Vaðlaheiðargöngin verða formlega opnuð 12. janúar nk. en umferð verður hleypt fyrr í gegn. Verklok voru áætluð tveimur árum fyrr en gangagerðin hófst sumarið 2013 og hefur því tekið rúmlega fimm ár. Óvænt fossaði bæði heitt og kalt vatn úr berginu í miðjum framkvæmdum sem stöðvuðust í meira en eitt samfellt ár á tímabilinu.
Kostnaður var metinn 9 milljarðar en nú er búist við að framkvæmdin hafi kostað um 17 milljarða að mati stjórnarformanns Vaðlaheiðarganga hf., Hilmars Gunnlaussonar. Fyrirtækið er að megni til í eigu Akureyrarkaupstaðar og KEA á móti rúmum 40 prósentahlut ríkisins.
Árið 2012 lánaði ríkið til framkvæmdarinnar 8,7 milljarða og síðar aftur 4,7 milljarða. Hilmar sagði í viðtali í 21 að langtímafjármögnun þyrfti og leitað yrði til ýmissa sem hafi trú á verkefninu þegar göngin verða komin í fulla umferð.
Göngin sem eru 7,2 km milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals stytta vegalengdina milli Akureyrar og Húsavíkur um 16 km. Gjald verður 1500 krónur fyrir fólksbíl en frá 700 upp í 1250 séu fleiri ferðir keyptar í einu.