Föstudagur 19. apríl, 2024
-0.9 C
Reykjavik

Eiga konur að vera betri stjórnmálamenn?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kvennafrídagurinn 24. október síðastliðinn markaði fjörutíu og þriggja ára afmæli þess er 90 prósent íslenskra kvenna lögðu niður vinnu og fjölmenntu á Lækjartorg til að mótmæla kynbundnum launamun og öðru misrétti sem konur urðu fyrir í samfélaginu. Sýndu og sönnuðu að vinnuframlag kvenna skiptir sköpum fyrir hin margfrægu „hjól atvinnulífsins“ og að samtakamáttur kvenna er frumforsenda þess að framfarir náist. Síðan þá hefur Ísland skipað sér í fremstu röð hvað varðar jafnrétti og er ár eftir ár í efsta sæti lista yfir lönd sem standa sig best við að tryggja réttindi kvenna. Það var því til einhvers barist þótt enn sé því miður langt í land með að fullt jafnrétti náist.

Á þessu fjörutíu og þriggja ára afmæli voru enn og aftur haldnir útifundir víða um land, skrifaðar greinar í fjölmiðla og rykið dustað af gömlum baráttusöng Rauðsokkanna sem voru hvatakonur að kvennaverkfallinu 1975. Allt hið ágætasta mál en féll nokkuð í skuggann af pistli sem eigandi Kvennablaðsins, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, skrifaði á vefsíðu blaðsins þar sem hún, að margra mati, réðist gegn þeim konum sem hæst ber í þjóðfélaginu í dag. Það varð uppsláttur á flestum vefmiðlum að Steinunn Ólína hefði sagt forsætisráðherra landsins, Katrínu Jakobsdóttur, vera eins og tusku í höndum Bjarna Benediktssonar. Og 90 prósent þeirra sem tjáðu sig um skrifin voru hin lukkulegustu með þessa einkunn sem konunni í forsætisráðherrastólnum var gefin. Þannig er nú kvennasamstaðan fjörutíu og þremur árum síðar.

Það virðist reyndar vera að verða nokkurs konar þjóðaríþrótt að hrauna yfir Katrínu Jakobsdóttur og kenna henni um allt sem aflaga fer í höndum núverandi ríkisstjórnar og fer ekki hjá því að maður velti því fyrir sér hvort hún fengi aðra eins útreið ef hún væri karlmaður. Ekki var Sigmundur Davíð kallaður tuska í höndum Bjarna Ben þegar þeir voru saman í ríkisstjórn, svo dæmi sé tekið, og reyndar hefur enginn karlkynsforsætisráðherra fengið yfir sig aðra eins lítillækkun og ásakanir um þjónkun eins og Katrín. Það fer því ekki hjá því að maður spyrji sig hvort það þyki góð og gild latína í jafnréttisparadísinni Íslandi að tala niður til kvenna í áhrifastöðum og gera því skóna að þær séu viljalaus verkfæri í höndum karlanna sem þær vinna með. Séu tuskur og strengjabrúður.

Undirliggjandi tónn í þessum niðrunum sem beint er að forsætisráðherranum er að vegna þess að hún er kona eigi að gera meiri kröfur til hennar um gott siðferði og „kvenleg“ sjónarmið í pólitík. Konur eiga sem sagt enn og aftur að standa sig betur en karlarnir, vera „betri“ í því sem þær gera og sanna að það skipti máli að hafa konur í áhrifastöðum. Þær eru enn þá fyrst og fremst metnar út frá kynferði sínu og eiga að vera „fyrirmyndir“ ungra stúlkna. Aldrei er minnst á það að karlar í stjórnmálum eigi að vera fyrirmyndir ungra drengja í sínum störfum. Er ekki einhver tímaskekkja í þessari hugsun?

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -