Opnar sig um baráttu sonarins við krabbamein: „Ég hef farið í gegnum helvíti“ | Mannlíf

Erlent

Opnar sig um baráttu sonarins við krabbamein: „Ég hef farið í gegnum helvíti“

Söngvarinn Michael Bublé opnar sig um baráttu fjögurra ára sonar síns, Noah, við lifrakrabbamein í viðtali við ástralska dagblaðið Herald Sun, en Noah greindist með krabbamein í lok árs 2016.

Michael og eiginkona hans, leikkonan Luisana Lopilato, hættu að vinna þegar Noah greindist. Í viðtali við Herald Sun segir söngvarinn að hann hafi nánast afskrifað það að snúa aftur í tónlistarbransann þegar sonur hans barðist fyrir lífi sínu. Þá kallar hann son sinn ofurhetju.

„Ég tala ekki um alla söguna, ekki einu sinni við vini mína, því það er of sárt. Þetta er strákurinn minn. Hann er ofurhetja og hann þarf ekki að endurlifa þetta aftur og aftur. En ég hef farið í gegnum helvíti. Og veistu hvað, mér finnst helvíti bara nokkuð góður sumarleyfisstaður miðað við hvað við höfum gengið í gegnum,“ segir söngvarinn, sem var einn sá vinsælasti í heiminum um árabil.

Hér eru hjónin með synina Noah og Elias.

„Ég hélt í alvörunni að ég myndi aldrei snúa aftur í tónlistarbransann,“ segir hann í viðtalinu og bætir við að fjölskyldan hafi verið í algjörum forgangi.

„Fjölskylda er það sem skiptir máli. Heilsa barnanna minna er númer eitt. Sambandið við fjölskylduna mína, eiginkonu mína, trúna mína – allt þetta er að sjálfsögðu númer eitt.“

Eiga von á barni

Michael segir að hann hafi gengið í gegnum mikla sjálfsskoðun í gegnum veikindi sonarins. Hann rifjar upp eitt atvik við sjúkrabeð sonar síns þar sem hann hugsaði af hverju í ósköpunum hann hefði einhvern tímann haft áhyggjur af plötusölu eða hvað fólk væri að segja um hann.

„Allt í einu varð þetta svo skýrt. Þessi skýrleiki gaf mér færi á að finna ást mína fyrir tónlist aftur. Ég ætla að snúa aftur í það sem ég var skapaður til að gera. Ég ætla að snúa aftur í heim sem þarfnast ástar og rómantíkur og hláturs meira en hann hefur þarfnast þess í langan tíma.“

Michael og Luisana eiga einnig soninn Elias, tveggja ára, og eiga von á sínu þriðja barni innan skamms. Söngvarinn segir að Noah líði vel, en foreldrarnir þurfi að fylgjast grannt með líðan hans næstu mánuði og árin.

„Þetta er krabbamein þannig að við þurfum að fylgjast grannt með en ég myndi ekki snúa aftur í tónlist ef það væri ekki í lagi með hann.“

Ertu með frétt?
Hefur þú skemmtilegt efni til að koma á framfæri?

Sjá einnig

Kaupa áskrift
Kaupa áskrift

Vinsæl íslensk og vegleg tímarit

Ef þú vilt tryggja þér glæsileg og vegleg tímarit, komdu í áskrift!

Kaupa áskrift

Lesa Mannlíf á netinu