Forstjóri Boeing segir að flugvélaframleiðandinn hafi ekki gert tæknileg mistök í hönnun 737 MAX-vélanna.
Forstjóri Boeing, Dennis Muilenburg, segir að það hafi ekki verið tæknileg mistök í hönnun 737 MAX-véla Boeing sem olli þeim tveimur mannskæðu flugslysum sem urðu í október og mars en slysin hafa verið rakin til bilunar í búnaði vélanna.
„Það eru engin tæknileg mistök hér,“ sagði Muilenburg í samtali við fjárfesta þegar hann kynnti fyrir þeim ársfjórðungsskýrslu Boeing í gær.
Hann viðurkenndi þó að skynjarar flugvélanna hefðu gefið stýrikerfi vélanna rangar upplýsingar þegar slysin tvö urðu. Þessar röngu upplýsingar munu hafa virkjað sjálfstjórnunarbúnað sem lét vélina taka dýfu þar sem talin var hætta á ofrisi.
Samt sem áður fullvissaði hann fjárfesta að 737 MAX-vélarnar væru öruggar. „Við þekkjum flugvélarnar okkar. Við skiljum hönnun vélanna, hvernig við fengum vottunina og við erum fullkomlega öruggir með þessa vöru,“ sagði hann einnig.
Sjá einnig: Boeing glatar traustinu