Það var fjölmennt í húsakynnum Ljóssins í gær þegar Eliza Reid, forsetafrú, ýtti nýrri herferð Ljóssins formlega úr vör. Hún hélt einlæga ræðu um starf Ljóssins.
„Það er áfall að greinast með krabbamein og það má örugglega fullyrða að allir þekkja einhver sem hefur greinst með sjúkdóminn sem snertir ekki bara þann sem greinist heldur hafa veikindin áhrif á alla fjölskylduna. Lífið breytist og dagleg rútína raskast, við slíkar aðstæður er nauðsynlegt að eiga skjól. Þar hefur Ljósið hjálpar ótrúlega mörgum,“ sagði Eliza meðal annars í ræðu sinni. Þá hvatti hún fólk til að gerast Ljósavinir.
Markmiðið með herferðinni er að vekja athygli á starfi Ljóssins og safna samhliða fleiri mánaðarlegum Ljósavinum til að styðja við starfið.
„Það gekk rosalega vel hjá okkur í gær, eiginlega fram úr væntingum. Fullt var út að dyrum og við vorum virkilega stolt af því að fá Elizu Reid forsetafrú með okkur í lið að ýta herferðinni úr vör,“ segir Sólveig Kolbrún Pálsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri Ljóssins.
Meðfylgjandi myndband var svo sýnt. „Það er óhætt að segja að myndbandið hafi vakið sterkar tilfinningar og við finnum að það eru margir sem tengja við það sem myndbandið kemur inn á,“ segir Sólveig.
Sjá einnig: Eliza Reid ýtir herferð Ljósavina úr vör
Myndir / Ragnar Th Sigurðsson