miðbæ Ísafjarðar, á stað sem kallast Blómagarðurinn, afskaplega fallegum og gróðursælum stað. Ég var auðvitað búin að panta rjómablíðu, eða að minnsta kosti logn. Óskin um lognið rættist en ég fékk á móti rigningarúða. En þar sem þetta var ísfirska lognið eins og það kallast þá kom það ekki að sök, afskaplega ljúft veður,“ segir Vala.

Hún Agnes sem fór úr lið.

Þau Trausti eiga þrjú börn saman en á sjálfan brúðkaupsdaginn þurfti að bruna með það yngsta, tveggja ára stúlku, á bráðamóttökuna. „Þeirri yngstu fannst mikið sport að hitta stóru frænkur sínar, önnur var komin með bílpróf og fékk hún því að fara með þeim aðeins í bæinn að kíkja í búðir. Þær voru báðar að leiða hana þegar hún ákvað að róla sér á milli þeirra, hangandi á handleggjunum þegar eitthvað gerðist og greyið fór að hágráta. Þær komu strax með hana heim og hafði hún sofnað á leiðinni hálfgrátandi. Þegar hún kom heim og vaknaði var hún enn alveg ómöguleg og vildi alls ekki rétta úr vinstri handleggnum. Hún hágrét ef eitthvað var reynt að rétta úr eða bara snerta handlegginn. Þarna var mér alls ekki farið að lítast á blikuna. Maðurinn minn var farinn til foreldra sinna með son okkar og hárgreiðslukonan mín var að detta í hús,“ segir Vala, sem fékk góðan og þarfan stuðning frá systur sinni.

„Systir mín sem er hjúkrunarfræðingur ákvað að taka málin í sínar hendur og fór ásamt hinni systur minni upp á bráðamóttöku til að láta kíkja á elsku barnið,“ segir hún, sem sjálf hafði engan tíma til að fara með.

Íhugaði að fresta brúðkaupinu

Skemmtileg brúðkaupsmynd.

„Ég var bara heima í hárgreiðslu því við máttum engan tíma missa. Klukkan var þarna um það bil þrjú og brúðkaupið átti að byrja klukkan fimm. Ég var vægast sagt orðin stressuð því þetta hafði aldrei gerst áður og ég vissi ekki hvað var að, hvort hún var brotin eða eitthvað annað. Sem betur fer var þetta „bara“ það að hún fór úr olnbogalið og eftir þetta atvik þá hefur það gerst tvisvar sinnum svo við erum heldur betur reynslunni ríkari. En ég íhugaði í alvöru í smástund hvort við þyrftum að fresta brúðkaupinu. Mamma bauð sig strax fram til að vera heima með stelpuna ef það þyrfti en sem betur fer fór það ekki svo.“

Litla stúlkan jafnaði sig fljótt og gat sem betur fer tekið virkan þátt í athöfninni og veislunni. „Um leið og læknirinn náði að smella henni í liðinn var hún eins og ný og fann ekkert til lengur. Þannig að þegar hún kom heim frá bráðamóttökunni var hún svo glöð því læknirinn var búinn að „laga höndina“ eins og hún sagði sjálf. Hún fór því beint í hárgreiðslu afskaplega spennt og glöð,“ segir Vala og bætir við að fjölskyldan geti hlegið dátt að þessu atviki núna.

„Já heldur betur. Þetta er bara ansi stór minning í minningabankann,“ segir hún og hlær.

- Auglýsing -

Þetta viðtal er hluti af stærra efni í nýjasta tölublaði Mannlífs um óvæntar uppákomur á brúðkaupsdaginn. Smelltu hér til að lesa Mannlíf á netinu.

Myndir / Ágúst Atlason (gusti.is)

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -