Laugardagur 28. desember, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Zohara Kristín greindist með Covid fjórum dögum fyrir settan tíma: „Mikið sjokk að greinast“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þetta var mikið sjokk. Ég var búin að undirbúa mig undir ýmislegt sem gæti farið úrskeiðis í fæðingunni en ég var ekki búin að búa mig undir að fá Covid og geta endað í fæðingu án þess að fá að hafa fylgdarmann með mér,“ segir Zohara Kristín Guðleifardóttir sem eignaðist sína aðra dóttur á gamlársdag en hún hafði greinst með Covid fjórum dögum áður ásamt eldri dóttur sinni.

„Við vorum búin að passa okkur mjög vel; við tókum til dæmis stelpuna okkar snemma í jólafrí af leikskólanum um miðjan desember svo að það væri minni hætta á að hún myndi smitast. Við tókum líka heimapróf daglega í kringum jólin og fjölskyldur okkar gerðu það líka svo við gætum hitt þau án þess að vera stressuð um að smitast.“

Zohara Kristín eignaðist eldri dóttur sína á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja en það var meðal annars vegna heimsfaraldursins sem hún kynnti sér og kaus heimafæðingu þegar hún var langt gengin með yngra barn sitt. Þá segir hún að ein vinkona sín hafi nýlega fætt heima og hafi mælt með heimafæðingu.

Ég var hins vegar ekki búin að undirbúa mig undir að fá Covid og geta þannig séð endað ein í fæðingu þannig að það var mikið sjokk að greinast.

„Ég varð heilluð af heimafæðingum þegar ég sá hvað allt gekk vel undir lok meðgöngunnar og þegar við töluðum við ljósmæðurnar hjá Lífið – heimafæðingum þá heyrðum við að það væri í rauninni lítill munur á að eiga heima eða á HSS þar sem þar eru engin inngrip í fæðingum.

Barnið var búið að skorða sig og okkur var sagt að miðað við hvernig fyrri fæðingin gekk þá væru mjög litlar líkur á inngripum í þessari fæðingu. Mér hafði ekki einu sinni dottið heimafæðing í hug áður en ég átti eldri dóttur okkar. Ég var mjög afslöppuð varðandi allt en ég var líka búin að undirbúa mig andlega til dæmis undir það ef eitthvað kæmi upp á og ég myndi enda í bráðakeisara eða álíka og passaði mig alveg að hvorki plana neitt né ákveða hvernig fæðingin myndi verða fyrir fram enda margt sem getur komið upp á sem maður sjálfur hefur ekki stjórn á.

Ég var hins vegar ekki búin að undirbúa mig undir að fá Covid og geta þannig séð endað ein í fæðingu þannig að það var mikið sjokk að greinast.“

- Auglýsing -

Zohara Kristín greindist með Covid 10 dögum fyrir settan dag en á þeim tíma þurfti fólk einmitt að vera í einangrun í 10 daga eftir að það greindist. Hún var slöpp fyrstu þrjá dagana og var með hita og fann fyrir andþyngslum en vaknaði svo nánast einkennalaus fjórða daginn. Maðurinn hennar fór reglulega í Covid-próf en var neikvæður framan af.

Zohara Kristín fór svo að fá hríðir þennan dag – fjórum dögum eftir að hún greindist.

- Auglýsing -

„Ég hefði ekki treyst mér í heimafæðingu dagana á undan út af því að ég var þá með svo mikil andþyngsli. Ég hefði þurft að fara á Landspítalann og eiga þar án þess að hafa með mér fylgdaraðila þar sem ég var smituð en ég var í góðu sambandi við ljósmæðurnar hjá Lífinu – heimafæðingum og talaði við þær og þá kom í ljós að ljósmóðir á þeirra vegum var einnig með Covid og hún fékk leyfi til að vera viðstödd fæðinguna heima.

Það gerði mig rólegri.

Önnur ljósmóðir kom svo í öllum gallanum þegar ég var komin í virka fæðingu; hún var ekki smituð og var meira til hliðar og var tilbúin ef eitthvað kæmi upp á en þær eru venjulega tvær þegar barn er að koma í heiminn. Þetta var einhvern veginn óraunverulegt.“

Þess má geta að mágkona Zohöru Kristínar hafði greinst með Covid daginn eftir að hún greindist og var hún á heimilinu þessa daga svo hún þyrfti ekki að vera ein í einangrun og til að setja ekki alla á heimili sínu í lengri sóttkví.

Ljósmæðurnar voru búnar að koma með fæðingarlaug áður en Zohara Kristín greindist með Covid og á gamlársdag var hún blásin upp og fyllt í stofunni á heimilinu.

Mér fannst ég vera mjög örugg innan um ljósmæðurnar og á mínu eigin heimili með mínu fólki.

„Þetta var mjög skrýtið; ég var mjög róleg eftir að ég byrjaði með hríðir og var meðal annars bara að setja barnaföt í þvottavél þar sem ekkert var tilbúið.

Ég var mjög róleg yfir þessu öllu.

Mér fannst ég vera mjög örugg innan um ljósmæðurnar og á mínu eigin heimili með mínu fólki. Það var dásamlegt að vita til þess að eldri dóttir okkar væri með okkur í þessu,“ segir Zohara Kristín en fjögurra ára dóttir hennar vissi að von væri á litlu systkini og að mömmu sinni ætti eftir að kenna til en að það væri samt ekkert hættulegt.

„Við vorum búin að undirbúa hana vel og hún fékk alveg sjálf að taka þá ákvörðun hvort hún vildi vera með í þessu öllu og var hún mjög spennt fyrir því.”

Hún vildi fara ofan í laugina með mömmu sinni og litla systkini sínu þegar hún sá að það var komið í heiminn.

„Það var eiginlega magnað; hún vildi halda á systkini sínu strax og ég held að þetta hafi verið góð upplifun fyrir hana. Við vissum ekki kynið fyrir fram svo að hún fékk það hlutverk að segja okkur hvert kynið væri þegar hún kom ofan í laugina. Hún hélt að hún væri að eignast lítinn bróður og var smá svekkt að þetta væri stelpa en varð fljótt mjög ánægð að eiga systur og er í dag mjög stolt stóra systir.“

Zohara Kristín Guðleifardóttir

Zohara Kristín segir að hún hafi jafnað sig fljótt eftir fæðinguna og verið farin að leika sér við eldri dóttur sína tveimur tímum síðar.

Hún er spurð hvort hætta hafi verið á að nýfætt barnið, lítil stúlka, hafi smitast af Covid.

„Ég lét sem betur fer bólusetja mig á meðgöngunni og ég vil ekki hugsa um það hvernig þetta hefði getað farið ef ég hefði ekki gert það. Mér skilst að hún hafi fengið mótefni af bóluefninu; hún fór ekki í neitt próf. Ég veit í rauninni ekki þannig séð hvort hún hafi fengið veiruna eða ekki. Hún hefur allavega ekkert orðið veik.

Ég hafði verið í eftirliti hjá Covid-göngudeildinni vegna þesss að ég var ólett og þau höfðu samband við mig daginn eftir að hún fæddist en þá voru þau mjög hissa á að barnið væri komið í heiminn. Ég var í hálfgerðu móki og man eiginlega ekkert eftir símtalinu en það var talað um að ég ætti að vera dugleg að hafa hana á brjósti vegna Covid hjá mér.“

Ég mæli auðvitað eindregið með því að óléttar konur láti bólusetja sig.

Zohara Kristín segir að það sé magnað hvernig allt fór svo sem að mágkona hennar hafi verið á heimilinu og getað séð um eldri dótturina á meðan maðurinn hennar gat einbeitt sér að henni og að hún hafi getað fætt heima þar sem ein ljósmóðirin hafi líka verið með Covid.

„Þetta var eiginlega bara fullkomið allt saman svona eftir á að hyggja; bæði aðdragandinn og fæðingin sjálf. Það er eins og þetta hafi allt átt að gerast. Við mæðgur með Covid, ljósmóðirin með Covid og mágkona mín hjá okkur með Covid.

Ég er eiginlega viss um bólusetningin hafi hjálpað helling og komið í veg fyrir alvarlegri veikindi hjá mér og ég held ég hafi aldrei verið eins þakklát fyrir að vera bólusett. Ég er einnig mjög þakklát báðum ljósmæðrunum og líka að önnur ljósmóðurin sem var ekki smituð hafi komið og verið í öllum gallanum til að vera viðstödd ef eitthvað skyldi koma upp á; hún var að setja sig í áhættu þannig séð með því að mæta. Ég er líka þakklát að mágkona mín hafi verið hjá okkur á meðan hún var í einangrun. Þetta var allt magnað ef út í það er farið.

Ég mæli auðvitað eindregið með því að óléttar konur láti bólusetja sig. Ég mæli líka með því að verðandi foreldrar kynni sér heimafæðingu og hvort þetta sé eitthvað fyrir þau ef það er ekkert því til fyrirstöðu  að eiga heima.“

Maður Zohöru Kristínar hafði frá því að hún og eldri dóttir þeirra greinst með Covid haldið sig í hæfilegri fjarlægð og notað einn annað tvegga baðherbergja á heimilinu. Það var erfiðara að halda sig í fjarlægð á meðan á fæðingunni stóð og greindist hann með Covid daginn sem mæðgurnar útskrifuðust úr einangruninni.

„Hann varð ekkert svo mikið slappur sem betur fer.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -