Fimmtudagur 26. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Zainab og fjölskyldu vísað úr landi í næstu viku

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Shahnaz Safari og börn hennar tvö, Zainab og Amir, verður vísað úr landi í næstu viku standi ákvörðun íslenskra stjórnvalda. Ómar Örn Magnússon, kennari við Hagaskóla þar sem Zainab stundað nám, segir frá því í Facebook-fræslu að fjölskyldunni hafi fyrir um tveimur vikum verið kunngjört að þeim yrði fylgt úr landi í næstu viku.

Zainab er afgönsk að uppruna en hefur þó aldrei búið í sínu stríðshrjáða heimalandi, heldur er hún fædd á flótta í Íran árið 2004 eins og hún sagði sjálf í viðtali í Mannlífi fyrr á árinu. „Þegar ég fæddist í Íran voru foreldrar mínir á flótta undan stríðinu í Afganistan og þar er enn stríð. Þannig að það er fátt sem bendir til þess að það komi til með að breytast. Við vorum í tólf ár í Íran og Amir bróðir minn er líka fæddur þar en hann er tveimur árum yngri en ég. Lífið í Íran var skelfilegt og þess vegna ákváðu foreldrar mínir að leggja á flótta til Evrópu í von um betra líf og einhverja framtíð, sérstaklega fyrir mig og bróður minn.“

Ferðin frá Íran til Evrópu var gríðarlega erfið enda fóru þau fyrst fótgangandi frá Norður-Íran eftir erfiðum vegum og fjallendi til Tyrklands en þaðan tókst þeim svo að komast með báti til Grikklands. Þegar þangað var loksins komið tók þó ekkert annað við en vonbrigði og skelfilegar aðstæður. Zainab segir að fyrst eftir að þau komu til Grikklands hafi þau verið sett á hótelherbergi en það hafi aðeins varað í nokkra mánuði á meðan verið var að setja upp flóttamannabúðir þangað sem þau voru svo flutt í framhaldinu. En lífið í flóttamannabúðunum reyndist vera í alla staði skelfilegt. „Þetta var ekki gott líf. Það var mikið um drykkju í flóttamannabúðunum og var stöðugt verið að slást og berjast um alla hluti. Það var ömurlegt.“

„Ef við verðum send aftur til Grikklands eigum við okkur ekkert líf.“

Zainab, móðir hennar og bróðir komu til Íslands síðastliðið haust en faðir hennar er týndur á götum Grikklands eftir að hafa glímt við alvarlegt þunglyndi um skeið en í raun er ekkert vitað um afdrif hans. Þrátt fyrir að samkvæmt lögum beri ríkjum að sinna þeim flóttamönnum sem hafa fengið alþjóðlega vernd til jafns við eigin þegna er það þó alls ekki raunin í Grikklandi. Herfilegt efnahagsástand í landinu á síðustu árum á sinn þátt í því og við slíkar aðstæður blossa oft upp kynþáttafordómar, skipulögð glæpastarfsemi með fíkniefnasölu og vændi á götum borganna og þannig mætti áfram telja.
Staðreyndin er að þetta eru að öllum líkindum þær götur og þær aðstæður sem bíða Zainab og fjölskyldu hennar verði þau send aftur til Grikklands.

Í viðtalinu við Mannlíf sagði Zainab að hér hafi henni strax liðið vel. „Hér er friður. Friður eins og ég hef aldrei upplifað áður. Mér finnst líka vera fallegt hérna og að fólkið sé hamingjusamt vegna þess að það brosir og er vinalegt.“

Zainab sagði ennfremur að stuðningur skólasystkina hennar, sem hrintu af stað undirskriftasöfnun svo að fjölskyldunni yrði ekki vísað úr landi, hafi glatt hana mikið. „Þetta gerir mig hamingjusama. Það er gott að finna stuðning og að allt þetta fólk reynir að hjálpa til. Núna vona ég bara að ég og mamma og bróðir minn fáum að vera hérna áfram og eignast framtíð. Það er draumurinn.“

Þá sagði hún að óneitanlega væri hún hrædd við það sem gerist næst. „Ef við verðum send aftur til Grikklands eigum við okkur ekkert líf. Þar eigum við enga framtíð. Það er eflaust fínt að koma til Grikklands sem ferðamaður og skoða landið, eiga peninga og vera að ferðast, en það er ekki það sem bíður okkar. Það Grikkland sem bíður okkar er allt annað og þar er ekki gott að búa.“

- Auglýsing -

Mynd: Zainab ásamt skólafélögum í Hagaskóla. Ljósmyndari Aldís Pálsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -