Þriðjudagur 24. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

„Druslugangan bjargaði lífi mínu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Druslugangan verður gengin í níunda sinn hér á landi næstkomandi laugardag til að vekja athygli á kynferðisofbeldi og færa ábyrgð kynferðisafbrota frá þolendum yfir á gerendur. Druslugangan sýnir brotaþolum kynferðisofbeldis samstöðu og krefjast betra réttarkerfis og bætts samfélags. Eva Sigurðardóttir er hluti af skipulagsteymi Druslugöngunnar.

„Í rauninni er áherslan að minna á það að við getum öll orðið fyrir ofbeldi óháð kyni, uppruna, aldri, samfélagshópi, stétt og svo framvegis. Megininntak Druslugöngunnar er að kynferðisofbeldi á aldrei rétt á sér og að ábyrgðin er alltaf gerandans. Með aukinni umræðu og sýnileika vinnum við jafnt og þétt að því að útrýma ofbeldi úr samfélaginu,“ segir Eva. „Við erum að sjá í kjölfar aukinnar umræðu um kynferðisofbeldi að varðhundar feðraveldisins hafa risið upp á afturfæturna og berjast með kjafti og klóm. Þess vegna er svo mikilvægt að slaka ekki á í baráttunni og halda áfram að berjast gegn nauðgunarmenningu og feðraveldinu.“

„Með aukinni umræðu og sýnileika vinnum við jafnt og þétt að því að útrýma ofbeldi úr samfélaginu.“ Mynd/Berglaug Petra

„Allir geta orðið fyrir ofbeldi“
Skipulögð dagskrá er öll kvöld vikunnar fyrir gönguna, Eva segir að mætingin hafi verið góð og áhugaverðar umræður hafa skapast. „Í fyrra byrjuðum við með fræðslukvöld með það að leiðarljósi að ná til fleiri samfélagshópa en einungis íslenskra hvítra millistéttarkvenna. Aðrir hópar samfélagsins hafa svolítið orðið útundan í umræðunni. Við sáum það í #metoo-byltingunni að allir geta orðið fyrir ofbeldi og það er mikilvægt að raddir úr öllum kimum samfélagsins fái að heyrast. Við vildum halda þessari vinnu áfram í ár og viljum fókusa á lausnir á þessu mikla samfélagsmeini sem ofbeldi er.“
Peppkvöldið svokallaða verður á sínum stað líkt og síðustu ár. Í ár verður það í Gamla Bíói í kvöld 24. júlí klukkan 20. „Á mánudaginn sýndum við myndina The Bystander Moment í samstarfi við Ofbeldisforvarnarskólann. Á þriðjudaginn héldum við pallborð um ungt fólk og kynferðisofbeldi með áherslu á lausnir. Á morgun kemur Sigrún Bragadóttir og fjallar um hannyrðapönk og stýrir skiltagerð. Fyrir nú utan Peppkvöldið í kvöld og gönguna sjálfa á laugardaginn.“

„Brotaþolar eiga greiðari leið að úrræðum og þeim er frekar trúað. Mikilvægi þess að skila skömminni til gerenda hefur fengið meira vægi og samfélagsumræðan orðin þolendavænni.“ Mynd/Berglaug Petra

„Tölum saman, ekki nauðga“
Eva segir að Druslugangan skipti gríðarlega miklu máli. Hún sé mikilvægt vopn í baráttunni gegn þöggun, drusluskömmun og kynferðisofbeldi. „Fleiri og fleiri stíga fram og segja frá því ofbeldi sem þau urðu fyrir og eru þannig líklegri til að leita sér hjálpar og vinna úr ofbeldinu. Um leið og við sjáum að við erum ekki ein að vinna úr áfalli verður vinnan auðveldari og saman erum við sterkari. Druslugangan hefur fyrst og fremst skilað sér í aukinni umræðu og bættu viðhorfi samfélagsins til þolenda kynferðisofbeldis. Brotaþolar eiga greiðari leið að úrræðum og þeim er frekar trúað. Mikilvægi þess að skila skömminni til gerenda hefur fengið meira vægi og samfélagsumræðan orðin þolendavænni.
Fyrir mig og eflaust marga aðra bjargaði Druslugangan lífi mínu. Ég skilaði skömminni. Teymið sem ég vinn með að skipulagningunni, og allar þessar druslur sem mæta, standa þétt við bakið á mér og öðrum þolendum ofbeldis og þannig erum við sterkari. Saman.“

Fleiri og fleiri stíga fram og segja frá því ofbeldi sem þau urðu fyrir og eru þannig líklegri til að leita sér hjálpar og vinna úr ofbeldinu.

Eva segist vonast eftir því að gangan verði fjölmenn á laugardaginn. „Þetta hafa verið mörg þúsund manns sem hafa mætt síðustu ár og ég vona að enn fleiri mæti í ár. Fólk gleymir oft að slagurinn er ekki búinn og að við þurfum að halda áfram. Mikilvægi þess að mæta og sýna samstöðu og krefjast breytinga er gríðarlegt. Og ég vil hvetja fólk til þess að mæta, hvort sem það verður í gönguna hér í Reykjavík eða á Akureyri, Húsavík eða Borgarfirði Eystri. Allir andstæðingar nauðgunarmenningar og drusluskömmunar eru velkomnir. Stundum virðist baráttan óyfirstíganleg enn í krafti fjöldans færum við fjöll. Verum druslur. Tölum saman, ekki nauðga.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -