Fimmtudagur 28. mars, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Auðvelt að gleyma sér í Íshúsi Hafnarfjarðar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Dyr Íshúss Hafnarfjarðar verða opnar almenningi um helgina. Þar mun ríkja notaleg jólastemning. Hægt verður að skoða vinnustofur hönnuða, listamanna og handverksfólks ásamt því að sötra kaffi og fræðast um jólakransagerð.

 

Mikið verður um að vera í Íshúsi Hafnarfjarðar um helgina en húsið verður opið á milli klukkan 12 og 17 laugardag og sunnudag. Þá býðst gestum og gangandi að koma í heimsókn og drekka í sig ljúfa jólastemningu og skoða vinnustofur og hönnun þeirra sem eru með aðstöðu í Íshúsinu.

Anna, Óli og allir í Íshúsinu munu taka vel á móti gestum.

Anna María Karlsdóttir sem rekur Íshús Hafnarfjarðar ásamt manni sínum, Ólafi Gunnari Sverrissyni, segir viðburðinn vera fullkominn fyrir þá sem vilja koma sér í svolítið jólastuð. „Hér verður ljúf jólastemning. Fólk getur komið hingað og keypt sér ljúffengt kaffi og kakó frá vinum okkur á kaffihúsinu Pallettunni sem setja upp pop-up kaffihús hjá okkur, skoðað og verslað það sem hönnuðir og listamenn Íshússins bjóða upp á, virt fyrir sér málverk Jóhannesar Níelsar Sigurðssonar í gömlum frystiklefa sem ekki hefur verið opinn almenningi áður og bara notið. Njóta en ekki þjóta er það sem gildir í Hafnarfirðinum,“ segir Anna.

Njóta en ekki þjóta er það sem gildir í Hafnarfirðinum.

„Þá verður Margrét Leópoldsdóttir, Magga okkar sem rekur Golu og glóru, með örnámskeið í jólakransagerð. Ekki þarf að skrá sig fyrirfram, efniviðurinn verður á staðnum og Magga aðstoðar við kransagerðina.“

Fólk forvitið um Íshúsið

Anna segir fólk almennt hafa mikinn áhuga á að skoða það sem gerist innan veggja Íshússins. „Í þessu gamla fyrrverandi frystihúsi hér við smábátahöfnina eru um 30 misstór vinnurými sem við leigjum út til skapandi einstaklinga og smærri fyrirtækja. Hér leigir fjölbreytt flóra fólks aðstöðu og almenningur er mjög áhugasamur um starfsemina. Okkar lúxusvandmál er það að margt fólk vill koma í heimsókn til okkar og skoða, þannig að við brugðum snemma á það ráð að halda opið hús reglulega. Og það er sko auðvelt að gleyma sér í Íshúsinu, fólk týnir sér alveg hérna inni þegar það kemur í heimsókn, það er svo margt að sjá,“ segir Anna og hlær.

- Auglýsing -

Fjölbreyttur hópur fólks er með aðstöðu í Íshúsi Hafnarfjarðar, allt frá bátasmiðum til rithöfunda. „Það sem er svo skemmtilegt við húsið er hversu opið það er, fæstir eru með aflokaða vinnuaðstöðu. Aðaláherslan er á keramik, myndlist og grafík á efri hæðinni og svo er allt frá tréskipa- og hnífasmiðum til rithöfunda á neðri hæðinni,“ segir Anna þegar hún er spurð út í fyrirkomulagið.

Aðspurð hvort fólk geti keypt jólagjafir í Íshúsinu um helgina svarar Anna játandi: „Hér verður hægt að skoða og kaupa en ég tek gjarnan fram að margir í Íshúsinu selja verk sín í Litlu hönnunarbúðinni, á Strandgötu 19. Þar er alltaf hægt að gera falleg og góð kaup.“

Í Íshúsinu er að finna um 30 misstór vinnurými.
Íshús Hafnarfjarðar verður opið á milli klukkan 12 og 17 laugardag og sunnudag.

Myndir / Unnur Magna

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -