Ljúffeng og falleg sítrónumarenskaka | Mannlíf

Ljúffeng og falleg sítrónumarenskaka

Gestgjafinn

21 febrúar 2019

Hér kemur uppskrift að dásamlegri sítrónumarensköku. Til að marensinn verði loftmikill og flottur er gott að gera hann þegar búið er að gera eggjarauðubotnana.

Kakan
10 sneiðar

140 g smjör, mjúkt
160 g sykur
5 eggjarauður
200 g hveiti, best að nota Pilsbury
1 tsk. lyftiduft
½ tsk. sítrónubörkur
¾ dl matreiðslurjómi eða mjólk
1 tsk. vanilludropar

Hitið ofninn í 180°C. Hrærið saman smjör og sykur þar til það er ljóst og loftkennt. Bætið eggjarauðum í og hrærið mjög vel saman. Blandið hveiti og lyftidufti saman í skál.

Hellið helming af rjómablandi og helming af hveiti út í og blandið vel, bætið hinum helmingnum af því út í, ásamt vanilludropum og sítrónuberki og hrærið saman í samfellt deig. Skiptið deiginu í 2 lausbotna form, 22 cm breið.

Athugið að deigið er í þunnu lagi og rétt hylur botninn. Passið að setja deigið ekki alveg út í jaðrana, þá verða hliðarnar fallegri.

Marens

5 eggjahvítur
190 g sykur
50 g hesli- eða möndluflögur

Þvoið hrærivélarskálina mjög vel með sápuvatni. Hrærið eggjahvítur þar til þær eru að verða stífar. Bætið sykri út í smátt og smátt. Hrærið marensinn áfram í 5 mín. eða þar til hann er vel stífur.

Skiptið honum ofan á deigið í formunum, passið að skilja líka eftir bil út við jaðrana, sáldrið heslihnetuflögum ofan á. Bakið botnana í miðjum ofni í 30 mín.

Á milli

2 dl sítrónusmjör (sjá uppskrift fyrir neðan)
3-4 dl rjómi, þeyttur

Takið botnana varlega úr formunum og leggið saman með sítrónusmjöri og þeyttum rjóma. Gott er líka að setja ber á milli.

Sítrónusmjör

Sítrónusmjör er mjög vinsælt í Bretlandi og er oft borið fram sem álegg á ristaða brauðið á morgunverðarborðinu. Þetta er mjög frískandi og má nota ofan á ostakökur, ofan á marengskökur, á milli botna í rjómatertur, setja góða teskeið inn í múffudeig og baka með, nota ofan á pönnukökur og margt fleira.

Sítrónusmjör er gott að nota ofan á ostakökur, ofan á marengskökur, á milli botna í rjómatertur, setja góða teskeið inn í múffudeig og baka með, nota ofan á pönnukökur og margt fleira.

2 sítrónur
3 egg
200 g sykur
80 g smjör

Þvoið og þerrið sítrónurnar. Rífið börkinn af á rifjárni og setjið í pott ásamt safanum. Setjið egg, sykur og smjör í pottinn. Sjóðið saman þar til þykknar og  hellið þá í krukkur. Geymist í viku í kæliskáp.

Umsjón / Sigríður Björk Bragadóttir
Mynd / Rakel Ósk Sigurðardóttir
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Gestgjafinn

fyrir 1 viku

Paprikur eru lostæti

Lesa meira
Kaupa áskrift
Kaupa áskrift

Tryggðu þér áskrift

Ef þú vilt tryggja þér glæsileg og vegleg tímarit, komdu í áskrift!

Kaupa áskrift

Lesa Mannlíf á netinu

Sími 515-5500

askrift@birtingur.is

auglysingar@birtingur.is

ritstjorn@birtingur.is

Velkomin. Mannlíf notar vafrakökur. Sjá nánar.